13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. — Frv. það, sem liggur hér fyrir, var borið fram í hv. Nd. af þremur hv. þm. þar og er um breyt. á l. frá 1935, um hlutafjárframlag og ábyrgð ríkissjóðs fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi. Og með þessu frv. er í raun og veru ekki annað gert en að halda áfram á þeirri braut, sem þar var farið inn á, sem sé, að ríkið annars vegar legði fram nokkurt hlutafé í þessu félagi og á hinn bóginn ábyrgðist það, sem á vantaði, til þess að þeir fjármunir væru fyrir hendi, sem þyrfti til þess að koma upp skipi til þessara ferða.

Reynslan á þessu fyrirtæki varð tiltölulega góð. Félagið hafði skipið Laxfoss í förum. sem var fremur notalegt skip fyrir farþega og bar sig betur en skip hafði gert annað, sem haft var áður til nota í ferðir á þessari fjölförnu leið. Fargjöld voru að vísu mjög há, þó ekki svo. að menn teldu það eftir, sérstaklega þegar ófær var leiðin fyrir Hvalfjörð og þar að auki ekki kominn greiður vegur til Akraness og þess vegna ekki um annað að gera en að hafa þessar ferðir um Borgarnes. Þetta hefur að vísu breytzt nokkuð á síðari árum, bæði um samgöngurnar við Akranes og fyrir Hvalfjörð, þannig að samgöngur eru nú orðnar greiðari fyrir Hvalfjörð og á landi til Akraness. En þó er reynslan sú, að fjöldi fólks fer enn þessa leið um Borgarnes.

Nú vildi það slys til í fyrra, að Laxfoss strandaði, eins og kunnugt er, á leið frá Borgarnesi til Reykjavíkur. Og síðan hafa verið óhentugar ferðir á milli Reykjavíkur og Borgarness, sem hafa gefið hina verstu raun, bæði að því er snertir þægindi fyrir farþega og hitt, hve illa fyrirtækið hefur borið sig, þannig að stórkostlegur halli hefur orðið á þessum ferðum. og svo mikill, að það fjárhagstjón, sem þar er um að ræða, nær töluvert upp í a.m.k. þau fjárframlög, sem hér er um að ræða í þessu frv., að ríkið og þetta fyrirtæki skipti á milli sín. Er í raun og veru miklu merkilegra en að hér skuli vera farið fram á það, sem í frv. greinir, hve lengi það hefur dregizt að gera ráðstafanir til þess að gera við Laxfoss, sem að vísu skemmdist mikið, en þó ekki svo, að ekki væri vel gerlegt að gera við hann. Það var í sjálfu sér merkilegt, að ekki skyldi fyrr vera ráðizt í að byggja skipið upp.

Nú eru þær upphæðir, sem hér er um að ræða í þessu frv. miklu aðrar en þær, sem um var að ræða 1935 í þessu sambandi. En hér er farið fram á, að ríkissjóður inni nú af hendi sama hlutverk og hann gerði eftir l.- um sama efni frá 1935 í sömu hlutföllum, þannig að hann taki nú enn. þá þátt í að leggja fram hlutafé og leggi fram. 1/3 þess á móti 2/3 hlutum annars staðar frá og ábyrgist það fé, sem að láni þarf að taka til þess að koma skipinu aftur í gang. Tvær smiðjur hafa tekið að sér það verk að gera við skipið, og er mér tjáð, að það sé langt komið nú, svo að skipið geti tekið til starfa með vorinu. Upplýsingar hefur n. ekki fengið um það. hvernig út muni koma þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um kostnað við viðgerðina. En áætlað er, að skipið dálítið stækkað og með mjög auknu vélarafli eigi að kosta 1800 þús. kr. Þessa fjár er ætlazt til. að aflað verði þannig. að gamla hlutaféð verði notað sem er 50 þús. kr. frá ríkissjóði og 100 þús. kr. annars staðar að, svo og varasjóðurinn, 450 þús., kr., sem eru 600 þús. kr. samtals. Nú er hér í frv. farið fram á, að lagt verði fram hlutafé, allt að 450 þús. kr., og að af því leggi ríkissjóður fram. 150 þús. kr., en 300 þús. kr. komi annars staðar frá. Eru þessi framlög þá 1050 þús. kr. Til þess að skipið verði fullbúið, þarf eftir áætlun 750 þús., kr. í viðbót við það, og gert er ráð fyrir, að það fé verði tekið að láni, og er hér farið fram á, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir þessu.

Í Nd. féllst hv. n. á það, að einum manni undanskildum, að samþ. bæri þetta frv., og sú hv. þd. breytti frv. lítillega, til bóta að því er ég hygg vera. Og fjhn. þessarar hv. d. virtist málefni öll standa til þess, að þetta frv. bæri að samþ., og mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir.