08.02.1944
Sameinað þing: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (4025)

5. mál, vélskipasmíði innanlands

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég vil að mestu leyti láta nægja að vísa til þeirrar ýtarlegu grg., sem fylgir þessari þáltill. Öllum er það ljóst, að það hlýtur að leiða til mikilla vandræða, ef skipasmíðar innan lands leggjast niður vegna verðhækkunar, og nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að bæta úr því og sjá til þess, að hér verði ekki minni skipasmíðar en undanfarin ár. Hér hafa ekki verið smíðuð önnur skip en tréskip. Ætti að vera nægilegur vinnukraftur í landinu til þess að smíða 600 smálestir af tréskipum á ári og auk þess að halda uppi nauðsynlegum viðgerðum og breytingum á skipastólnum.

Nú hefur farið fram nokkur athugun á kostnaði við skipasmíðar hér og komið í ljós, að hver smálest mun ekki kosta minna en 10 þús. kr. Smálestin kostar í Svíþjóð 4–5 þús. kr. og í Bandaríkjunum 7 þús. kr. Athugun hefur einnig sýnt, að mismunur á kostnaði við að koma efni og vélum til landsins nú og fyrir stríð, þ. e. flutningskostn., vátrygging, stríðstrygging og tollar, mun vera um 3 þús. kr. á smálest.

Ég vona, að hæstv. ríkisstj. fái frá Alþ. till. um, hvað gera megi til að tryggja það, að tréskipasmíðar innan lands þurfi ekki að leggjast niður, og að veittur verði styrkur úr ríkissjóði til þess.

Ég óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og síðan til hv. allshn.