08.02.1944
Sameinað þing: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (4002)

20. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Það hefur upplýstst við umr. um þessa till., að fjórðungseftirlitsmenn með skipaskoðun, sem gert er ráð fyrir í l. frá 1938, hafa ekki verið skipaðir fyrr en í janúar 1942. — Þá hefur einnig verið upplýst af hæstv. atvmrh., að skipaskoðunarstjóri hafi aukastörf með höndum, a. m. k. fyrir Eimskipafélagið, og komst hæstv. atvmrh. að orði á þá leið, að það væri á valdi Alþ. — Ég vil í sambandi við þetta benda hæstv. atvmrh. á það, að samkv. 6. gr. l. um eftirlit með skipum eru aukastörf skipaskoðunarstjóra ekki á valdi Alþ., heldur á valdi ráðh.

Þá hefur það verið upplýst, að endurskoðun á tilskipun um eftirlit með skipum og öryggi þeirra, sem gert er ráð fyrir í l. frá 1938, að fram færi þá fyrir árslok, hefur enn ekki verið framkvæmd. — Nú tel ég þessi þrjú atriði, sem ég nefndi hér, bera þess ljósan vott, að skipaskoðun ríkisins sé ekki framkvæmd eins og vera ber. Ég er ekki að ásaka hæstv. atvmrh. fyrir þetta, þar sem hann hefur ekki setið í þessu embætti lengur en eitt ár. En augljóst er af l., að skipaskoðunarstjóri er í rauninni eins konar skipaskoðunarstjóri skipaeftirlitsins, eða framkvæmdastjóri. Það má furðu gegna um rólyndi skipaskoðunarstjóra, ef hann lætur skipaskoðunina fara svo úr hendi sem þessi þrjú atriði benda til.

Hæstv. atvmrh. gat þess, að æskilegt væri að fá dóm um þetta mál, þar sem allir nytu réttar síns. Ég er alveg sammála hæstv. atvmrh. um það, en ég tel þó ekki, að það sé hægt að fá neina ró um þetta mál og ekki rétt að óska eftir neinni ró um það, fyrr en skorið hefur verið úr því, hvort l. um skipaskoðunina séu fullnægjandi og hvort framkvæmd skipaskoðunarinnar sé fullnægjandi. Ég tel, að þetta mál sé svo aðkallandi og svo mikilsvert, að um það megi engin ró fást, fyrr en skorið hefur verið úr þessu atriði. Það er líka sjálfsagt að láta alla njóta réttar síns, en við verðum þá líka að gæta þess, að það eru tveir aðilar, sem þurfa að njóta réttar síns í þessum efnum. Annar aðilinn er sá, sem framkvæmir skipaskoðunina, en hinn aðilinn er þeir, sem sækja sjóinn, og þeinra aðstandendur. Þeir hafa líka ótvíræðan rétt í þessu máli, og það er ekki síður nauðsynlegt, að þeir aðilar fái að njóta hans, heldur en hinir, sem eiga að framkvæma skipaskoðunina.

Hv. þm. Barð. sagði, að ekkert land í heimi hefði jafnróttæka öryggislöggjöf og Íslendingar um eftirlit með skipum, og minntist því til sönnunar á dæmi, sem ég hafði tekið hér, að komið hefði skip hingað til landsins frá Bandaríkjunum og haft haffærisskírteini þaðan. Þetta skip hafði siglt þrisvar sinnum milli landa fullhlaðið af ísfiski, en var þá svo fúið, að það var að detta í sundur, og eins og ég upplýsti, voru böndin úr þessu skipi borin í pokum upp á hafnargarðinn við vestanverða höfnina í Reykjavík. Ég get ekki talið, að þessi saga sé sönnun um ágæti skipaeftirlitsins, m. a. vegna þess, að það er beint lagabrot að láta skip sigla á milli landa, án þess að fram fari á því skoðun, þó að það hafi haffærisskírteini frá útlöndum. 11. gr. l. frá 1938 um eftirlit með skipum kveður svo á, að aðalskoðun skuli fara fram í hvert sinn er skip kemur frá útlöndum, hvort heldur það er nýsmíðað eða notað. Það, sem hv. þm. Barð. telur þess vegna sönnun um ágæti skipaskoðunarinnar, verð ég að líta á sem vott um ótrúlegt skeytingarleysi. Enda þótt svo kynni að vera, að við hefðum mjög róttæka öryggislöggjöf, jafnvel þá róttækustu í heimi, eins og hv. þm. Barð. kvað að orði, hvað stoðar okkur samt slík löggjöf, ef hún er ekki framkvæmd? — Og jafnvel þótt framkvæmd væri, mundi okkur ekki veita af því, því að ég held, að ekkert land í heimi eigi jafnmikið á hættu að tiltölu við fólksfjölda um, að skipin séu vel útbúin, og Ísland.

Það var nokkuð rætt um þær till., sem fyrir liggja um skipun þessarar n., sérstaklega um það, hvort til væri nokkur skipaverkfræðingur hér á landi. Ég skal viðurkenna það, að sá maður, sem ég hef í huga, er ekki háskólalærður, hins vegar hefur hann tekið skipaverkfræðipróf frá háskóla í Danmörku og hefur síðan starfað í fimm ár í Bretlandi við skipasmíðastöð, sem smíðar stálskip, og hann er meðlimur í félagi brezkra skipaverkfræðinga. Ég tel, að þessi maður sé nægilega lærður, ef hann er fáanlegur til þess að fara í þetta starf, og hann hefur næga kunnáttu til að framkvæma það verk. Þessi maður er Bárður Tómasson. Hins vegar veit ég ekkert um það, hvort hann er fáanlegur til að fara í þetta starf, en hann mun koma til Reykjavíkur bráðlega og starfa með mþn. í sjávarútvegsmálum. En væri hann fáanlegur, mætti setja í till., að hann skyldi vera form. n.

Ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. Barð. orði til orðs út af þessari till., en ég tel, að umr. um þetta mál hafi sýnt og sannað, að hér er stórkostleg þörf endurbóta.

Hv. þm. Barð. bar saman farmskýrslur frá 1938, en sú skýrsla, sem ég hafði í höndum, var frá árinu 1939, og að sjálfsögðu getur komið fram einhver mismunur á því, hvað skipin hafa flutt mest á árinu 1938 og '39. Það hefur vel getað komið fyrir, að eitthvert skip hafi ekki náð fullum farmi á öðru hvoru árinu. En þar sem hv. þm. Barð. bar saman tölur frá 1938, en ég '39, og hann komst að þeirri niðurstöðu, að ég hefði farið með rangt mál, þá vil ég benda honum á það, að hann var með annað ártal en ég. Hv. þm. Barð. virtist halda því fram, að sú skýrsla, sem Fiskifélagið hefur samið um þetta, sýndi ekki, að hér væri um neina ofhleðslu að ræða. Ég er honum ekki sammála um þetta vegna þess, að skipin hljóta alltaf að flytja einhverjar nauðsynjar á milli landa, bæði ís, vatn og kol og fleira þess háttar, og þó að eitthvað kunni að vera í skipunum nú minna af ís og kolum en áður, held ég, að hv. þm. Barð. mundi ganga illa að sanna það, að íslenzkir skipstjórnarmenn og íslenzkir útgerðarmenn hafi öll þau ár, sem togararnir hafa siglt fram að 1943, verið svo óhagsýnir að hafa 100 smálestum meira af nauðsynjum í skipunum á milli landa en þörf var á. En fiskimagn togaranna hefur yfirleitt vaxið um 100 smálestir í skipunum í ferð eða því sem næst. Ég tel ekki þörf á því að deila við hv. þm. Barð. um þetta, því að væntanleg n. mun eflaust skera úr um þetta. Í því dæmi, sem ég nefndi í frumræðu minni, sleppti ég alveg að geta þess, að fiskurinn léttist um 10–15%, frá því að hann er látinn í skipið og þar til skipað er upp í útlöndum, og ég hygg, að þessi rýrnun hljóti að vega upp á móti allmiklu af því, sem nú er farið að taka í land af lífsnauðsynjum. Annars hefur ásóknin í að flytja mikinn fisk milli landa gengið svo langt, að upp úr togurunum hafa verið teknir trollvírarnir, sem mun vera allnauðsynlegt að hafa um borð í skipunum, ef þau lenda í því að þurfa að bjarga öðrum skipum. En til þess er ekkert tillit tekið. Þær umr., sem hafa orðið um þetta mál, hafa orðið til þess, að það mun nú þegar vera farið að sigla togurunum nokkuð léttari en áður. T. d. voru nýlega tekin 18 tonn af fiski úr togara í Hafnarfirði og 7 úr öðrum, áður en þeim var leyft að fara af stað. Þessir togarar báðir komu til hafnar hlaðnir langt upp fyrir hleðslumerki. Ég hygg, að í þessum málum muni nokkurn veginn hið sama hafa átt sér stað og varð um togaravökuna, að ofurkapp hafði gert það að verkum, að menn höfðu leiðzt út í allmiklar öfgar. Þetta ofurkapp kemur ekki einungis niður á sjómönnunum sjálfum, heldur og aðstandendum þeirra og þjóðfélaginu í heild. Það er þess vegna þjóðfélagsmál að fá úr þessu bætt, og það má á engan hátt dragast.

Alþ. hefur verið kvatt saman óeðlilega snemma með tilliti til þess að ráða fram úr einu máli aðallega. Hins vegar er það svo, að það geta komið fyrir mál, sem ekki mega bíða, og ég tel, að þetta mál sé eitt þeirra. Ég vænti þess því, að þessum umr. megi ljúka nú á þessum fundi og n. hraði störfum svo mikið sem henni er unnt.

Ég hef, síðan ég flutti þessa till., átt taI við allmarga menn, sem sigla á togurum, og margir þeirra hafa sagt við mig, að skipin verði allt önnur skip, þegar þau séu búin að fá hálffermi, en hálffermi er um 100 smálestir eða það, sem áður var talið fullfermi. Með öðrum orðum, skipin eru ekki sjóskip lengur, heldur hættuskip, ef slíku heldur áfram. Og einn togaramaður komst svo að orði við mig, að það að sigla um hættusvæði og vinna á skipunum í stöðugum ótta um að komast ekki til lands, jafnvel í blíðskaparveðri, væri slík áreynsla, að enginn maður gæti til lengdar þolað að vera á togara.

Ég tel, að Alþ. og ríkisstj. megi ekki skilja svo við þetta mál, að ekki sé tryggt allt það öryggi, sem hægt er að tryggja. Ég álít, að það sé skylda okkar að koma skipaskoðuninni og eftirliti með skipum í það horf, að við getum allir þm., allir útgerðarmenn og allir menn í landinu rólegir látið sjómennina fara út í skipin, í stað þess að nú eru allir aðstandendur þeirra, sem á togurunum sigla, í stöðugum ótta um, hvort þeir muni koma aftur eða ekki.