14.02.1945
Efri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (3916)

235. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal ekki fara að ræða um það við hv. þm. Barð., hversu hagstæð eða óhagstæð kaup á sænsku bátunum séu. Ef til vill eru aðrir þessu kunnugri en ég er, en ég hygg, að þessi mál hafi gengið milli svo margra, áður en kaupin voru gerð, að telja má nokkurn veginn víst, að ekki var völ á betra; annaðhvort, var að gera þessa samninga eða eiga allt í óvissu um kaup á bátum.

Hins vegar vil ég leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. þm., um það, að nauðsyn bæri til þess að afgreiða þetta frv., af því að svo sérstaklega óhagstæð kaup hafi verið gerð á bátum. Þetta er fjarri sönnu. Með því að ríkið var að kaupa báta, er óhjákvæmilegt fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa fé milli handanna til þess að leysa bátana út. Annað er ekki um að ræða í þessum efnum. Þetta frv. er því á engan hátt bein afleiðing af því, hvort gerðir hafa verið hagstæðir eða óhagstæðir samningar um bátakaup, og tel ég allt benda til þess, að þessi kaup séu þannig, að varla hafi verið hægt að búast við betra. — Hv. þm. lauk ræðu sinni með því, að sænska ríkisstj. hefði álitið sig hafa gert svo kaup við íslenzku stj., að afleiðingin af því væri sú, að verðlag á bátum hefði hækkað í Svíþjóð. Ég vil í því sambandi taka það fram, að mér er á engan hátt kunnugt um, að sænska ríkisstj. hafi haft nokkra aðild í samningum um bátana, — það var samið um þessi bátakaup við skipasmíðastöðvar í Svíþjóð, — en þau einu afskipti, sem sænska ríkisstj. hafði í þessu máli, voru þau, að hún leyfði útflutning á bátunum, samkv. því, sem í samningnum var ákveðið.