17.02.1944
Sameinað þing: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3957)

36. mál, veðurfregnir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að Veðurstofan er miklum mun verr sett með að gefa veðurfregnir en var fyrir stríðið. Þetta hefur mönnum verið ljóst, og hæstv. fyrrv. ríkisstj. reyndi að bæta úr því, sem áfátt var. Hið sama hefur núv. ríkisstj. gert. Það er rétt hjá hv. þm., að áður fékk Veðurstofan veðurfregnir frá Ameríku, Bretlandi, Grænlandi og Noregi, en það mun öllum ljóst, að stríðsaðilar líta svo á, að veðurfréttir séu hættulegt vopn í höndum andstæðinga. Þess vegna er í öllum þeim löndum, sem þátt taka í stríðinu, bannað að senda út veðurfregnir, og við það atriði er ekki hægt að ráða. Hins vegar mun það vera svo, að herstjórnin hér á landi fær ýtarlegar veðurfregnir og veðurspár, en hún er mjög fastheldin á þær af þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan, og hún telur miklu máli skipta, að veðurfregnir hennar fari ekki til óvinanna. Það er ástæðan til þess, að treglega gengur að fá þá lausn, sem æskileg væri. Á síðastliðnu ári reyndi núv. ríkisstj. mjög mikið að hafa áhrif í þessu máli og setti fram greinilegar kröfur um, að losað yrði um þau höft, sem eru á Veðurstofunni. Hún bar fram óskir á þann hátt, sem hv. síðasti ræðumaður tók fram, að samvinna yrði höfð um þessi mál milli herstjórnarinnar og Íslendinga, en því miður með neikvæðum árangri, þó að við bærum fram öll þau rök, sem hv. þm. Borgf. nefndi áðan. Ríkisstj. tók þó málið upp aftur og hefur nú farið fram á hið sama með einbeittum kröfum og rökum. Hver árangur fæst, þori ég ekki að fullyrða, en ég fullyrði, að eftir því, sem minn máttur má, skal eftir þessu gengið og leitazt við að fá um þetta svo fljóta og greiða úrlausn sem nokkur kostur er á, og verður þetta gert, hvort sem sú till., sem hér liggur fyrir, verður samþ. eða ekki.

Um Veðurstofuna að öðru leyti vil ég taka það fram, að hún leysir sitt starf af hendi eftir þeim skilyrðum, sem fyrir hendi eru. Um það tilfelli, sem hv. þm. nefndi, þegar ofviðrið skall á, sem olli hinum hörmulegu slysum, er það að segja, að ég ætla, að Veðurstofunni hafi heppnazt að gefa út tilkynningu um, að stormur væri í aðsigi, er hafi verið send bæði til Vestfjarða og stöðva við Faxaflóa. Það breytir að vísu ekki því, að þörf sé á, að bætt sé um skilyrði Veðurstofunnar, og eins og ég sagði, verður lagt allt kapp á, að svo geti orðið.

Mér skildist á hv. þm. Borgf., að það kæmi fyrir, að landssíminn léti veðurskeyti sitja á hakanum. Ég vona, að þetta sé byggt á misskilningi. (PO: Ég sagði það ekki.) Þá bið ég afsökunar, enda ætti að vera í lófa lagið að hafa eftirlit með, að slíkt kæmi ekki fyrir í framtíðinni, og mun verða lagt ríkt á um það, að slíkt komi ekki fyrir.

Hv. flm. sagðist treysta á, að þetta yrði lagt fyrir ráðamenn herstjórnarinnar og reynt að fá þann árangur, sem nauðsynlegur er. En eins og ég sagði áður, hefur þetta þegar verið lagt fyrir hana með ákveðnum kröfum og rökum, og því verður fylgt eftir að fá svör svo fljótt sem kostur er.