18.01.1945
Neðri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (3854)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki halda langa ræðu um þetta.

Hv. þm. A.-Húnv. gat þess, að sumt í þessu máli lægi fyrir utan hans þekkingarsvið. En ég held, að það sé kannske eitthvað fleira en það, sem hann sjálfur hefur viðurkennt um það.

Ég vil mótmæla þeim ásökunum og dylgjum, sem fram komu í ræðu hv. þm. um það, að þetta fyrirtæki hefði hagað sér þannig á undanförnum árum, hvað rekstur skipsins snertir, að það út af fyrir sig sé næg ástæða til þess, að fé sé ekki veitt í þetta, sem hann kallar aukin fríðindi. Hv. þm. hefur ekki fært fram nein rök fyrir þessum áburði. Hann talar um, að skipinu Laxfossi hafi verið siglt á fullri ferð upp á sker, og svo bætir hann við, að siglingaljósin hér í höfuðstaðnum hafi sézt. Ég hygg þetta ofsagt hjá hv. þm. Það var moldviðri, þegar skipið strandaði þarna á skerinu, og þótt einhvern tíma hafi blaktað svo fyrir, að sézt hafi leiðarljósin einhvern tíma á leiðinni, þá er langt frá því, að hér hafi verið um bjart veður að ræða. Enda vita allir, að skipstjórinn á skipinu er mjög kunnugur þessari leið og hefur siglt á þessari leið milli 30 og 40 ár og hefur aldrei hlekkzt á fyrr en þetta. Ég álít þetta mjög ósæmilegar dylgjur í hans garð, þó að svo óheppilega tækist til að sigla á skerið. Og þó að skipið hafi siglt á fullri ferð á skerið, þá á fyrirtækið ekki sök á því, þó að svo tækist til í eitt skipti af mörgum hundruðum, sem þessi skipstjóri var búinn að sigla þarna í náttmyrkri og hríð.

Þá sagði hv. þm., að fyrirtækið hefði ekki haft rænu á því að vátryggja skipið nógu hátt. Það er alltaf hægt að tala um það, þegar illa er farið, að það hefði átt að hafa trygginguna hærri, en vátryggingin var hækkuð nokkru áður en þetta skeði, en það sýnir þá, að tryggingin var ekki hækkuð með neitt tjón fyrir augum.

Málið er þannig, að nokkrir áhugamenn í þessum héruðum leggja fram álitlega fjárupphæð til þess að annast þessar samgöngur, sem hv. þm. A.-Húnv. og ýmsir fleiri álíta, að sé ríkisins að leggja til. Og ég sé ekki, að það sé neitt ósæmilegt heldur af ríkinu að taka þarna í útrétta hönd og leyfa þann styrk, sem farið er fram á í frv. til þess að annast samgöngur, sem ríkið annars þyrfti að taka að sér, og það með margföldum kostnaði við það, sem hér er farið fram á.