09.03.1944
Neðri deild: 30. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Einar Olgeirsson:

Hv. þm. Ísaf. var að tala um, að það væri ólýðræðislegt og ofbeldiskennt, ef það skyldi koma fyrir, að neitað væri um afbrigði. En ég vil benda honum á það, að við, hv. þm. Ísaf. og ég, höfum oft verið saman um að neita um afbrigði, og hefur hann þá ekki kallað það ofbeldi. En hér er aðeins um það að ræða, hvort þingdeild skuli fá lengri tíma en nokkra klukkutíma um nótt til þess að athuga jafnmikilvægt mál og þetta er. Það virðist frekar ofbeldi að ætla sér að knýja þetta mál fram á einni nóttu og gefa ekki þingheimi tækifæri til að athuga þetta mál til hlítar.

Meiri hl. þessarar d. hefur aldrei verið með þeirri skoðun, sem hv. þm. Ísaf. hefur á þessu máli. Í Ed. hafa verið bornar fram ýmsar till., og sú deild hefur viljað ræða frv. ýtarlega, og það er ekki nema eðlilegt, að þingið vilji hafa sitt. Það þýðir því ekki fyrir hv. þm. Ísaf. að vera með neinn rosta út af slíku. Þingið hefur sitt málfrelsi með það fyrir augum, að þm. geti haft rétt til þess að afgr. málin rólega.

Hv. þm. Ísaf. var svo reiður út af þessu, að hann talaði um, að það ætti að fara að brjóta niður allt lýðræði í landinu, og hann sagði, að lýðveldið, sem við værum nú að setja á stofn, mundi eiga að vera með álíka ofbeldisbrag og þessar aðfarir hér. Ég held nú, að skapið hafi nokkuð hlaupið í gönur með hann. Ég veit ekki til þess, að það sé sérstaklega ætlað ráðh. að úthluta ýmsum styrkjum í sambandi við atvinnumál okkar lands. Ég veit ekki betur en ýmsar aðrar stofnanir hafi haft slíkt með höndum. Ég er ekki eins kunnugur þessu og hv. þm. Ísaf., en mér er nær að halda, að það séu aðrar reglur, sem farið er eftir. Ég veit t.d. ekki til þess, að landbrh. úthluti styrk til landbúnaðarins. Ég hygg, að það hafi önnur stofnun gert, og hefur það aldrei þótt nein goðgá. Og ég er hræddur um, að hv. þm. Ísaf. hafi verið allra manna reiðastur út af því, ef farið hefur verið inn á þær brautir, að ráðh. hafi verið gefið leyfi til þess að borga fé úr ríkissjóði til atvinnuveganna, einmitt þannig að hv. þm. Ísaf. hefur alveg sérstaka ástæðu til þess að ráðast á það.

Ég man, að hv. þm. Ísaf. var hér í fyrra aðalflm. að einni mjög skynsamlegri till., sem fór fram á það, að þegar borgaðar væru uppbætur á landbúnaðarafurðir, þá væru teknar kvittanir fyrir það. Nú fór þetta fram með þeim sérstaka hætti, að þessu fé var ekki úthlutað af Búnaðarfélaginu, heldur átti að borga það frá ráðun. Og hv. þm. Ísaf. virtist telja það alveg sjálfsagða stjórnarfarsvenju, þannig að ef fara ætti að breyta til, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, þá ætti að fara að brjóta allar stjórnarfarsvenjur á Íslandi að hans dómi. En í fyrra, þegar stj. borgaði þetta út, þá var þessi hv. þm. fremstur í flokki að ráðast á þessar aðfarir, og vil ég taka undir það með honum.

Ég álít meira en nóg komið, þegar ráðh. er farinn að hafa vald til þess að borga, svo að skiptir tugum milljóna úr ríkissjóði, til stofnana, sem við vitum ekki, hverjar eru, og fara eiga til manna, sem við vitum ekki, hvort fá þessa peninga, og ekki þurfa einu sinni að gefa kvittanir. Mér finnst nóg komið að veita ráðh. slíkt vald, þótt ekki sé farið að bæta ofan á það að gefa þeim rétt til þess að láta úti svo og svo mikla styrki. Það hefur verið skoðað sem verkefni annarra. Ég vildi þess vegna mótmæla því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að þetta væri brot á öllum stjórnarfarsvenjum. Ég álít, að það sé langt frá því. En ég held, að það hafi verið farið inn á óheppilega braut, þegar byrjað var á þessu í fyrra, og hann stóð að. Það, sem veldur því, að frv. er fram komið, er lagasamþykkt frá þinginu, þar sem það er ákveðið, að þessu fé, sem þarna er um að ræða, skuli úthlutað samkv. reglum, sem þingið setur. Ég skildi það nú svo, þegar þingið tók ákvörðun um það, að úthluta skyldi eftir reglum, sem þingið setur, að þingið vildi hafa þetta á sínu valdi, en ekki á valdi ríkisstj. Annars hefði ekki þurft að hafa þá millileið að láta leggja þetta frv. svona fyrir. Þá var eins hægt að fela ríkisstj. þetta frá upphafi, og fyrst ekki hefur, fengizt samkomulag um það, sem hv. þm. N.-Ísf. talaði um áðan, að hefði verið æskilegt, þá álít ég vel unandi við það skipulag til bráðabirgða, að þessi mþn. hafi með þessa úthlutun að gera, ef hún álítur rétt að veita styrkinn á annað borð. Ég álít það í samræmi við það, sem mér virðist hafa vakað fyrir þinginu í sambandi við þetta. Þess vegna mun ég, þó að ég hefði kosið þetta frv. öðruvísi, greiða atkv. með frv. með þeim breyt., sem á því eru orðnar, því að ég álít málsins sjálfs vegna ógerlegt að ætla að fara að flækja því meir á milli deilda en orðið er.