18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (4011)

20. mál, eftirlit með skipum

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Ég hef talið mér nauðsynlegt að skila hér sérstöku nál. í þessu máli, vegna þess að ég lít svo á, að með samþykkt þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 22, og með þeim breyt., sem meiri hl. hv. allshn. leggur til á þskj. 55, að á henni verði gerðar, séu ekki af hálfu hæstv. Alþ. þessu þýðingarmikla máli gerð nægileg skil.

Hv. frsm. meiri hl. allshn. lét falla hér orð áðan á þá leið, að hann teldi einkennilegt, að n. skyldi klofna um málið, því að, eftir því sem hann taldi, væri ágreiningsefnið svo lítið, að ekki hefði tekið því að kljúfa n. um það. Ég lít allt öðruvísi á þetta mál. Ég tel, að það séu þrjú veigamikil atriði, sem deilt er um á milli meiri hl. og minni hl. n., sem hvert um sig og því fremur þau öll saman gefi fulla ástæðu til þess, að n. klofni um atriði málsins. Þessi ágreiningur var fyrst og fremst um verkefni n., sem lagt er til, að skipuð verði eftir þessari þáltill. Í fyrsta lagi um það, hvort n. skyldi, áður en hún framkvæmdi þá endurskoðun, sem þáltill. gerir ráð fyrir, eins og hún er flutt, afla sér nýrra upplýsinga til þess að byggja starf sitt á. Í öðru lagi er veigamikill ágreiningur um samsetningu n. Og í þriðja lagi er ágreiningur um það, að ég legg á það áherzlu, að auk þess sem framkvæmd verði rannsókn á málinu og endurskoðun á þeirri löggjöf, sem hér er um að ræða, þá séu einnig nú þegar gerðar bráðabirgðaráðstafanir til þess að tryggja betur en gert hefur verið fram að þessu eftirlit með skipum og þá sérstaklega með hleðslu skipanna og öðrum farbúnaði, þ. e. a. s. hið daglega eftirlit með öryggi skipanna, sem á sjóinn sækja. — Öll þessi atriði eru svo veigamikil, að ég taldi ástæðu til að kljúfa n. um þau.

Ég vil þá með fáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessara atriða, sem ég taldi nauðsynlegt að gera ágreining um við aðra nm. — Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá er tilefni þess, að þáltill. á þskj. 22 hefur verið flutt, það, að óvenjulega tíð og stórfelld sjóslys hafa orðið hér að undanförnu, og um leið það, að almannarómur er á þá leið, — og hefur enda verið mikið skrifað um það í dagblöðin hér í Reykjavík að undanförnu og sagðar um það ýmsar sögur af sjómönnum, sem sjálfir hafa komizt í slíka reynslu, og hafa þær ekki verið hraktar, svo að ég hafi orðið var a. m. k., sem bendir til þess, að þessi hörmulegu og stórfelldu sjóslys eigi a. m. k. að einhverju leyti rætur sínar að rekja til þess, að eftirlit með þeim l., sem gilda um eftirlit með skipum og öryggi þeirra, annað hvort eða hvort tveggja, sé ekki svo traust sem vera skyldi. Og þetta, sem ég minntist á, virðist einnig benda til þess, að með því að setja um þetta strangari ákvæði og öruggara eftirlit í þessum efnum mundu vera möguleikar á því að koma í veg fyrir, að íslenzk sjómannastétt þyrfti að færa slíkar fórnir sem orðið hafa nú á síðustu tímum. — Þegar slíkt tilefni er til málsins hér á hæstv. Alþ., þá tel ég það alveg sjálfsagðan hlut, að ein af fyrstu ráðstöfunum Alþ. sé í þessu efni sú að láta rannsaka til þess ýtrasta, við hve mikil rök þær ásakanir styðjast, sem fram hafa komið í þessum efnum, og að með þeirri rannsókn og þeim upplýsingum, sem n. sú, er Alþ. mundi setja í þetta mál, fengi, væri fenginn sá grundvöllur, sem sú sama n. byggði á endurskoðun á l. um þessi efni, og einnig væru á þessu byggðar þær aðgerðir, sem þá e. t. v. kynni að vera talið nauðsynlegt að gera, til þess að eftirlitið með l. í þessum efnum yrði strangara og öruggara en verið hefur.

Hv. meiri hl. allshn. viðurkennir þetta líka í raun og veru í því nál., sem meiri hl. n. hefur lagt hér fram á hæstv. Alþ., þar sem komizt er svo að orði, að bæði sé æskilegt og rétt, að fram sé látin fara ýtarleg rannsókn á þessu máli öllu. En gallinn er bara sá, að í raun og veru er þetta aðeins varajátning hjá hv. meiri hl. n., vegna þess að meiri hl. n. hefur alls ekki viljað fallast á það, að inn í sjálfa þáltill. væru sett nokkur ákvæði, þar sem lagt væri fyrir n., sem skipuð yrði eftir þessari þáltill., ef samþ. verður, að rannsaka eða afla sér á annan hátt þeirra upplýsinga, sem hér er um að ræða og meiri hl. allshn. viðurkennir þó, að séu nauðsynlegar til þess að byggja á allar aðgerðir í málinu. Og þetta er eitt af ágreiningsefnum meiri hl. og minni hl. allshn., að ég tel nauðsynlegt, að um þetta séu sett skýr fyrirmæli í þáltill., þannig að Iagt sé fyrir þá n., sem þar er gert ráð fyrir, að afla sér slíkra upplýsinga, til þess að hún geti á þeim byggt endurskoðun á löggjöfinni, sem síðar færi fram. Það kemur að vísu fram í einni af brtt. hv. meiri hl. allshn., að þessi fyrirhugaða n. skuli hafa aðgang að skjölum, sem varða þetta mál, þ. e. a. s. henni er eftir þeim till. gefin aðstaða til þess, ef hún af sjálfsdáðum vill eitthvað hnýsast í þetta, að hafa aðgang að þessum skjölum. En um verkefni þessarar fyrirhuguðu n. eru í þáltill. engin fyrirmæli til n. um það, að hún skuli afla sér þessara upplýsinga eða á annan hátt framkvæma nokkra rannsókn í þessum málum.

Eins og þegar hefur verið lýst, tel ég þetta grundvallaratriði og því sé alls ekki hægt að ganga fram hjá því, að í sjálfri þáltill. verði að koma fram, að það sé verkefni þessarar fyrirhuguðu n. að gera þetta, og því aðeins, að það sé tekið fram, sé hægt að gera ráð fyrir algerri endurskoðun af hálfu þessarar n. á viðkomandi löggjöf og þá um Ieið till. frá n. um frekari ákvæði um öruggara eftirlit með framkvæmd þessarar löggjafar, ef það að fram farinni rannsókn verður talið nauðsynlegt. — Þetta er sem sagt fyrsta ágreiningsefnið og að mínu áliti mjög veigamikið ágreiningsefni á milli meiri hl. og minni hl. allshn., og tel ég mig hafa gert grein fyrir því af minni hálfu.

Viðvíkjandi framkvæmd eftirlitsins tel ég mig ekki hafa kunnugleika til þess að dæma um það og tel ekki heldur þörf á því á þessu stigi málsins að dæma um það, hvernig framkvæmd eftirlitsins hefur verið og hvort því hefur verið ábótavant í veigamiklum atriðum eða ekki. En það verður þó tæplega varizt þeirri hugsun í sambandi við þau slys, sem orðið hafa, og í sambandi við þær sögur, sem sjómenn sjálfir segja um þau efni og m. a. hafa birzt í dagblöðum bæjarins, — þar sem sagt er frá ýmsum dæmum um ofhleðslu skipa, þegar þau í tiltölulega góðu veðri og alveg sjólausu hafa aðeins með naumindum komizt til lands, — það verður tæplega varizt þeirri hugsun með tilliti til þessa, að á vissum sviðum eftirlitsins a. m. k. hafi verið álitamál, að þess hafi verið gætt nógu vel: Og án þess að ég hafi neina sérstaka þekkingu í þessu efni, þá er grunur minn sá, að hinu daglega eftirliti með ferðbúnaði skipanna og hleðslu þeirra kunni að hafa verið nokkuð ábótavant og að skipaskoðunarmennirnir hafi fyrst og fremst litið á það sem hlutverk sitt að fylgjast með byggingu skipanna og þá væntanlega einnig margháttuðum breyt. á þeim, en þeir hafi hins vegar annaðhvort ekki talið sig hafa tækifæri til þess eða ekki litið á það sem verkefni sitt að fylgjast með daglegum útbúnaði skipanna og ferðbúnaði. Þess vegna hafi það komið fyrir hvað eftir annað, að skip hafa komið hér að landi meira hlaðin en telja má fært, en það hefur í ýmsum tilfellum orðið til þess, að skipin hafa stundum komizt að landi mjög nauðulega. Og um það er enginn til frásagnar, hvort ofhleðsla skipa hafi e. t. v. stundum orðið þeim að grandi.

Eins og ég hef sagt, eru það einnig þessar ástæður, sem liggja til þess, að mál þetta er til meðferðar hér á hæstv. Alþ. og að meiri hl. og minni hl. allshn. hafa talið nauðsynlegt, að Alþ. setti löggjöf með það væntanlega fyrir augum, að komið yrði í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtækju sig í framtíðinni. En einmitt þegar sýnt er, að slíkir atburðir gefa tilefni til slíkra aðgerða, þá álít ég einnig nauðsynlegt, þegar slík endurskoðun á löggjöfinni er látin fara fram, að til þess séu valdir þeir menn, sem sjálfir eiga mestra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta og eiga mest á hættu, þ. e. sjómennirnir, sem ekki eiga minna en sitt eigið líf í hættu í sambandi við það, að sem bezt og tryggilegast sé með þessi mál farið. Og með tilliti til þess álít ég, að n. eigi að vera saman sett eins og ég hef lagt til, að stéttasamtök sjómannanna sjálfra hafi meiri hl. í þessari n., sem fái að verkefni að endurskoða löggjöfina og annað, sem að gagni má koma í sambandi við þessi öryggismál. En um þetta atriði hefur orðið allmikill ágreiningur í allshn., og meiri hl. allshn. telur ekki nauðsyn á þessari tilhögun á skipun manna í þessa fyrirhuguðu n.

Nú vil ég vekja athygli á því, að þessari n. er ekki ætlað að hafa nokkurt löggjafarvald né að ganga á nokkurn hátt endanlega frá þessu máli. Það, sem frá þessari n. mundi koma, eru till. um það, hvernig hún álíti þessum málum bezt og skipulegast fyrir komið. Og ég held því hiklaust fram, að það sé langmests virði fyrir hæstv. Alþ. að fá um þetta till. frá sjómönnunum sjálfum og þess vegna sé bezt, að n. sé a. m. k. að meiri hluta skipuð fulltrúum frá sjómönnum. Síðan kemur til kasta Alþ. og ríkisstj. að meta þær till., sem kæmu fram frá sjómönnum. Og það er löggjafarvaldið, sem í þessum málum sem öðrum hefur úrslitavaldið um það, hvernig frá þessum málum verður gengið. Og ef eitthvað kemur fram frá þessari n., sem Alþ. telur varhugavert, þá getur það breytt þeim till. eftir því, sem þingvilji væri fyrir hendi á hverjum tíma. Fyrir löggjafarvaldið felst því engin minnsta hætta í því að leyfa sjómönnum að hafa meiri hl. í þessari n. En sú trygging fengist með því hins vegar, að í till. n. kæmi fram vilji þeirra manna, sem eiga þarna mest á hættu, þ. e. líf sitt. Og fram hjá því ætti hæstv. Alþ. ekki að ganga, ef það vill, að í þessari löggjöf felist trygging fyrir því, að dregið verði úr þeim hörmulegu slysförum, sem orðið hafa nú á undanförnum tímum.

Í sambandi við endurskoðun löggjafarinnar um þessi efni hef ég enn fremur talið rétt, að þegar á þessu stigi málsins væri kveðið nokkuð á um það, í hvaða átt sú endurskoðun ætti að ganga. Meiri hl. n. hefur hins vegar ekki viljað fallast á það. Og í upphaflegu till. var ekki heldur á það fallizt. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að eigi endurskoðunin að miða að því að tryggja betur en verið hefur öryggi skipanna og sjómannanna, sem á þeim sigla, þá sé líka rétt, — og fellur það saman við það, sem ég hef áður sagt um samsetningu n., — þá sé rétt viðvíkjandi skipaeftirlitinu, sem ég gat um, að endurskoðunin ætti einnig að beinast að, að það sé ekki aðeins til bráðabirgða, heldur líka til frambúðar fært að meira eða minna leyti í hendur sjómanna eða þeirra, sem samtök þeirra tilnefna til þess. Ég álít, að mest trygging væri fengin fyrir því, að sem örugglegast væri frá þessu gengið á allan hátt með því, að þessir aðilar sjálfir, sem eiga líf sitt undir því, að sem örugglegast sé frá þessu gengið á allan hátt, beri sjálfir ábyrgð á eftirlitinu með framkvæmd þessara l. Hið faglega eftirlit í þessum efnum verður að vera í höndum fagmanna, sem hafa sérþekkingu á smíði skipa og þess háttar. En ef hið daglega eftirlit með ferðbúnaði skipa og hleðslu þeirra er í höndum stéttasamtaka sjómanna, þá hefði því verið betur fylgt eftir en lítur út fyrir, að gert hafi verið, og þá hefði sennilega verið komið í veg fyrir ofhleðslu skipa, sem e. t. v. í sumum tilfellum hefur orðið mönnum að fjörtjóni. Ég sagði ef til vill, því að ég fullyrði ekkert um það. En eftir frásögn manna af öðrum skipum, sem hafa verið svo ofhlaðin, að þau hafa sloppið nauðulega til lands, þá er ástæða til að líta svo á.

Ég tel nauðsynlegt vegna þess, hve þetta mál er geysilega þýðingarmikið, að ekki sé látið sitja við það eitt að skipa n. til þess að endurskoða löggjöfina, heldur séu jafnframt nú þegar gerðar raunhæfar ráðstafanir til þess að bæta úr því að einhverju leyti, sem ábótavant er í þessu efni. Og það, sem þegar er hægt að gera, áður en löggjöfin sjálf er endurskoðuð, er að bæta sjálft eftirlitið. Og þess vegna legg ég til í síðasta lið brtt. minna við þáltill., að til bráðabirgða séu skipaðir tveir fulltrúar eftir tilnefningu stéttasamtaka sjómanna, til þess ásamt þeim eftirlitsmönnum, sem nú þegar eru, að annast daglegt eftirlit með ferðbúnaði skipa og hleðslu þeirra. Ég tel, að það sé hægt að gera þetta án þess að brjóta í bág við fyrirmæli löggjafarinnar, eins og hún er nú, og þó að þetta sé ofurlítill kostnaðarauki, þá sé hann ekki það mikill, að ástæða sé til þess fyrir Iöggjafarvaldið eða ríkisstj. að horfa í það, ef með því væri hægt að tryggja, þó ekki væri nema ofurlítið betur en nú er, að ekki endurtaki sig slík stórslys, sem hafa orðið á sjó undanfarið. Og mig satt að segja furðar nokkuð á því, að hv. meiri hl. allshn. vill ekki fallast á þetta, og því fremur, ef hv. alþm. yfirleitt vilja ekki fallast á það, því að slíkt fyndist mér helzt til lítil alvara í máli eins og því, sem hér er um að ræða. Mér virðist ekki horfandi í þennan kostnað. Og mér virðist, að það gæti verið vottur um vilja Alþ. til þess að ráða bót á þessu máli, ef það sýndi lit á að tryggja öryggi sjómanna með þessu til bráðabirgða, þangað til gengið hefði verið frá endurskoðun l. og þá með nýjum lagafyrirmælum, sem tryggðu betur en áður hefur verið öryggi skipanna og sjómannanna, sem á þeim sigla.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að eyða tíma í að svara ýmsum hnútum, sem hv. þm. Barð. var að kasta hér fram í framsöguræðu sinni. Það er þó eitt atriði, sem ég held, að ég verði að minnast ofurlítið á, þar sem hann var að vitna í grein í Þjóðviljanum, þar sem talað er um, að þetta mál; sem hér er til umr., mundi vera prófsteinn á það, hvort verk hinna ýmsu þingmanna nú yrðu í samræmi við þá framkomu, sem komið hefur fram, eins og það er orðað þar, í „grátmessum“, sem hafi verið út af þeim sjóslysum, sem átt hafa sér stað. Og spurði hv. þm. Barð., hvort stefna okkar sósíalista væri — og þá kannske aðalatriðið í þessu máli — að berjast fyrir því að afnema þær minningarhátíðir, sem haldnar hafa verið, og þá minningarfundi, sem haldnir hafa verið hér í hæstv. Alþ. út af þessum slysum. — Ég vil svara hv. þm. Barð. í þessu sambandi því, að það hefur ekkert komið fram um það, hvorki í Þjóðviljanum né annars staðar, og er þess vegna áreiðanlega ekkert stefnumál okkar að berjast á móti því, að eftirlifandi aðstandendum sjómanna sé sýnd samúð á einn eða annan hátt, þegar slík slys hafa orðið. Það er síður en svo, að við höfum nokkuð á móti því. En við viljum ekki láta þar við sitja. Og hinu leggjum við nokkuð upp úr, að í samræmi við þá samúð séu aðgerðir Alþ. um aukið eftirlit með skipum og aukna tryggingu gagnvart þeim sjómönnum, sem eftir lifa. Og það er það, sem við eigum við, en ekki, að hætt sé við að halda minningarguðsþjónustur og minningarfundi í Alþ. í tilefni af slíkum slysum.

Hv. meiri hl. n. getur um það, og hv. frsm. meiri hl. n. gerði það einnig, að raddir hefðu komið fram um það í allshn., að ekki væri ástæða til neinna aðgerða af hálfu Alþ. í þessu máli, heldur ætti að vísa því til ríkisstj., en að það hefði þó orðið ofan á í allshn. að gera það ekki, heldur halda sig við það, að Alþ. gerði um málið einhverja samþykkt. Telur meiri hl. n., að með því sé betur lýst vilja Alþ. um sem bezt öryggi í þessum málum. Það er náttúrlega ágætt, að meiri hl. allshn. lýsi yfir því, að hann vilji vinna að því, að vilji Alþ. komi sem bezt í ljós í þessu efni og að sem tryggilegast sé gengið frá öryggismálum sjómanna. En ég verð nú að álíta, að sá vilji Alþ., ef hann er raunverulega fyrir hendi, sem ég vona, að sé, kæmi betur í ljós með því að samþ. þó þáltill. með þeirri breyt., sem ég legg til, að gerð verði á henni, vegna þess að í henni kemur áreiðanlega fram miklu fyllri vilji til þess, að raunhæfar aðgerðir séu við hafðar til þess að tryggja öryggi skipa og sjófarenda í framtíðinni en í þáltill. eins og hún er flutt og með þeim breyt., sem meiri hl. allshn. vill á henni gera.

Eins og ég hef þegar lýst, þá eru það allveigamikil atriði, sem ágreiningur er um á milli meiri hl. og minni hl. allshn. Og ef hæstv. Alþ. vill samþ. þáltill. eins og ég legg til, þá tel ég, að miklu skýrar kæmi fram vilji Alþ. til þess að ganga tryggilega frá þessum öryggismálum en ef Iátið er nægja að samþ. þáltill. með brtt. meiri hl. n.