19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (3960)

279. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Þetta frv. er samhljóða sams konar frv., sem hafa verið samþ. hér á Alþ. undan farandi ár, um stofnun nýrra veðdeildarbréfaflokka við Landsbankann. Er frv. borið fram eftir ósk stjórnar Landsbankans, sem tjáir í bréfi, að nú sé að verða lokið þeim flokkum, sem heimild er til að gefa út með l. frá 1941. En það voru 13., 14. og 15. flokkur, samtals 12 millj. kr. 15. flokkur er nú á markaðnum, en búizt við, að hann muni ekki endast nema ef hann endist þetta ár. Það er með þessu frv. farið fram á að heimild verði veitt til að gefa út enn þrjá bréfaflokka þannig, að 10 millj. kr. verði í hverjum flokki. Stafar það af því, að enda þótt lánveitingar úr veðdeildinni samkv. því, sem ætlazt er til með þessu frv., fari engan veginn hækkandi neitt til líka á móts við lækkun verðgildis peninga eða verðlagshækkun í landinu, þá er þó búizt við því, að fasteignir verði metnar nokkru hærra og jafnvel töluvert hærra nú en áður hefur verið, og verði því lánin fjárfrekari en verið hefur.

Fjhn. er öll sammála um það, að sjálfsagt sé að setja af stað þessa nýju veðdeildarbréfaflokka. En á hinn bóginn var nokkur ágreiningur í n. um það, hve langt ætti að ganga um lánveitingar að því leyti, hvort fara ætti inn á að lána nokkru hærri fjárhæðir út á sams konar veð heldur en gert er ráð fyrir í frv. En í 6. gr. frv. er talað um, að lánsupphæð megi ekki fara fram úr 3/5 af virðingarverði fasteignarinnar. Tveimur nm. þótti þetta. lágt og vildu heldur miða þetta hlutfall við kostnaðarverð. (BBen: Er virðingarverð sama og fasteignamatsverð?) Nei, það er samkv. virðingu bankans, þannig að bankinn hefur þessar lánveitingar ákaflega mikið á sínu valdi, því að hann tilnefnir virðingarmenn, og virðingin til þessara lána er hvorki miðuð við fasteignamat né brunabótavirðingu, heldur er sérstök virðing á fasteignum gerð að tilhlutun bankastjórnarinnar. (ÞÞ: Er þetta mat ekki gert eftir fyrirmælum sýslumanna, sem tilnefna matsmenn? — EE: jú, en þar kemur svo á eftir endurmat hjá bankanum.) Það lætur nærri, að samkv. ákvæðum þessa frv. og eftir reglum, sem bankinn hefur farið eftir, sé ekki hægt að lána nema 15% af kostnaðarverði húsa hér í Reykjavík. Og það má segja, að það sé mjög lágt. Hins vegar er hér um mjög löng lán að ræða og þess vegna varhugavert að miða lánin við raunverulegt kostnaðarverð. Og meiri hl. n. vildi því ekki fallast á það á móti till. bankans að fara að eggja á að veita hærri lán úr veðdeildinni. Það hefur verið stefna veðdeildarinnar og bankastjórnarinnar, sem stjórnar veðdeildinni, að leitast við það fyrst og fremst að haga svo útlánastarfsemi sinni, að þessi bréf þættu algerlega trygg eign, hefðu algerlega fullt traust á markaðnum. Og það er alltaf nokkuð viðurhlutamikið fyrir Alþ. að beita sér á móti till. þeirra, sem eiga að stjórna veðdeildinni. N. leggur því öll til, að frv. verði samþ., og meiri hl. n., að það verði samþ. óbreytt.