15.11.1944
Neðri deild: 74. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

183. mál, nýbyggingarráð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Aðeins örstutt aths., sem er leiðrétting. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri einkennilegt af mér að kalla það þjóðlygi, sem haldið væri fram um, að hægt væri að byggja stórfellda nýsköpun upp á þeim grundvelli, sem nú væri með tilliti til framleiðslukostnaðarins í landinu, — þetta væri einkennilegt af mér, þar sem Framsfl. hefði lagt til í þeim samningaumleitunum, sem hefðu átt sér stað, að ýmsar framkvæmdir væru gerðar í atvinnumálum, án þess að gera kröfu um lækkun kaupgjalds. — Hæstv. forsrh. hefði átt að minnast þess, að í öndverðum þessum samningatilraunum hélt Framsfl. því fram, að réttast væri, að fram færi allsherjar lækkun á öllum þeim liðum, sem mynduðu framleiðslukostnaðinn. Þetta fékk nú engan byr og var þess vegna úr sögunni.

Það er rétt, að Framsfl. gat hugsað sér að taka þátt í stjórn, þótt þessu skilyrði væri ekki fullnægt, en þó með því eina skilyrði, að kauphækkanir í landinu yrðu stöðvaðar, það yrði hætt að hækka kaupið, ef bændur ættu að hætta að hækka verðlagið á framleiðsluvörum þeirra. Framsfl. hefði tekið þátt í ríkisstjórn, þótt þessu hefði ekki verið til að dreifa. Og hann hefði gjarnan viljað hafa í þeim stjórnarsamvinnusamningi ákvæði um það, að stuðlað yrði að nýsköpun atvinnuveganna og gerðar um það áætlanir. En Framsfl. hefði aldrei gengið inn á — þótt stjórnarmyndun hefði átt sér stað með hans þátttöku — að líta fram hjá því, hvernig nú er ástatt um fjárhagsmál þjóðarinnar og afkomu, og aldrei slegið af því, og þótt hann vildi mynda stjórn til bráðabirgða, þá hefði hann ekki trú á því, að það gæti tekizt með neinu afli, nema leiðréttingar færu fram í sambandi við framleiðslukostnaðinn. Þannig litum við á þessi mál, og þannig lítum við á þau enn.