20.10.1944
Neðri deild: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (4016)

24. mál, atvinna við siglingar

Eysteinn Jónsson:

Ég tók till. mína aftur til 3. umr. eftir till. meðnm. minna, sem töldu, að hún þyrfti frekari athugunar. En nú hefur till. ekki verið rædd mikið í n., og þar sem engin rödd hefur heyrzt þaðan um frekari frest, sé ég ekki heldur ástæðu til þess.

Ef hv. þm. Vestm. hefði ekki farið um till. nokkrum orðum, hefði ég ekki farið að ræða þetta mál frekar. Hann sagði, að till. færi í öfuga átt við stefnu frv. Ég get ekki fallizt á þá skoðun hv. þm. Vestm., að með þessu sé verið að láta í té aukin réttindi, án þess að næg menntun sé annars vegar. Ég tel, að þriggja ára menntun sem fiskiskipstjóri sé allgóð menntun, og álít, að till. mín fari ekki í öfuga átt við frv. með þeirri undanþágu, sem þar er farið fram á.

Það er rétt hjá hv. þm. Vestm., að ekki er hægt endalaust að veita undanþágur án sérnáms, en ég hef líka sett takmarkið við 120 tonna skip og innanlandssiglingar. Sá maður, sem verið hefur skipstjóri í þrjú ár, virðist vera fær um að fara með 120 tonna skip, ef haldið er sér við innanlandssiglingar. Það er ekki fordæmalaust, að farið hafi verið inn á þessa stefnu. Minna fiskimannapróf var fyrst miðað við 60 tonna skip, en síðan var það hækkað í 75, því að menn vildu ekki, að þeir, sem hæfir voru til að fara með 60 tonna skip, heltust úr lestinni, eftir því sem skipin stækkuðu. Það sama vakir fyrir mér með þessu, að þeir, sem verið hafa skipstjórar í þrjú ár, geti tekið stærri skip.

Hv. þm. Vestm. benti á, að þetta námsskeið, sem þó veitti mjög aukin réttindi, væri mjög létt, á því yrðu ekki kenndar þungar námsgreinar og miðaði að því að veita réttindi til millilandasiglinga; það ætti að vera áhættulaust að bæta réttindin úr því að fara með 75 tonna skip í að stjórna 120 tonna skipi. Þetta virðist styðja till. mína og að þeir, sem hafa verulega reynslu sem skipstjórar og hafa minna fiskimannapróf, hefðu ekki ástæðu til að setjast á skólabekk að nýju, þótt bátarnir stækkuðu úr 75 í 120 tonn. Mín ætlun er sú að gera þetta allt auðveldara fyrir þá, sem þessa atvinnugrein stunda, þótt fleyturnar stækki. Hér er um menn að ræða, sem ættu að hafa komizt yfir þá þekkingu, sem krafizt er, og fer því mjög fjarri, að ég vilji beita mér gegn aukinni þekkingu skipstjórastéttarinnar.

Það er rétt, að frv. er byggt á till. frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, og mér er kunnugt um, að margir í því mundu óska, að till. sem mín kæmi fram hér á Alþ. og að hún yrði samþ. Ég veit vel, að ýmsir þeirra, sem þegar hafa öðlazt meiri réttindi, hafa tilhneigingu til að amast við því, að réttindi annarra séu aukin án skólanáms. En þeim má benda á, að það ber að líta talsvert á þá viðbót verklegrar menntunar, sem þeir hafa hlotið, er lengi hafa verið skipstjórar.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða málið frekar að sinni.