09.03.1944
Neðri deild: 30. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. N.-Ísf. vildi draga í efa, að komið hefði í ljós við 3. umr. skýlaus vilji d. í þessu máli. En þar sem hv. þm. N.-Ísf. dró þetta nokkuð í efa, hvers vegna vildi hann þá ekki stuðla að því, að þessi skýlausi vilji kæmi í ljós, með því að greiða atkv. með afbrigðum fyrir þeirri brtt., sem hér liggur fyrir? Einmitt það, að þessi hv. þm. greiddi atkv. á móti afbrigðum, sýnir, að hann hefur verið í nokkrum vafa um, að sú stefna, sem hann aðhyllist svona til vara við sína aðaltill., væri sú, sem meiri hl. d. aðhylltist. Öðruvísi verður ekki skilin tregða hans um það sjálfsagða atriði, að greiða atkv. með afbrigðum. Mér fyrir mitt leyti þykir það leitt um þennan unga, ágæta samþingsmann minn, að hann skuli gera sig beran að því að vilja beita ofbeldi hér á hæstv. Alþ. og leyfa mönnum ekki að greiða atkv. um breyt., sem fram koma, eins og þeir telja rétt og sanngjarnt.

Ég hef ekki viljað fallast á, að stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands fengi úthlutunina í hendur, — tel ekki að öllu leyti heilbrigt, að aðallánsstofnun. sjávarútvegsins hafi einnig með höndum úthlutun á styrkjum. Hins vegar lít ég svo á, að þetta sé þó heilbrigðara en fá úthlutunina mþn., sem á að starfa skamma stund, hversu góðir menn sem í þeirri n. sætu.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að málið væri sótt af miklu kappi. Mér finnst það sótt af kappi af hálfu þeirra manna, sem ekki vilja veita afbrigði til, að brtt. geti komið fram, fremur en hinna, sem vilja leyfa afbrigðin og ræða málið frá öllum hliðum. Hv. þm. talaði um, að reynt væri að kúska málið af á einni nóttu. Ég veit ekki betur en það hafi gengið í gegnum þrjár umr., áður en það kom hér til 4. umr., svo að það virðist enginn byltingarhraði.

Þessi sami hv. þm. tók það fram, að ég væri á móti því, að ríkisstj. veitti féð og gæfi Alþ; engar skýrslur um fjárgreiðslurnar. Þetta er rétt. Ég er á móti því. En hverjum dettur í hug, að slíkt verði viðhaft? Ekki stendur það í frv., heldur stendur, að Fiskveiðasjóður skuli gera árleg skil fyrir innheimtum afborgunum og það fé skuli greitt til baka í sjóðinn. Féð skal svo greitt út eftir fyrirmælum ríkisstj., og vitanlega mun hún gefa nákvæma skýrslu til Alþ. á sínum tíma.

Skv. fjárl. var gert ráð fyrir, að þingið hefði málið í sinni hendi með því að setja um það reglur. Ég tel, að það sé uppfyllt með því að setja um það þær reglur, sem gert er ráð fyrir skv. þessu frv., og tel það bezt uppfyllt með því að samþ. brtt., sem hæstv. atvmrh. hefur lagt hér fram og meiri hl. sjútvn. mælt með.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að meiri hl. sjútvn. hefur mælt með brtt. atvmrh. og mælist undan að taka að sér þá úthlutun, sem Ed. leggur henni á herðar, telur það utan verksviðs síns.