18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (4014)

20. mál, eftirlit með skipum

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu máli, en ég vil ekki með öllu láta ómótmælt því, sem hv. þm. Ísaf. sagði. Hann taldi sig að vísu samþykkan forsendunum að brtt. minni, en taldi sig ekki geta verið með henni, af því að hún væri flutt til að sýnast. Það hefði verið hyggilegra af honum að tala ekki þannig, því að ég vil fullyrða, að það er sú till., sem hann er 1. flm. að, sem flutt var til að sýnast. Hún var flutt, eftir að stjórn Alþýðusambands Íslands var búin að taka málið upp og skrifa ríkisstj. og óska samstarfs hennar um að tryggja sjómönnum meira öryggi. Hv. alþm. var að sjálfsögðu kunnugt um það, en meðan Alþýðusambandið beið eftir svari, þá flýtir hann og hv. 4. þm. Reykv. sér að bera þessa till. fram, og það var áreiðanlega gert af þeirra hálfu til að sýnast. Hitt er annað mál, að þegar búið var að taka þetta mál upp á þingi, — sem hefði áreiðanlega verið gert, hvort sem var, þegar árangur af till. Alþýðusambandsins var kunnur orðinn, — þá var rétt að snúast við því á þann hátt að reyna að fá till. breytt á þann veg, sem hverjum og einum fannst réttast og eðlilegast. Það er það, sem ég hef gert, ekki til að sýnast, heldur til þess, að málið fái þá afgreiðslu, sem ég tel heppilegasta.

Þá var hann að segja, að ekki væri hægt að telja, að brtt. mín fæli í sér neitt, sem ekki væri í till. hans með brtt. allshn. Þetta er ekki rétt.

Ég vil endurtaka að í brtt. minni er gert ráð fyrir raunhæfum aðgerðum nú þegar, — að auka skipaskoðunina með því að bæta við tveimur mönnum, sem starfi eftir þeim reglum, sem um það kynnu að verða settar, en þar að auki sé endurskoðað það fyrirkomulag, sem nú gildir um skipaskoðun og skipaeftirlit. Það er ekki rétt að bíða í lengri tíma með að gera öryggisráðstafanir, heldur þarf nú þegar að tryggja, að fylgt sé þeim reglum, sem gilda um eftirlit með skipum.

Mér skildist, að hv. þm. telji till. mína vantraust á skipaskoðunarstjóra. Ég tel það ekki hans verk að hafa daglegt eftirlit með skipunum. Hann hefur of mikið annað að gera til þess. En framkvæmd skipaskoðunarl. er svo umfangsmikil orðin, að hún útheimtir meiri starfskrafta en nú eru fyrir hendi. Ég held, að skipaskoðunarstjóra væri ekki óljúft, að starfslið hans væri aukið. Það er því svo langt frá því, að vantraust á skipaskoðunarstjóra felist í brtt. minni, heldur yrði framkvæmd hennar til þess, að hann gæti fylgzt enn betur með, að fullnægt sé þeim kröfum, sem gerðar eru um útbúnað skipa.