09.01.1945
Neðri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

235. mál, skipakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Það er talið, að frv. sé flutt af fjhn. d. Ég á sæti í þeirri n., en var þó ekki kunnugt um flutning þessa frv., fyrr en eftir að búið var að útbýta því prentuðu hér í hv. d. Ég geri ráð fyrir, að meiri hl. n. hafi tekið ákvörðun um það að flytja málið, áður en ég kom til þings eftir það þinghlé, sem var tekið nú um hátíðina. En einmitt vegna þess, að ég tók ekki þátt í meðferð málsins, þá hef ég ætlað mér að beina fyrirspurn til flm. eða hæstv. ríkisstj. um það, hvort kaupverð þeirra báta, sem nú er búið að gera samning um kaup á í Svíþjóð, sé í heild 15 millj. kr., eins og greinir í 2. gr. frv.

Það stendur í grg. frv., að það sé flutt samkvæmt beiðni atvmrh., og hafa fylgt því þær aths., sem þar greinir. En í þessum aths. segir, að ríkisstj. hafi gert samning um kaup á 45 bátum í Svíþjóð, sem seldir hafi verið einstökum mönnum, félögum og bæjar- og sveitarfélögum. Nú gaf hæstv. atvmrh. þá yfirlýsingu í ræðu sinni, að það væri ekki búið að selja þessa báta, og virðist mér það alveg stangast á við það, sem segir í grg., sem þó lítur út fyrir, að komin sé frá þessum hæstv. ráðh. Mér þætti gott, ef flm. málsins eða ríkisstj. vildu gefa upplýsingar um, hvernig háttað er með kaup þessara Svíþjóðarbáta.