19.01.1945
Neðri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (3863)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég sé ekki ástæðu til þess að breyta ákvæðunum um stjórn þessa fyrirtækis frá því. sem nú er. En í gildandi l. um þetta efni er ákveðið, að ríkisstj. megi skipa einn mann af þremur í þessa stjórn, sem hún hefur ætíð gert, að ráða þar með vali eins manns af þremur. Og ég sé enga ástæðu til þess að fjölga mönnum í þessari stjórn. Hún yrði dýrari með því móti og þyngri í vöfum. Og hvað því viðvíkur, að nauðsynlegt sé að hafa fulltrúa frá fyrirtækinu hér í Reykjavík, þá er það fyrst, að framkvæmdastjóri þess er hér, eða a.m.k. hefur framkvæmdastjórastörf á höndum hér í Reykjavík sá maður, sem þar stendur fyrir afgreiðslu skipsins. Í öðru lagi er stjórninni í lófa lagið, ef henni þykir henta, að hafa þann stjórnarnefndarmann, sem hún skipar í stjórn fyrirtækisins, búsettan hér í Reykjavík. Þannig tel ég, að hægt sé að fá það fram. sem hv. þm. ætla sér með þessari brtt. að ná, án þess að l. sé nokkuð breytt frá því, sem nú er. (PZ: Það er með því móti ekki vissa fyrir því, að hann verði í Reykjavík.) Nei, það er ekki. En mér finnst miklu eðlilegra, að þar sem ríkið á 1/3 hlutafjár í fyrirtækinu, þá sé ríkinu tryggður réttur til þess að skipa þennan eina mann, sem er einn þriðji hluti stjórnar fyrirtækisins.