19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (3974)

279. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal aðeins víkja að þessu örfáum orðum. Það eru nokkur atriði, sem ég þarf að svara. Hæstv. fjmrh. tók alveg réttilega fram, að byggingarkostnaðurinn út af fyrir sig væri ekki öruggur mælikvarði á, hvort óhætt væri að lána úr veðdeild, vegna þess að svo ólíkt stæði á á ýmsum stöðum á landinu og verð húseignanna skapaðist kannske meir af þeim mismunandi aðstæðum heldur en af því, hver byggingarkostnaðurinn væri, og benti á í því sambandi, að þar, sem fólkinu fækkaði, lækkuðu fasteignirnar niður úr kostnaðarverði. Einmitt með tilliti til þess, eins og ég drap á í fyrri ræðu minni, sé ég ekki fært að fyrirskipa bankanum ákveðinn hundraðshluta af byggingarkostnaðinum. Þess vegna er það orðað í brtt. þannig, að heimilt sé að lána allt að því, sem þar greinir, en hins vegar er það á hendi bankans, hve há hann telur lánin þurfi að vera á einstökum stöðum, eftir því hvernig stendur á.

Ég vona, að ég þurfi ekki að endurtaka, að ég er alveg sammála hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Reykv. um. að engan veginn megi ganga svo langt í lánveitingum, að traust manna á þeim sé skert, en það, sem okkur greinir á um, er það, hvort svo langt sé gengið, ef samþ. er till. á þskj. 1128, að hætta sé á þessu. Ég fæ með engu móti séð, að svo sé. Hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Reykv. tóku báðir fram, að veðdeildarbréf hefðu á vissu tímabili selzt langt undir nafnverði, allt niður í 70%, og það hefði að sjálfsögðu fyrir lántakandann þýtt sama og lægri hundraðshluti af láninu og byggingarkostnaðinum væri útborgaður, þegar þeir tóku lánið. Það er alveg rétt, en ég get sagt, að það var engan veginn svo, að þessi bréf væru talin ótrygg. Báðir hv. þm. eru mér sammála um það. Ástæðan til þess var eingöngu sú, hve lítið var af mönnum, sem gátu bundið fé sitt til svo langs tíma, sem bréfin hljóðuðu upp á, og vextir þeirra samanborið við aðra vexti, og loks það, sem hæstv. ráðh. réttilega benti á, að bankinn brást þar verulega skyldu sinni í þessu. Hann hefði getað greitt meira fyrir sölu á bréfunum en hann gerði, ef hann hefði sýnt til þess fullan vilja og viðleitni.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef farið væri eftir till. okkar tvímenninganna á þskj. 1128, gætu lánin numið meiru en byggingarkostnaður var fyrir stríð. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef samkvæmt vísitölunni og útreikningum húsameistara, sem hagstofan byggir á, þá er sá grundvöllur, sem miðað er við, að 1939 hafi kúbikmeterinn verið kr. 66,50 í sams konar húsum og gert er nú ráð fyrir, að hann kosti kr. 237,21. Nú er alveg þýðingarlaust fyrir okkur að vera að deila um, hvaða líkur séu til, að verð húseigna fari niður svipað og fyrir stríð. Persónulega mundi ég segja, að engar minnstu líkur væru til þess, en það þýðir náttúrlega ekki að spá miklu um þá hluti. Það verður hver að hafa sína skoðun á því, sem hann telur líklegasta.

Ég benti á og vil endurtaka það, að eins og frv. er nú og eðlilegt er um veðdeildina, þá er réttur bankans og aðstaða í þessum efnum alveg óvéfengjanlegt ákvæði, þar sem bankinn ákveður í raun og veru hvort tveggja í senn, bæði matið og líka þann hundraðshluta, sem lánið er af. Ég get ekki komizt framhjá því, að að vissu leyti finnst mér þetta óeðlilegt, að lánsstofnun hafi bæði fullkomlega í sínum höndum að ráða, hvert matið verður, og líka að ákveða þann hundraðshluta, sem lánið er af matsverðinu, því að af því leiðir, að bankinn hefur svo að segja báða enda í sínum höndum. Þess vegna álít ég vissulega mikið mæla með því, að gerð sé sú grundvallarbreyting, sem hér er lögð til í till. og hv. 1. þm. Reykv. benti réttilega á, að verðmætið, sem við væri miðað, væri ekki ákveðið af bankanum á sama hátt og sá hundraðshluti. sem hann ákveður að lána út á það á hverjum tíma. Ég held því einmitt, að sú grundvallarbreyting sé til bóta frá því, sem nú er.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf um fyrirhuguð vaxtakjör í þessum nýju veðdeildarflokkum. Mér þykir skynsamlegt að reyna, eins og hann gerði ráð fyrir, að gert mundi verða, t.d. með 1. flokk með 3% vöxtum á bréfunum og sjá, hvernig honum væri tekið samanborið við önnur bréf og aðra veðdeildarflokka, sem eru á markaðnum, en einmitt það að lækka vextina á bréfunum og þar með vextina af lánunum gerir trygginguna, sem lántakendum er veitt, betri, almennt skoðaða, og styður heldur að því, að óhætt ætti að vera að lána hærri hundraðshluta út á eignirnar en ella.

Ég get mjög tekið undir ýmislegt af því, sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess, að ekki sé lengra gengið í þessum efnum en svo, að öryggi bréfanna sé í engu skert, en ég get ekki látið hjá líða að minna á, að eins og nú háttar til, er hámark þess, sem veðdeildin lánar út á vel byggð og vönduð steinhús hér í höfuðstaðnum, tæplega sjöundi hluti af því, sem almennt kostar að byggja þessi hús, og það liggur alveg í augum uppi, að á þann hátt getur stofnunin ekki nándar nærri leyst það hlutverk af hendi, sem henni var upphaflega ætlað, þegar hún var sett á stofn.