18.01.1945
Neðri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (3855)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Mýr. Hann talaði um það, að ég sé með last á hendur þeim mönnum í þessum héruðum, sem vilja leggja það á sig að leggja fram fé til þess að halda uppi þessum samgöngum. Um það hef ég ekkert sagt, og mér dettur ekki í hug að lasta þá fyrir það út af fyrir sig, enda álít ég ekki nema eðlilegt, að þessir menn verði, eins og margir fleiri annars staðar á landinu, að leggja á sig einhver fjárframlög til þess að annast vöruflutninga frá sér og að, því að það myndu þeir verða að gera, þó að ríkið hefði þetta með höndum, hvað vöruflutningana snertir. En ég álít ekki heppilegt að hafa þetta fyrirkomulag að nota fólksflutningana á fjölförnustu samgönguleiðum landsins til þess að bera kostnaðinn af þeim vöruflutningum, sem þar þurfa fram að fara.

Viðvíkjandi vátryggingunni, þá er alltaf reynt að bera í bætifláka fyrir óhöppin, sem þetta félag hefur gert á því sviði sem öðru. Þá sagði hv. þm. Mýr., að það sé ekki rétt, að sézt hafi siglingaljósin í Reykjavík, eins og ég hafi haldið fram. Það kemur í sjálfu sér ekki málinu við, og hefði ég ekki minnzt á það, ef ekki hefði gefizt tilefni til. En ég var þar staddur og get borið um það og fleiri hv. þm., sem þar voru (PO: Það var hvínandi rok og bylur með köflum.), hvort það var rétt, að siglingaleiðarmerkin sáust. Um þetta skal ég svo ekki fjölyrða, nema tilefni gefist til.