18.01.1945
Neðri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (3858)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Sigurður Kristjánsson:

Það er nú ekki ástæða fyrir mig til þess að deila mjög mikið um þetta mál. Því að það, sem ég tók fram í upphafi, var aðeins eitt atriði, sem er, að ég álít ekki skynsamlegt, fjárhagslega séð, að stofna til þess að byrja ferðir um Akranes og Borgarnes frá Reykjavík með skipi, sem mér sýnist vera allt of dýrt, þó að ég þykist þess viss, að þessar ferðir geti borið sig fjárhagslega, ef þær eru reknar hyggilega, og þá fyrst og fremst með hentugu og ekki allt of dýru skipi.

Nú hefur stór maður í þessu máli, hv. 10. landsk. þm., form. samvinnun. samgöngumála„ allrahæstv. forseti þessarar samkomu, sem við sitjum nú á, Alþ., gert mína afstöðu til þessa máls nokkuð að umtalsefni og minnir mig á það, að algengt sé nú orðið, að menn fái ríkisábyrgð til ýmissa fyrirtækja. Og þetta er náttúrlega alveg rétt. Nú vil ég taka undir hans mál í því efni, að ég tel alveg sjálfsagt, ef félag þetta vildi stofna til skipabyggingar á skynsamlegum grundvelli, líkt, eins og oftast er krafizt um þau fyrirtæki, sem ríkið veitir ábyrgð fyrir, þá mundi ég telja alveg sjálfsagt að styðja félagið í því með ríkisábyrgð, einkanlega af því að ríkisábyrgðir eru ekki ætlaðar fjárhagsleg áhættuspil fyrir ríkið. Og ég hef alltaf greitt atkv. með ríkisábyrgð með það eitt fyrir augum, að þær gerðu lántakendum hægara fyrir um lántökur og yrðu til þess að gera lánin ódýrari fyrir þá, til þess að fyrirtækin gætu þá byggt á fjárhagslega betri grundvelli. Og ég tel alveg sjálfsagt, að ríkið eigi að fara eins að um þetta fyrirtæki. En skilyrðið ætti að vera það, að til lántökunnar væri stofnað með skynsemd, sem ég tel ekki gert, ef á að byggja upp eða gera Við Laxfoss fyrir 11/2 millj. kr., eins og mér skilst, að eigi að gera, og skipið verði tveggja millj. kr. skip og þó ekki alls kostar hentugt til ferðanna að minni hyggju. Þetta er mitt sjónarmið. Ég er ekki í neinum vafa um, að félagið Skallagrímur getur aflað sér fjár til þess að byggja skip, ef það hefur ríkisábyrgð, og þyrfti ekkert hlutafé að koma fram frá ríkisins hendi, enda held ég, ef ríkið ætlaði sér að samþykkja þessar ferðir að einhverju leyti með því að leggja fram fé, þá gæti það alveg tekið þá stefnu, sem hv. þm. A.-Húnv. benti á, að taka ferðirnar sem sé alveg að sér.

Ég ætla ekkert að fara að ræða um þá hlið málsins, en ég vildi aðeins benda á þetta og leggja áherzlu á, að ég tel ekkert vit í því að fara að gera við Laxfoss fyrir þetta geysifé. Nær væri þó, ef menn endilega vilja halda í þennan kopp, að leita fyrir sér um það, hvað kosta mundi að gera við hann utanlands og flana ekki að því að láta viðgerðina verða mörg hundruð þúsund krónum dýrari með því að láta gera við skipið innanlands. Þrátt fyrir það að við viljum allir hlynna að innlendri iðju, þá má það engan veginn verða til þess, að innlend fyrirtæki séu byggð á fjárhagsfeni.