17.02.1944
Sameinað þing: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3953)

36. mál, veðurfregnir

Flm. (Pétur Ottesen):

Það getur engum blandazt hugur um það, að hér á okkar landi hagar svo til, að þess er ærin þörf, að landsmenn taki í sína þjónustu þau tæki, sem við höfum yfir að ráða í því að hagnýta okkur aðstöðuna til þess að geta spáð nokkuð fram í tímann um það, hvernig viðrar. Þessi skilningur hefur lengi verið uppi hér á landi, og má segja það, að tæknin til að ráða í um veðrið var tiltölulega ekki langt á veg komin, þegar hafizt var handa um að gera tilraunir til þess, að Íslendingar tileinkuðu sér þessa tækni. Atvinnuvegum okkar bæði til lands og sjávar er þannig háttað, að sennilega hvergi á byggðu bóli á atvinnureksturinn jafnmikið undir veðurfarinu og hér á landi, enda er það ekki að undra, því að lega landsins er þannig, að það liggur á straumamótum, þar sem æstir vindar geisa um og mætast iðulega með þeim afleiðingum, sem mönnum er kunnugt um.

Loks var það, að hér var komið á fót stofnun, — og var það þó tiltölulega snemma, eins og ég tók fram áðan, — sem átti að hafa það hlutverk að gera veðurathuganir og spá fyrir um veðrið. Íslendingar áttu því láni að fagna, að hér var þá á landi gáfaður maður, sem hafði kynnt sér þessi efni og nú er forstjóri Veðurstofunnar, hr. Þorkell Þorkelsson. Þá var einnig við nám úti í Noregi Íslendingur, sem hafði lært þar veðurfræði og auk þess unnið að þessum störfum um nokkurt skeið í Bergen, einmitt á þeim stað, þar sem veðurskilyrði eru einna líkust því, sem er hér á landi. Þessi maður, Jón Eyþórsson, var einnig fenginn til þess að starfa hér á Veðurstofunni, og höfum við því búið að störfum þessara manna síðan. Hafa verið aldir upp menn í stofnuninni til þess síðar að taka við af þeim. Þessi veðurstofa okkar eða þau afköst, sem eftir hana liggja hér á landi, svo sem veðurspár, veðurfregnir og gögn fyrir atvinnuvegi landsmanna, hafa ekki staðið að baki slíkum stofnunum annars staðar úti um heim, þegar litið er á, hversu afstaða öll er erfið hér á landi til þess að afla slíkra gagna, sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að geta byggt á nokkurn veginn áreiðanlegar veðurspár.

Sú aðstaða, sem Veðurstofan hafði hér, þangað til stríðið skall á, var þannig, að hún náði til veðurstöðva á því umhverfi, sem talið var nauðsynlegt til þess að byggja á nokkurn veginn ábyggilegar veðurfregnir. Þannig hafði Veðurstofan samband við stöðvar á Bretlandseyjum, austurströnd Ameríku, Grænlandi, Jan Mayen og einnig í Noregi. Þannig var lagður grundvöllurinn að því, að nokkurn veginn var hægt að ráða í veðurlag hér á næstu dægrum. Það, sem á vantaði, að hér væri samfelld og nægileg aðstaða fyrir hendi, var það, að það er stórt hafsvæði, sem liggur milli Bretlands og Ameríku, og er það mikilsvert fyrir veðurspár hér á landi að geta haft nokkrar fregnir af þessu svæði. Nú stóð svo á, að svæði þetta var fjölfarið af skipum, og gat því Veðurstofan haft samband við þau og á þann hátt fengið við og við fregnir um veðurfar á þessu svæði. Einnig þetta stuðlaði að því, að veðurspár mættu að sem beztu gagni koma fyrir landsmenn.

Þannig var þá málum komið, þegar stríðið skall á. En það hefur nú haft þær afleiðingar í för með sér, að nú stöndum við Íslendingar, hvað þetta snertir, algerlega varnarlausir, því að strax eftir að styrjöldin skall á, missti Veðurstofan fyrst allt samband við Danmörku og Noreg, eftir að þau lönd voru hertekin, og síðan þau sambönd, sem hún hafði haft við Bretlandseyjar, Ameríku og Grænland. Eftir að Ísland var hernumið, voru menn úr brezka setuliðinu um skeið í samstarfi við Veðurstofuna, og fékk hún þá nokkuð slitróttar fregnir frá stöðvum á ströndum Bretlands og Grænlands.

Þannig var málum háttað, þangað til árið 1941, en í byrjun þess árs var það, að setuliðið hér flutti sig burtu af Veðurstofunni og kom sér annars staðar fyrir með sjálfstæðum veðurathugunum. Þar með lauk því sambandi, sem Veðurstofan hafði haft við setuliðið um það að fá veðurfregnir. Síðan hefur svo Veðurstofan ekki haft nokkurt samband við þá staði, sem hún áður byggði á allar sínar veðurathuganir og veðurspár, og hefur því að þessu leyti verið innikróuð. Það svæði, sem Veðurstofan ræður nú yfir og getur fengið fregnir af, er eingöngu strandlengja landsins, og eru þó á því annmarkar, því að ég ætla, að upp á síðkastið hafi verið nokkurt hlé á, að Veðurstofan hafi fengið fregnir frá Papey. Það eru sem sagt eingöngu þeir staðir á strandlengju landsins, sem veðurathugunarstöðvar eru á, sem Veðurstofan getur fengið fregnir frá. Það er því skiljanlegt, að ekki er hægt að spá fram í tímann til neins gagns um það, hvernig viðra muni hér á landi, og því síður á fiskimiðunum kringum strendur landsins, þar sem aðeins er hægt að fá fregnir af veðurfari á svo takmörkuðu svæði. Aðstaða Veðurstofunnar núna er því sú, að þær veðurspár, sem hún sendir út, eru algerlega gagnslausar, a. m. k. fyrir fiskimenn landsins, enda viðurkenna þeir, sem standa fyrir Veðurstofunni, að þetta sé aðeins til þess að halda starfseminni uppi, en geti ekki verið til neins verulegs gagns fyrir almenning, sem á svo mikið undir veðurfregnunum. Sjómenn hafa einnig rekið sig á, að veðurfregnir þær, sem nú eru sendar út, eru aðeins svipur hjá sjón við það, sem áður var, og hafa menn þess vegna vanizt af því að byggja nokkuð á þessum fregnum viðvíkjandi sjósókn eða störfum í landi. Hafa því þeir, sem eiga mikið undir veðrinu, algerlega horfið frá því að varpa nokkru af áhyggjum sínum yfir á þessar fregnir, vegna þess hve þessar veðurspár eru gersamlega haldlausar. Í þessum sporum stöndum við Íslendingar nú varðandi öflun veðurfregna, og þessi er aðstaða okkar nú til þess að geta spáð nokkuð fram í tímann um veðrið, spá, sem þá vitanlega kemur ekki að neinu gagni.

Önnur hlið þessa máls er sú, að samfara því, sem Veðurstofan hefur misst alla aðstöðu til þess að geta aflað sér fregna um veðurfar og veðráttuútlit til þess að byggja á veðurspár, hafa einnig verið gerðar takmarkanir hér innan lands á því, hvernig Veðurstofan getur komið þessum veðurfréttum á framfæri til landsmanna. Þessar veðurfregnir, sem sendar eru út í sambandi við þá útsendingu, hafa nú verið afmarkaðar við átta svæði hér við strendur landsins, sem má senda þessar fregnir á. Þessi svæði eru: S.-Vesturland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Norðurland, N.-Austurland, Austfirðir og S.-Austurland. Það verður að senda þessar fregnir afmarkaðar á hvern stað fyrir sig, og ekki má gefa neinar upplýsingar um veðurlag á næsta svæði, heldur eru þessar fregnir, hver fyrir sig, einangraðar við eitt af þeim svæðum, sem hér er um að ræða. Mér er t. d. sagt, að menn, sem staddir eru á Norðurlandi og eru að leggja af stað á skipi þaðan til Suðurlands og ætli að afla sér fregna um veðurútlit utan þess hrings eða hins takmarkaða svæðis, sem þeir eru staddir á, geti ekki fengið neinar upplýsingar frá Veðurstofunni um veðurfar á neinum hinna átta áðurnefndra svæða, nema aðeins á því svæði, sem þeir eru staddir á. Vera kann, að eitthvað hafi út af þessu brugðið, en við því eru sett allströng fyrirmæli.

Nú er það svo, að útsendingar þessara fregna eru sendar gegnum landssímann, og þekkja menn, hversu tafsamt oft er að koma skeytum eða samtölum gegnum landssímann út um byggðir þessa lands. Hefur það oft viljað til, að þessi skeyti eða fregnir, sem þannig hafa verið sendar, að borið hefur út af því, að þau kæmust í tæka tíð til þeirra staða, sem þau áttu að fara til. Þetta er ekki nema eðlilegt, því að þessar skeytasendingar eru háðar þeim takmörkunum, sem eru hér á landi á skeytasendingum og símtölum. Þessu er því þannig varið, að okkur er markaður mjög þröngur bás í því að koma þessum lítilfjörlegu veðurfregnum, sem Veðurstofan hefur yfir að ráða, á framfæri. En þetta er, eins og nú er komið, minna atriði, vegna þess að þær veðurfregnir, sem um er að ræða, eru svo lítils virði, að lítið eða ekkert er upp úr þeim að leggja. Þess vegna er það, að þessi takmörkuðu svæði út af fyrir sig eru ekki jafnstórt atriði fyrir okkur og ef við ættum frekari aðgang að öflun upplýsinga um þessi efni. En þá kæmi sú bætta aðstaða ekki að fullu liði, nema rýmkað yrði jafnframt um útsendingarmöguleika á skeytum til þeirra stöðva, sem gefa á upplýsingar.

Sama má segja um talstöðvar og loftskeytastöðvar í skipum, að svo var komið, að ekki var aðeins bannað að nota loftskeytastöðvarnar, heldur var byrjað um eitt skeið að taka þær úr skipunum. Fyrir ötula milligöngu íslenzkra stjórnarvalda var þó komið í veg fyrir þetta. En hins vegar voru þær hömlur lagðar á varðandi notkun loftskeytatækja og talstöðva í skipum og bátum, að í rauninni má ekki nota þessi tæki nema í lífsnauðsyn. Þannig hefur mér verið sagt það af sjómönnum, að notkun talstöðva í bátum sé markaður svo þröngur bás, að það megi ekki einu sinni tala um það, að verið sé að draga línu, og ekki heldur, að ekki sé verið að draga línu, því að í báðum tilfellunum má draga ályktanir um, hvernig veðrið sé á þessum stað. Með öðrum orðum, það má aðeins nota þessi tæki í skipum, ef um er að ræða yfirvofandi lífshættu. Þetta eru því ákaflega harðir kostir, sem Íslendingar búa hér við, ekki sízt þegar litið er á þau skilyrði og þá hörðu baráttu, sem Íslendingar verða að heyja hér fyrir tilveru sinni, auk þess sem sú barátta er nú, eins og sakir standa, einnig háð fyrir tilveru annarra, er njóta góðs af þeim aflafeng, sem hér er framleiddur, hvort heldur til lands eða sjávar.

Þessi aðstaða, að því er snertir öflun grundvallar undir veðurskeytin, sem má byggja á, og þar sem við höfum eingöngu yfir að ráða upplýsingum, sem hægt er að fá frá ströndum landsins, þá nær hún eins og gefur að skilja skammt, sérstaklega með tilliti til legu landsins. Stormsveipir og aftakaveður berast með ákaflega miklum hraða upp að ströndum landsins, en þegar hægt er að fá veðurfregnir af stórum svæðum, þá hefur það reynzt svo að undanförnu, að hægt er að vita um stefnu þessara stormsveipa og einnig að mæla hraða þeirra, og er þannig mögulegt að gera sér nokkuð ljósa grein fyrir því, hvenær þeirra sé að vænta á fiskimiðunum og við strendur landsins og hvenær þeir fari yfir landsbyggðina. Eins og nú standa sakir, stöndum við gersamlega varnarlausir gagnvart þessum aftakaveðrum og vitum ekkert, fyrr en þau eru skollin á með þeim afleiðingum, sem þau hafa í för með sér.

Nú er það svo, að Englendingar og Bandaríkjamenn hafa komið sér upp nokkuð mörgum veðurathugunarstöðvum hér á landi og hafa samband við allar þær stöðvar, sem íslenzka Veðurstofan hafði áður samband við, auk þess sem þeir geta aflað sér upplýsinga frá sínum eigin skipum, sem sigla um hið stóra hafsvæði milli Bretlandseyja og Ameríku og mjög mikilsvert er að geta haft spurnir af um veðurfar. Það vantar því ekki, að hér á landi séu margar stöðvar, sem hafa allar sams konar upplýsingar og íslenzka Veðurstofan hafði áður til þess að byggja veðurspár sínar á og þar á meðal þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru fyrir Veðurstofuna, þegar fárviðri eru í nánd, en það gæti oft orðið til þess að forða veiðarfæratjóni, bátatjóni og stórkostlegu manntjóni. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir hér á landi, og þannig má ætla, t. d. í sambandi við hið mikla fárviðri, sem geisaði yfir fiskimiðin hér við vestur- og suð-vesturströnd landsins síðastliðinn laugardag, að ef Veðurstofan íslenzka hefði haft þessar upplýsingar, þá hefði verið hægt að afstýra því mikla tjóni, sem fárviðri þetta olli. En þessar veðurfregnir, sem setuliðið hér býr yfir, eru algerlega lokuð bók fyrir veðurfræðinga okkar og því ekki til neinnar varúðar fyrir fiskimennina, sem hætta sér út á fiskimiðin á hinum löngu og dimmu vetrarnóttum. Eru þessir menn algerlega sviptir þeirri vernd, sem þeir gætu haft með því að fá aðvaranir um veðurútlit í tæka tíð.

Þess vegna liggur þetta mál þannig fyrir, að það, sem ég ætlast til með samþykkt þessarar þáltill., er það, að stj. vinni að því við hernaðaryfirvöldin hér, að íslenzka Veðurstofan fái sömu aðstöðu og áður til þess að afla sér veðurfregna til að byggja á veðurspár sínar, eða þá hitt, að setuliðsstj. hér eða menn hennar, sem hafa viðkomandi störf með höndum, láti Veðurstofunni í té í tæka tíð þær upplýsingar um veðurfar, sem þeir hafa, svo að Veðurstofan geti svo unnið úr þeim og komið þeim á framfæri til landsmanna í tæka tíð. Mér skilst, að það sé því eftir annarri hvorri af þessum tveim leiðum, sem við verðum að freista þess eftir ýtrustu getu að fá eitthvað unnið á frá því, sem nú er, því að eins og sakir standa, er það meðal annars af þessum sökum, sem sjósókn hér við strendur Íslands er engu síður hættuleg en orustur þær, sem stórþjóðirnar heyja, sem nú berast á banaspjót úti um víða veröld. Hér er því hvorki um meira né minna að ræða en það, að allar líkur eru til, að við verðum að halda áfram að fórna mannslífum á sjónum eins og hingað til, ef fiskimenn verða sviptir þessari vernd, sem veðurfregnirnar gætu veitt þeim, ef engin breyting fæst á þessu gerð. Þetta er því mjög ömurlegt hlutskipti, þegar Íslendingar hafa sjálfir stofnun í sínu eigin landi, sem gæti verið okkur mikil vernd í hinni hörðu baráttu, ef þessi stofnun fengi notið þeirrar aðstöðu, sem hún þarf að hafa og gæti haft til þess að geta aflað sér upplýsinga viðvíkjandi starfi sínu. Setuliðið hér hefur í hendi sinni allar þessar upplýsingar, og er aðeins um það að gera að fá það til þess að láta landsmönnum þær í té.

Það er ekki hægt að krefjast þess af ríkisstj., að hún geri hér nein kraftaverk. Hins má fullkomlega vænta, að hún reyni til þrautar að fá úrlausn á þessu máli eftir þeim höfuðleiðum, sem ég gat um hér að framan. Þeim aðilanum, sem við eigum undir úrlausn þessa máls, ætti að vera bezt skiljanlegt, hvers virði það er, að við getum aflað þess bjargráðs, sem þeir telja sér nú svo mikils vert. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. og ekki sízt hæstv. utanrrh., sem hér verður eðlilega í fararbroddi, er allur af vilja gerður að gera það, sem hægt er til að greiða úr um þetta.

Það, sem ég sagði hér um það, sem við eigum í húfi, er sízt orðum aukið, aðeins blákaldur veruleikinn, eins og reynslan færir okkur heim sanninn um, hvað við blasir, ef ekki fæst úr bætt. — Ég hef enga till. um að vísa málinu til n. Það liggur ljóst fyrir, og full nauðsyn er að geta undið að því bráðan bug sem fyrst. Ég vænti þess, að hv. Alþ. geti fallizt á þessa till. eins og hún liggur fyrir og afgreiði hana síðan til hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil þakka hæstv. forseta, að hann hefur greitt fyrir framgangi þessa máls með því að taka það nú þegar á dagskrá, þó að það samkv. eðlilegum gangi þingmála hefði átt að bíða einum degi lengur.