20.10.1944
Neðri deild: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (4020)

24. mál, atvinna við siglingar

Finnur Jónsson:

Ég get fallizt á þá stefnu, að rétt sé að krefjast sem mestrar menntunar af þeim, sem eiga að fara með skipstjórn. En ég hef látið í ljós við meðnm. mína ótta við, að með frv. þessu yrði ýmsum mönnum bægt frá skipstjórn. Hér er í frv. gengið í þá átt að gera þeim, sem vilja verða skipstjórar, og skyldu að vera tvo vetur við nám í Reykjavík. Áður var sá háttur á, að þeir, sem tekið höfðu minna skipstjórapróf, þurftu einn vetur til að ljúka þessu prófi. Menn sóttu námsskeið, sem haldin voru í ýmsum kaupstöðum landsins. Þannig fengu menn tækifæri til að verða færir um að taka við skipstjórn. Þetta frv., ef samþ. verður, útilokar þessi námsskeið. Aftur á móti er mönnum veittur réttur til þess að verða skipstjórar á bátum allt að 30 smálestum án þess að hafa verið á nokkru sérstöku námsskeiði, og kröfurnar virðast þá vera minni en nú er. Nú geta menn ekki fengið skipstjórnarréttindi á bátum yfir 15 smálestir nema með minna fiskimannaprófi, en samkv. þessu frv. þarf engin slík próf til þess að stjórna skipi, sem er allt að 30 smálestum: Nú hefur þessu hingað til verið skipt þannig, að hið minna fiskimannapróf gefur rétt til skipstjórnar á skipum frá 15 til 60 rúmlesta í innanlandssiglingum, en til utanlandssiglinga þarf hið meira fiskimannapróf. Með þessu frv. fellur niður mismunurinn á hinu minna fiskimannaprófi og hinu meira. Það eru gerðar meiri kröfur til þeirra, sem sigla með skip yfir 30 rúmlestir, en minni kröfur til þeirra, sem sigla skipum 15 til 30 smálesta stórum. Mér skilst, að þetta sé ósamræmi, að lækka kröfur til manna, sem sigla skipum, sem eru 15 til 30 rúmlestir að stærð, en hækka kröfurnar til hinna, sem stýra skipum frá 30 til 60 rúmlesta að stærð. Þeim eru þá að vísu veitt meiri réttindi, en þau réttindi eru þýðingarlítil fyrir þá flesta.

Annað ósamræmi kemur fram í brtt. á þskj. 451. Þar er gert ráð fyrir því, að þegar skortur er á vélstjórum, megi veita æfðum kyndurum leyfi til þess að gegna undirvélstjórastarfi við eimvél í skipum allt að 300 hestafla og aðstoðarmannsstarfi á eimskipum allt að 800 hestafla. Mér finnst mikið ósamræmi í þessu, og ég held, að þrátt fyrir að þetta mál hafi verið mikið athugað, þyrfti það að fara í gegnum einhvern sérstakan hreinsunareld, til þess að samræmi kæmi í frv. Ekkert samræmi er í því að lækka kröfurnar til skipstjórnar á 15 til 30 smálesta skipum, en hækka kröfurnar til skipstjórnar á 30 til 60 rúmlesta skipum í innanlandssiglingum. Ég skil, hvers vegna fram er komin sú till. að veita kyndurum vélaréttindi við 300 eða 800 hestafla vél. Ástæðan er sú, að ekki eru nógu margir langskólagengnir vélstjórar til í landinu, og hefur ríkisstj. neyðzt til þess undanfarin ár að veita mönnum undanþágu, til þess að hægt sé að sigla þessum skipum milli landa. En gæti ekki farið svo, þegar þessi l. eru gengin í gildi, að langskólagengna menn vanti til þess að stýra skipunum, þannig að ríkisstj. þyrfti að veita ólöglegar undanþágur? Ég óttast þetta nokkuð. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að það væri ekki rétt gagnvart sjómannastéttinni að fella niður þau námsskeið, sem haldin hafa verið víðs vegar úti um land, námsskeið, sem hafa gert mönnum kleift að verða skipstjórar, þótt þeir hafi verið komnir yfir venjulegan námsaldur. Og af þessum námsskeiðum hafa komið margir beztu skipstjórarnir á veiðiskip um allt land. Ég óttast, að þeir verði margir, sem hafa ekki ástæður til tveggja vetra náms hér í Rvík.

Nú er það alveg rétt, að gera þarf breyt. á l. vegna þess, að menn hafa tilhneigingu til þess að láta fiskiskip fara stækkandi. Ég get fallizt á brtt. hv. 2. þm. S.-M. um að gefa mönnum, sem hafa verið skipstjórar á 60 rúmlesta skipum, kost á að taka við stærri skipum í innanlandssiglingum. Hins vegar mun ekki fært að veita þessum mönnum leyfi til utanlandssiglinga nema með bættri menntun, því að í utanlandssiglingum þarf oft að gera staðarákvarðanir, en þess er ekki krafizt af þeim, sem hafa minna fiskimannapróf. Ég vil — auk þess að gera athugasemdir við þetta frv., sem ég ætla, að geti orðið til þess að hindra menn í að læra skipstjórn, auk þess ósamræmis að lækka kröfurnar til annarra, — leggja til, að gerðar verði á þessu frv. breyt. eitthvað svipaðar þeim, er liggja fyrir á þskj. 405, þótt ég telji, að slík réttindi eigi ekki að veita öðrum en þeim, sem hafa verið skipstjórar við góðan orðstír í a.m.k. 5 ár á skipum yfir 15 rúmlestir, og að slík undanþága gildi aðeins til innanlandssiglinga. Vil ég spyrja hv. 2. þm. S.-M., hvort hann geti fallizt á þessa breyt., og mun ég þá fylgja brtt. hans.