09.01.1945
Neðri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

235. mál, skipakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Þess er getið í grg. frv., að ríkisstj. hafi gert samninga um smíði á 45 bátum í Svíþjóð, sem seldir hafa verið einstaklingum, félögum og bæjar- og sveitarfélögum. Þetta mál hefur ekki verið flutt hér á þingi, en samningarnir voru gerðir af fyrrv. ríkisstj. með samþykki þriggja þingflokkanna. Ég tel rétt að leita þingheimildar fyrir þessu. En það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, er það, að mér þykir 1. gr. frv. þannig orðuð, að skilja megi hana á tvo vegu. Ég vildi því beina þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvort hún lítur svo á, að í gr. felist heimild fyrir hana til þess að gera framvegis kaup á skipum án samþykkis Alþingis, eða hvort þetta gildir einungis um þá 45 báta, sem þegar hafa verið keyptir.

Ég spyr að þessu vegna þess, að ég tel eðlilegast, að stj. leiti ætíð heimildar þingsins, áður en ráðizt er í slík kaup, ef fé til þeirra skal varið úr ríkissjóði upp á væntanlega sölu síðar.

Ef hæstv. ríkisstj. leggur þann skilning í þetta, sem mér finnst felast í grg., að hér sé einungis um þau kaup að ræða, sem þegar hafa verið gerð, þá hef ég ekkert við þetta að athuga, en ef hún skoðar þetta sem almenna heimild til kaupa á nýjum atvinnutækjum, þá vil ég, að frv. sé breytt í þá átt, að heimildin nái einungis til þessa máls. Ég tel því rétt, að sjútvn. athugi þetta mál milli umr.

Þá vil ég benda á, að ég tel, að orðalag 2. gr. geti varla staðizt, en þar stendur, að ríkisstj. sé heimilt að taka allt að 15 millj. kr. lán, er greiðist upp, er skipin hafa verið seld.

Er þetta ekki hæpið? Er því ekki þannig farið, að yfirleitt sé búið að tryggja sölu á þessum skipum? Þá vil ég spyrja, við hvað þessar 15 millj. kr. eru miðaðar.

Ég hefði hugsað, að þær lánsstofnanir, sem lána fé út á bátana, geti lagt fram fé, þótt bátarnir séu eigi að öllu leyti tilbúnir.