18.01.1945
Neðri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (3859)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal nú ekki vera langorður, en ætla aðeins að segja nokkur orð út af því, sem fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Ég er honum algerlega sammála um, að mjög ákjósanlegt hefði verið, ef hægt hefði verið að bæta úr þessum samgöngum, sem hér um ræðir, með því að byggja nýtt, fullkomið og vandað skip. Og drátturinn á því, að flakið af Laxfossi væri tekið til endursmíðunar, var einmitt af þeirri ástæðu, að félagið eða þeir, sem veittu því forstöðu, gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá nýtt skip, sem annaðhvort væri smíðað fljótlega eða keypt tilbúið. Eftir þær eftirgrennslanir komust þeir að raun um, að það var ekki fyrir hendi og hér var því aðeins um tvennt að ræða: að smiða nýtt skip eftir stríðið eða ráðast í endurbyggingu Laxfoss. Að því máli athuguðu var gerður samningur um endurbyggingu skipsins, sem hér hefur verið lýst í skjölum málsins.

Það má vera, að skipið verði að þessu loknu nokkuð dýrt, en það eru þó ekki fullar 2 millj. kr., sem kostnaðurinn er áætlaður, heldur 1800 þús. kr. Það er að vísu satt, að það er nokkuð mikil fjárhæð, en vonandi er, að skipið beri sig, því að Laxfoss bar sig ágætlega, og sést það bezt á því, að fargjöldin höfðu ekkert hækkað eftir stríð og þangað til skipið strandaði. Síðan hafa fargjöld hækkað mjög mikið, og mundi það muna mjög miklu í rekstri skipsins, ef fargjöldin hækkuðu í samræmi við það, sem eðlilegt væri milli þessara staða á þessum tímum.

Auk þess skýrði hv. 10. landsk. frá því, að samningar hefðu tekizt milli Akraness og fyrirtækisins um, að þetta skip annaðist alla flutninga bæði um Akranes og Borgarnes, sem það hafði ekki nema lítinn hluta af áður, a.m.k. síðustu árin, því að þá var annað skip, sem annaðist flutningana á Akranes. og gerir þetta náttúrlega aðstöðu skipsins til að bera sig miklu betri. Hitt er náttúrlega gefið mál, að ef hægt hefði verið að fá enn þá ódýrara skip, þá hefði sú aðstaða verið betri. En ég er hræddur um, að ef beðið væri með að koma þessari skipan á þessi mál, þá mundi kostnaður ríkissjóðs af að annast samgöngurnar þangað til nýtt og betra skip kæmi, vera miklu meiri en þau útgjöld, sem hér er ætlazt til, að ríkið leggi á sig, og þar af leiðandi hagur fyrir ríkissjóð að leggja í þetta.

Um skipið Laxfoss sjálft vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er dómur þeirra vélsmiða, sem tekið hafa að sér endurbyggingu skipsins, að það sé svo sterkt og vel byggt, að aldrei hafi komið til viðgerðar hjá þeim sterkbyggðara skip. Það var almannamál sömuleiðis áður, að skipið væri það sterkt, að óvenjulegt þótti. Þótti það tíðindum sæta, meðan það annaðist samgöngur milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja um skeið, að um vetrartíma fór Laxfoss einu sinni ferð sína óhikað milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur í veðri, sem Esjan lagðist í var og áleit ekki siglingaleiðina færari en svo, en Laxfoss fór sína ferð þrátt fyrir það.

Nú verður skipið að ýmsu leyti betra en áður, því að það verður lengt, og talið er af málsmetandi mönnum, að það verði betra sjóskip, því að það fær miklu sterkari vél og mun þess vegna einnig geta farið á miklu skemmri tíma á milli, svo að a.m.k. sá kvalatími, sem sjóveikir menn hafa á þessari leið, styttist að mun. Ég held, að hv. þm. hafi verið eitthvað illa fyrirkallaður, þegar hann fór með skipinu og vissi ekki, hvað var upp eða niður á því. Ég vildi aðeins bera saman Fagranesið og Laxfoss, því að ég hef farið með báðum skipunum. Það er enginn samanburður, hve Laxfoss fór betur í sjó, því að hann var bæði stærri og betur byggður. Ég held, þegar hv. þm. stuðlaði að því, að vinir hans vestur á fjörðum fengu Fagranesið til að ferðast með, þá ætti hann að þola, að Borgfirðingar ferðuðust með Laxfossi, sem þeir kjósa heldur en fara landleiðina. Þótt ég viðurkenni rök hv. þm. um, að bezt væri að fá nýtt skip í þessar ferðir, þá eru allar aðstæður svo, að ég álít, að þetta sé bezta leiðin.