20.10.1944
Neðri deild: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

24. mál, atvinna við siglingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég hygg nú í rauninni fulla þörf á því fyrir flesta hv. dm. að kynna sér allar röksemdir þessa máls, sem hér er til meðferðar, ekki sízt eftir að þeir hafa heyrt misskilning hv. þm. Ísaf. á málinu. Eins og hann minntist á, er það svo, að mikill meiri hluti þm. er fjarstaddur, en engu að síður vil ég vegna þess, sem kom fram í ræðu hans. leiðrétta sumt af því, sem hann sagði.

Þá er fyrst rétt að benda á, hvernig náminu er háttað og réttindi veitt til skipstjórnar. Lægstu réttindi hafa verið miðuð við bátastærðina 6 til 15 smálestir. Þeir menn, sem hafa fengið þessi réttindi, hafa ekki þurft að ljúka sérstöku prófi. Hins vegar eru í ýmsum verstöðvum tilnefndir menn, sem hafa veitt sjómönnum þessi réttindi. Þegar talið er, að undirstöðuþekking sé fengin, hafa sjómenn fengið réttindin, án þess að um verulegt nám sé að ræða. Hins vegar hefur næsta réttindastigið verið miðað við 15 til 75 smálestir. Til þess að fá þau réttindi hafa menn þurft að vera á námsskeiði. Þessi námsskeið hafa farið fram á 4 til 5 stöðum á landinu, og stendur hvert þeirra venjulega 4 mánuði. Þriðja stigið, hið meira fiskimannapróf, sem Stýrimannaskólinn í Rvík hefur veitt, veitir réttindi til skipa yfir 75 smálestir. Sú breyt. er gerð með þessu frv., að í stað þess, að menn gátu áður fengið réttindi til 15 smálesta báta án þess að setjast á skólabekk, þá er nú lagt til, að þeir menn verði að nema það, sem til þarf til þess að stjórna 6 til 30 smálesta skipum. Kröfurnar eru því þyngdar til þeirra, sem stjórna 6 til 15 smálesta bátum, en léttari fyrir þá. sem fara með 15 til 30 smálesta báta. Þegar flokkuninni var breytt, leiddi það til þess, að nokkur hluti flokksins þyngdist, en annar léttist. Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Ísaf., að samkv. þessu frv. geti menn eftirleiðis fengið skipstjórnarréttindi fyrir 30 smálesta báta án þess að nema til þess. Það er beinlínis tekið fram í frv., að komið sé á fót námsskeiðum, þar sem sjómönnum gefist kostur á að nema skipstjórn á bátum allt að 30 smálesta stórum. Það er ekki rétt, að leggja eigi niður þau námsskeið, sem verið hafa úti á landi fyrir skipstjórn á 15 til 75 smálesta bátum. Það er einmitt gert ráð fyrir, að á þessum sömu stöðum verði námsskeið mjög svipuð þeim, er fyrir voru, en hins vegar veita þessi námsskeið eftirleiðis ekki skipstjórnarréttindi á allt að 75 smál. bátum, heldur er þeim ætlað það hlutverk að búa menn undir Stýrimannaskólann. Eins og þessum málum hefur verið fyrir komið, hafa menn þurft að vera hér tvo vetur. annan veturinn fjóra mánuði, en hinn sjö mánuði til þess að ljúka hinu meira fiskimannaprófi. Eftirleiðis verður því hagað þannig, að þeir menn, sem heima eiga úti á landi, geti lokið fyrri vetrinum þar og öðlazt síðan inngöngu í síðari deild Stýrimannaskólans næsta vetur. Ég held, að þetta leiði til þess. að sjómenn sæki þessi námsskeið og fari svo einn vetur í Stýrimannaskólann og öðlist þannig full réttindi. Margir ágætir ungir menn hafa verið á námsskeiðunum og fengið réttindi til 75 smál. báta, en látið þá staðar numið, af því að ekki var beint samband milli námsskeiðanna og Stýrimannaskólans. En hafi þeir síðan viljað fá réttindi til stærri skipa eftir nokkur ár, þótti þeim of seint að setjast á skólabekk. En ef farið væri að eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, myndu menn telja það ómaksins vert að fara í Stýrimannaskólann einn vetur til þess að fá réttindi til allra fiskiskipa. Fyrirkomulagið var þannig, að menn, sem vildu læra að fara með 25 smál. bát, lærðu að fara með 75 smál. skip, en samkv. þessu frv. læra þeir að fara með 30 smál. bát, og af því leiðir, að hægt er að létta það nám nokkuð. Alveg sama gilti um þá, sem vildu læra að fara með 40 smál. bát. Þeir lærðu að fara með 75 smál. bát, en lenda samkv. þessu frv. í hóp þeirra, sem mega fara með þrjú til fjögur hundruð smál. skip. (FJ: Hvar stendur þetta í frv.?) Það er tekið fram í l., að þeir, sem stjórna 40 smál. skipum, verði að taka hið meira fiskimannapróf, og er þannig hert á námskröfunum. Að mínum dómi er hér ekki um neitt ósamræmi að ræða, heldur eðlilega og óhjákvæmilega nauðsyn, en hitt skil ég mætavel, að hv. þm. Ísaf. finnist það heldur illa til fallið að fella niður námsskeiðin, sem hafa verið haldin á verstöðvum úti um land. En ég hygg, að hann sjái það við nánari athugun, að ekki er gert ráð fyrir að leggja þessi námsskeið niður með öllu, þótt þeim verði hins vegar breytt nokkuð frá því, sem nú er.

Vil ég benda á eitt atriði enn í þessu sambandi, sem ég hygg, að hv. þm. hafi ekki athugað nógu rækilega. Hann sagði, að sér virtist, að þessi breyt. mundi verða til þess að torvelda mörgum sjómönnum að fá skipstjóraréttindi. Sannleikurinn er sá, að þessi l. rýmka allverulega um fyrir sjómenn að komast inn í Stýrimannaskólann til þess að fá hið meira fiskimannapróf. Langs siglingatíma hefur verið krafizt á a.m.k. 70 smál. skipum, áður en menn hafa gengið undir hið meira fiskimannapróf. Nú er gert ráð fyrir, að menn geti tekið próf, eftir að þeir hafa siglt jafnlengi og áður, en ekki krafizt þess, að skipin séu stærri en 30 smál. Ætla ég, að þetta verði til að auðvelda mörgum inntöku í skólann og ná þeim prófum, sem þeir óska að leysa af hendi.

Þá vil ég einnig geta þess, að sú brtt., sem hv. þm. Ísaf. gerði að umtalsefni, undanþágur varðandi vélstjórastörf, brtt. á þskj. 451, er fyrir í l., en er borin fram samkv. ósk skrifstofu Alþ. til þess að fá saman í ein l. allar breyt. gerðar á þessum l. Þessi heimild er því fyrir í l., og ætti því að ræða þessa brtt. sem sérstakt mál, óviðkomandi því máli, sem hér um ræðir.

Ég hef áður lýst yfir, að ég er alveg mótfallinn brtt. hv. 2. þm. S.-M., á þskj. 405, og ég hef sérstaklega bent á það, að með þeirri brtt. er farið inn á nýjar og mjög háskalegar brautir, þar sem atvmrh. er veitt heimild til þess að hækka próf manna eftir því, sem honum gott þykir í ýmsum tilfellum. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessum till., að allir þeir, sem lokið hafa prófi og öðlazt réttindi til skipstjórnar á allt að 75 smál. skipum, fái réttindi til skipa allt að 120 smálesta, heldur er gert ráð fyrir því, að atvmrh. hafi heimild til þess að auka réttindi sumra manna, en láta aðra sitja við minni réttindi. Fram til þessa hefur verið miðað við, að menn fengju skipstjórnarréttindi eftir því, hvað þeir hafa leyst víðtæk og kröfumikil próf af hendi. Þau hafa verið lögð til grundvallar. En hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að atvmrh. geti breytt prófniðurstöðum manna og geti ákveðið, að þeir menn, sem leyst hafa af hendi aðeins 75 tonna próf, geti verið hækkaðir upp og fengið 120 smálesta réttindi. Og hv. flm. brtt., 2. þm. S.–M., hefur ítrekað það hér í ræðu, að hann ætlist ekki til, að öllum verði veitt þessi hækkun réttinda, heldur aðeins þeim, sem staðið hafa sérstaklega vel í starfi sínu. eins og hann komst að orði. (EystJ: Þetta er þveröfugt. Ég ætlaðist til, að öllum, sem ekki hefur hlekkzt á, verði veitt þessi réttindi samkv. brtt.) Ég hafði skrifað upp orð hv. 2. þm. S.-M., og þó að þessi orð, sem hann nú sagði, hefðu verið látin fylgja brtt., þá sýnir það sig samt, að eftir till. hans á algerlega að ganga fram hjá prófniðurstöðum, sem hingað til hafa verið lagðar til grundvallar veitingu réttinda í þessum efnum. Ég get ekki fellt mig við, að slíkt sé gert. Það er meginmunur á því, hvort ráðh. hefði heimild til að veita mönnum undanþáguréttindi um takmarkaðan tíma, eða hins vegar, hvort hann hefur leyfi til þess að hækka prófréttindi manna. Í einstaka greinum, eins og t.d. viðkomandi vélstjórum, hefur það verið gert, að ráðh. hefur fengið heimild til að veita vélstjórum réttindi til þess að fara með stærri vélar en viðkomandi vélstjórar hafa haft próf til um ákveðinn takmarkaðan tíma. Hins vegar hefur ráðh. ekki haft heimild til þess að hækka prófréttindi manna. Þess vegna mun ég verða á móti þessari brtt. og vil fella frv., eins og það hefur komið frá hv. sjútvn.