02.02.1944
Sameinað þing: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

20. mál, eftirlit með skipum

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Við framsögu þessa máls beindi hv. þm. Ísaf. til mín tveim fyrirspurnum, sem ég vil nú svara.

Fyrri fyrirspurnin var um það, hvort það væri með mínu samþykki sem atvmrh., að skipaskoðunarstjóri væri um leið eftirlitsmaður með skipum Eimskipafélagsins. Ég hef ekki verið beðinn um samþykki til þess og því ekki veitt það, en til frekari upplýsingar þykir mér rétt að geta þess, að Eimskipafélagið mun fyrir mörgum árum hafa farið fram á það, að skipaskoðunarstjóri mætti hafa eftirlit með skipum þess, og mun það leyfi hafa verið veitt. Síðan — eða árið 1938, þegar þau l. voru sett, sem nú gilda um skipaskoðun, — þá mun hafa verið rætt um það í sjútvn. annarrar hvorrar hv. d., ég held Ed., hvort rétt væri að banna, að þessi aukastörf væru látin hvíla á herðum skipaskoðunarstjóra, og auka þá jafnframt kaup hans sem svaraði því, er Eimskipafélagið hafði greitt honum, en niðurstaða þingn. varð sú, að hún taldi ekki ástæðu til að gera þetta, því að launakjör hlutaðeigandi embættismanns voru ekki bætt, og hélt hann því áfram þessu aukastarfi. Enn fremur má geta þess, að þetta eftirlit er nú orðið miklu minna en áður var, og er aðeins um eftirlit að ræða, sem tekur tiltölulega lítinn tíma frá aðalstarfi þessa embættismanns. Ég vona, að hv. fyrirspyrjanda þyki þetta nægilegt svar af minni hálfu.

En hvað viðkemur þeirri fyrirspurn hv. þm., hverju sæti, að ákvæðin frá árinu 1938 um að skipa fjórðungsskipaskoðunarmenn hafi ekki verið framkvæmd, er það að segja, að þessi ákvæði hafa þegar verið framkvæmd, og hlýtur fyrirspurnin að vera komin fram af einhverjum misskilningi. Þessir menn voru skipaðir í s. l. mánuði. Ég skal taka fram, að það kom til mála að gera þetta á s. l. ári, en með því að skipaskoðunartíminn var nærri á enda, var þessu frestað þar til nú, að þeir voru skipaðir, um leið og endurskoðendurnir voru skipaðir, til fjögurra ára, frá 1944–1947. Það er ekki mitt að svara því, hvers vegna þeir voru ekki skipaðir frá 1938 og þar til nú. — Ég vona, að þessar upplýsingar séu fullnægjandi fyrir spyrjandann.

Um till., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að mér virðist fyrri hl. hennar vera eðlilegur og sjálfsagður. Mér finnst eðlilegt, að Alþ. eða ríkisstj. skipi n. til að athuga þessi mál öll. Ég vil taka undir þau ummæli, sem hv. þm. Ísaf. hafði hér í gær, að það er sjálfsagður hlutur, þegar fram fara athuganir eins og þær, sem hér á að gera, að þá séu að þeim athugunum loknum gerðar ráðstafanir þær, sem slíkar rannsóknir sýna, að gera þurfi. Ég er því þess vegna samþykkur, að þessi hl. till.samþ.

Um seinni hl. till., að fela sömu n. og mönnum að kynna sér, hvernig skipaeftirlitið er framkvæmt, er það að segja, að ekki er nema gott, að n. geri þetta og færi Alþ. og þjóðinni að athugun lokinni grg. um það, hvernig þetta er gert. Ég er því eindregið meðmæltur, að slík athugun fari fram og allt upplýsist í málinu. Þó að ég geri ráð fyrir, að sú sjódómsathugun, sem nú fer fram, leiði þetta í ljós, sé ég ekki, að það sé til neinna meina, að n. fái þetta til athugunar líka.

Til hv. flm. eða þeirrar n., sem málið fer til eftir 1. umr., vil ég beina því, hvort það sé öruggt að nota í till. um nefndarskipunina orðið skipaverkfræðingur. Ég er ekki fullviss um, að maður með slíku nafni eða titli sé til í landinu, en þó getur það verið. Ég beini þessu aðeins til hv. flm., svo að tryggt verði, að ekkert það standi í till., sem ekki reynist framkvæmanlegt við nánari athugun.