14.01.1944
Sameinað þing: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (4033)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Á þessu stigi málsins þykir mér rétt að segja nokkur orð út af því.

Eins og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, liggur hér til umr. till., sem samin var á sínum tíma af mþn. í stjskr.málinu, og fjallar till. um það að fella úr gildi sambandslagasáttmálann frá 30. nóv. 1918 og að hann verði felldur niður af báðum þeim aðilum, er að honum stóðu af Íslands hálfu, sem voru Alþ. og íslenzkir kjósendur.

Ég þarf naumast að lýsa því, enda hefur það verið tekið fram af hæstv. forsrh., að þetta þing er kvatt saman eftir beiðni þriggja flokka hér á þingi til þess að afgreiða væntanlega á þessu þingi fyrir sitt leyti, eða réttara sagt að undirbúa í hendur þjóðarinnar afgreiðslu á þeim tveim þáttum málsins, sem snertir annars vegar fulla niðurfellingu sambandslagasáttmálans frá árinu 1918 og hins vegar setningu nýrrar stjskr., þar sem konungdæmi er breytt í lýðveldi.

Mun ég nú með orðum mínum hér á Sþ. aðallega beina máli mínu að þeim þætti, sem snertir aðeins niðurfellingu sambandslagasáttmálans, en mun að engu leyti, nema þar sem það er óhjákvæmilegt, víkja að hinum þættinum, sem er meira jákvæður, en hann fjallar um að samþ. undir þjóðaratkv. nýja stjskr. fyrir lýðveldið Ísland. Mun mér síðar gefast tækifæri til að láta í ljós skoðun mína um þetta stjskr.frv., er umr. hefjast um það í Nd., og mun ég þá gera grein fyrir afstöðu minni sérstaklega, en mér þykir rétt, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að taka það fram, sem öllum þingheimi og alþjóð að vísu er kunnugt um, að Alþfl. hefur fyrir löngu lýst yfir þeirri afstöðu sinni, að hann vildi fella úr gildi sambandslagasáttmálann, þegar tími væri til þess kominn, og stofna lýðveldi á Íslandi. Þetta kom ljóst fram á Alþ. árið 1928, að gefnu tilefni frá Sigurði Eggerz, þáv. þm., og var það þá, að Alþfl. einn allra flokka orðaði þá skoðun sína, að þegar sambandslagasáttmálinn væri fallinn úr gildi, ætti að stofna lýðveldi á Íslandi. Árið 1937 kom fram sama afstaða Alþfl. um niðurfellingu sambandslagasáttmálans, og á flokksþingi Alþfl. árið 1940 var gerð endurnýjun á samþykktinni þess efnis, að flokkurinn vildi, þegar þess yrði kostur, láta stofna lýðveldi á Íslandi. Síðan kemur samþykkt miðstj. Alþfl. frá 29. júní 1943 um afstöðu sína til þessa máls að láta stofna lýðveldi á Íslandi, og gerði miðstj. flokksins þá ákvarðanir sínar um það, með hverjum hætti það ætti fram að fara, en á afstöðnu þingi Alþfl. í nóv. s. l. orðaði Alþfl. fyrir sitt leyti stefnu sína í þeim efnum að stofna lýðveldi og gerði nokkra grein fyrir því í samþ. sinni, sem nýjust er, og vildi ég með leyfi forseta lesa upp fyrri hl. þeirrar samþykktar, og hljóðar hún þannig:

„Alþýðuflokkurinn hefur frá upphafi haft það á stefnuskrá sinni, að Ísland taki öll mál sín í eigin hendur og að stofnað yrði sjálfstætt og fullvalda lýðveldi á Íslandi án stjórnarfarslegra tengsla við nokkurt annað ríki. Þessi afstaða flokksins var skýrt mörkuð með yfirlýsingu hans á Alþingi árið 1928 og síðan einnig á þingum flokksins t. d. árið 1940, og stendur hún óhögguð þann dag í dag.

Með ályktun Alþingis 17. maí 1941 var því einróma lýst yfir, „að lýðveldi verði stofnað á Íslandi

jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið“ og „að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.“

Flokksþingið lýsir sig samþykkt þeirri stefnu, sem felst í framangreindum ummælum ályktunarinnar, og felur miðstjórn og þingflokki að ákveða nánar afstöðu flokksins eftir því, sem hin breytilegu viðhorf málsins krefjast á hverjum tíma fram til næsta flokksþings. Leggur þingið á það megináherzlu, að í engu verði hvikað frá öruggum réttarlegum grundvelli um brottfall sambandslaganna og að ekki verði að nauðsynjalausu gengið frá formlegum skilnaði, fyrr en sambandsþjóðirnar hafa fengið tækifæri til að ræðast við um málið, enda geti þá lýðveldisstofnunin farið fram með þeim virðuleik og hátíðleik, sem þeirri athöfn hæfir.“

Ég ætla því, að það megi slá því föstu, að það sé enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi um hið neikvæða atriði, að ekki beri að endurnýja sambandslagasáttmálann, og ég ætla líka, að um það sé heldur enginn ágreiningur milli íslenzkra stjórnmálaflokka, að stofna eigi lýðveldi hér á Íslandi. Ágreiningur er aðeins um það atriði, sem lýsa má með tveim orðum, hvenær og hvernig það skuli gert. Það er um þetta atriði, sem leiðir hafa skilið, og einmitt, þegar komið er að þessari till., sem hér liggur fyrir til fyrri umr., álít ég rétt að víkja að þeim þætti, hvenær og hvernig mér fyrir mitt leyti virðist að ganga eigi frá niðurfellingu sambandslagasáttmálans. Ég tel það beinlínis skyldu fyrir hið háa Alþ. og hæstv. ríkisstj. að gefa þjóðinni, sem nú á að segja sitt síðasta orð um þessi málefni, sem fyllstar upplýsingar um málið, forsögu þess og allt, sem máli kann að skipta. Í því sambandi harma ég mjög, að ekki skuli hafa verið birt þau plögg, sem farið hafa á milli íslenzkra stjórnarvalda og erlendra, svo sem danskra, brezkra og amerískra út af þessu máli. Það hefur aðeins verið birtur lítill hluti af þessum viðskiptum, og harma ég það mjög, eins og ég sagði áðan, að öll þessi skjöl skuli ekki hafa verið gerð þjóðinni kunn. Alþ., sem nú undirbýr þetta mál, á að veita þjóðinni allar þær upplýsingar, sem kostur er á að afla, áður en hún á að leggja sinn lokadóm á það, sem fram á að fara.

Stj. flytur nú till. til þál. á þskj. 2, og eins og ég sagði áðan, er hún samin af mþn. í stjskr.málinu, en um till. þessa má það segja, að það vantar enn þau tvö atriði, sem ágreiningur hefur myndazt um, því að í henni er ekkert um það sagt, hvenær þessi þál. eigi að afgreiðast bæði hér á Alþ. og meðal þjóðarinnar, né hvernig hún eigi að afgreiðast. Að þessum atriðum tel ég rétt að víkja nokkrum orðum, þegar rætt er um það að fella niður sambandslagasáttmálann, því að til þess, að það verði gert, hljóta að liggja sterk rök, og vil ég segja það, að þau rök eiga að vera ótvíræð, skír og ákveðin.

Ýmsar kenningar hafa komið fram um það, hvers vegna við ættum nú þegar að fella sambandslagasáttmálann úr gildi, án nokkurs tillits til uppsagnarákvæðanna í 18. gr. hans. En aðallega eru þær þrjár: Sú fyrsta er, að réttur þjóða til sjálfstæðis sé ofar öllum samningum, eins og Einar Olgeirsson hefur sagt í grein, sem hann skrifaði nýlega í Andvara, en kom uppprentuð í Þjóðviljanum í gær. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skýlaus réttur vor Íslendinga sem þjóðar, hvenær sem vér viljum, að taka öll mál vor í eigin hendur og verða algerlega sjálfstæð þjóð. Slíkt er helgur, óafseljanlegur réttur hverrar þjóðar, sem engrar stoðar þarfnast í frelsisskrám eða sáttmálum. Það getur enginn svipt oss þeim rétti, engin kynslóð Íslendinga svipt komandi kynslóðir honum. Sá réttur er öllum sáttmálum æðri og verður aldrei af oss saminn, hve slæma sáttmála sem valdhafar Íslands á undanförnum árum hafa gert eða á komandi árum kynnu að gera.“

Slíkt kann að láta vel í eyrum. En ég vil spyrja: Hvar væri íslenzka þjóðin á vegi stödd, ef hún lýsti yfir þeirri skoðun, að hún gæti í viðskiptum sínum við aðrar þjóðir vikið til hliðar öllum gerðum samningum með skírskotun til réttar, sem stæði ofar slíkum skuldbindingum? Er það ekki einmitt þetta, að þjóðir eða ríki skuli hafa tekið sér rétt til þess að rjúfa gerða samninga, þegar þeim hefur sýnzt, sem nú hefur leitt til hinnar ægilegu blóðsúthellingar yfir gervallt mannkynið? Ég vil vona, að Alþ. búi ekki niðurfellingu sambandslagasáttmálans í hendur þjóðarinnar með slíkum forsendum.

Önnur kenningin er hin svonefnda vanefndakenning — að hægt sé að fella sambandslagasáttmálann úr gildi vegna vanefnda danskra stjórnarvalda og þar með dönsku þjóðarinnar á honum. Sú kenning er í fyrsta lagi svo um deild, að hæpið er að byggja sambandsslitin á henni. Og þó að Alþ. hafi í ályktunum sínum 1941 áskilið okkur vanefndaréttinn til riftingar sambandslagasáttmálans, til þess að vera við öllu búið, sem að höndum kynni að bera, er þar með ekki sagt, að nauðsynlegt sé að tefla á tæpasta vaðið, þegar um aðra örugga leið er að velja. Það er og vitað, að núv. ríkisstj. hefur ekki viljað skírskota til vanefndaréttarins, enda hefur vanefndakenningin mælzt illa fyrir meðal þjóðarinnar, svo að ekki sé minnzt á afstöðu dönsku þjóðarinnar til hennar. Og tvö vinsamleg stórveldi hafa ráðið okkur ákveðið til þess að fella sambandslagasáttmálann ekki úr gildi á grundvelli neins vanefndaréttar, heldur þá fyrst, þegar sáttmálinn er tvímælalaust út runninn, eins og það var orðað af öðru þeirra, eða að við skyldum halda okkur stranglega að ákvæðum sáttmálans sjálfs, eins og sagt var af hinu. Ég álít því, að við eigum ekki að byggja neitt á vanefndarétti.

Þriðja kenningin, sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstj. 1. nóv. s. l., er sú, að það ástand, sem skapaðist 9. apríl 1940 og síðan hefur haldizt óbreytt, veiti okkur rétt til sambandsslita. Engin rök hafa verið færð fyrir þessari staðhæfingu hingað til, og ég get ekki séð, að það veiti okkur neinn slíkan rétt. Nú vita þm. hins vegar, að við höfum rétt til sambandsslita samkvæmt sambandslagasáttmálanum sjálfum, ef löglega er að farið. Og í því sambandi vil ég benda á það, sem margir virðast ekki gera sér fullkomlega ljóst, en í þessu máli er þó aðalatriði, að sambandslagasáttmálinn er enn í gildi, þó að framkvæmd hans hafi fallið niður að mestu leyti um nokkurt skeið. Þar af leiðandi er 18. gr. hans, þ. e. uppsagnarákvæðin, einnig í gildi. Og sambandslagasáttmálinn sjálfur verður því ekki löglega úr gildi felldur nema því aðeins, að fylgt sé uppsagnarákvæðum hans þar að lútandi, — þar á meðal við þjóðaratkvæðagreiðsluna um málið.

En þar sem engin aðkallandi þörf knýr til þess að ganga nú þegar formlega frá sambandsslitum, hefði ég langhelzt kosið, að sambandsslitunum yrði frestað, þar til frjálsar viðræður hefðu farið fram milli sambandsþjóðanna. Það teldi ég eðlilegustu, öruggustu og drengilegustu leiðina og algerlega áhættulausa fyrir okkur, ekki sízt, þegar á þau loforð er litið, sem tvö vinsamleg stórveldi hafa gefið okkur í sambandi við sjálfstæðismálið.

En nú er svo að sjá sem þrír flokkar þingsins telji það þjóðhættulegt að bíða þess, að hin ágæta bræðraþjóð okkar fái aftur frelsi sitt. Og því mundi ég vilja vinna það til samkomulags að fallast á, að sambandsslitunum yrði ekki frestað svo lengi, heldur aðeins þar til eftir 19. maí 1944, þegar löglegt má teljast að fella sambandslagasáttmálann niður, með því að þá eru þrjú ár liðin frá því, að dönskum stjórnarvöldum bárust ályktanir Alþ. 17. maí 1941, eins og til skilin eru í sambandslagasáttmálanum frá því að uppsögn hans er boðuð og þar til hann er úr gildi felldur. Eftir 19. maí 1944 er því hægt að ákveða á lögformlegan hátt á Alþ. að fella sambandslagasáttmálann úr gildi og láta fara fram um það þjóðaratkvæði — fyrr ekki.

Við erum smáþjóð og getum ekki treyst á neitt vopnavald í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir. Þar getum við aðeins treyst á lagaleg og siðferðileg vopn. Þetta hefur líka oft verið viðurkennt og þó alveg sérstaklega vel verið fram tekið af tveimur þjóðkunnum lögfræðingum, þeim Bjarna Benediktssyni í grein, sem hann skrifaði í Andvara 1940, en þar segir svo: „Hún ( ályktun Alþ. 10. apríl 1940) afnemur ekki konungsvald á Íslandi og sviptir konung ekki tign sinni. Ísland er eftir sem áður konungsríki, og hinn rétti konungur tekur aftur við völdum, þegar Alþ. telur skilyrði vera fyrir höndum, að svo megi verða... Þar sem Íslendingar eru varnarlaus og vopnlaus þjóð, verða þeir umfram allt að gæta vel þeirrar einu varnar, sem þeir hafa, en það er að ganga hvergi á rétt annarra og styðja allar gerðir sínar við ströngustu réttarákvæði.“

Hinn þjóðkunni maðurinn er núverandi forsrh., Björn Þórðarson dr. juris. Í útvarpserindi, er hann flutti 1942 og birt er í jólahefti tímaritsins „Helgafells“, segir hann, með leyfi hæstv. forseta: „En samkvæmt sambandssáttmálanum sjálfum höfum vér það í eigin hendi að ráða sambandsmálinu til lykta. Sú eina skylda, sem á oss hvílir gagnvart Dönum þar, er að virða lög og rétt. Sjálfstæðið höfum vér öðlazt á grundvelli laga og réttar, og því aðeins getum vér orðið hlutgengur aðili í samfélagi þjóðanna, að enginn skuggi falli á mannorð vort í því efni, þar megum vér aldrei tefla á tæpasta vaðið.“

Það er sannarlega þess vert að hafa varnaðarorð þessara tveggja merku manna í huga, þegar Alþingi ætlar að taka ákvörðun um þetta mál. Ég mundi telja, að með samþykkt Alþingis eftir 19. maí 1944 væri unnt að gera þetta samkvæmt ákvæðum sambandslagasamningsins, og að því búnu gæti þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram. Mér virðist mega telja, að ályktun Alþ., sem tilkynnt var sambandsþjóð vorri 19. maí 1941, feli í sér uppsögn á sambandslagasamningnum samkv. 17. gr. hans. Ég staðhæfi einnig og get rökstutt það síðar, ef þarf, að danska ríkisstj. hafi með svari sínu gefið til kynna, að hún skildi þetta svo, að það jafngilti kröfu um endurskoðun samningsins, sbr. og bréf ísl. ríkisstj. 23. júní 1941. Ég veit, að ríkisstj. vorri muni kunnugt, ef hún hefur athugað skjöl, sem utanrrn. varðveitir, og um leið ummæli í dönskum blöðum, að sá. skilningur var almennt í þetta lagður af sambandsþjóð vorri, að það samsvaraði kröfu um endurskoðun. Nú er það ákvæði í sambandslagasamningnum, að ef ekki náist innan þriggja ára samkomulag um endurnýjun, geti hvort ríkið, sem er, ákveðið einhliða, að hann sé fallinn úr gildi. Ég tel, að þar sem þessi ályktun Íslendinga, sem um ræðir, var svo víðtæk, sem allir vita, og skorinorð um það, að Íslendingar ætluðu ekki að endurnýja, hafi engin ástæða verið fyrir Íslendinga að hefja neinar samningaumleitanir, og af Dana hálfu hafa þær ekki verið hafnar, þótt unnt hefði verið á tímabili að gera það. Það er því 19. maí í vor, eftir 3–4 mánuði, sem við höfum öðlazt rétt eftir sambandslagasamningnum til að fella hann úr gildi með samþykktum Alþ. og þjóðaratkvgr. Ég hefði kosið, að beðið hefði verið með það til stríðsloka, því að það má teljast viðurkennt siðalögmál þjóða milli, að eigi beri að rifta samningum, nema aðilar hafi talazt við. En ég vil bjóða það fram sem samkomulagsgrundvöll, að úrslitum þessarar till. á Alþ. verði aðeins frestað fram yfir 19. maí n. k. — En þar yrði þó að fylgja með atriði, sem ég mun koma nánar að í umr. Nd. um stjskrfrv. Það er, að stjskrbreyt. verði ekki látin ganga í gildi fyrr en eftir að konungi hefur gefizt tækifæri til að segja af sér. Ef hann notar tækifærið, er það ágætt. En ef hann gerir það ekki, höfum við að mínu áliti rétt til að stofna lýðveldið á löglegan hátt. Það er alveg það sama, sem fyrir mér vakir með þetta atriði og hitt, að þessu sé ekki hrundið fram að þarflausu, meðan Danir eru ekki orðnir aftur frjáls þjóð. Kristján konungur 10. er nú ímynd hinnar glæsilegu andstöðu, sem danska þjóðin hefur sýnt í þrengingum sínum. Það stafar ljóma frá þessum gamla Aldinborgaraðalsmanni, svo að ég noti orð víðfrægs skálds um hann. Við höfum heyrt þessa dagana, hvernig enskur utanríkisráðherra talar um þennan aðalsmann og þjóðhetju, sem allur heimur dáir nú. Þó að við Íslendingar skuldum honum máske ekkert annað, skuldum við honum viðurkenning þess, hvernig hann hefur nú reynzt sinni eigin þjóð. Við skuldum sæmd Íslands það að koma drengilega fram við þennan virðulega þjóðhöfðingja.

Þá er að lokum komið að því atriði, að þjóðin á að standa saman í þessu máli. Mér er það e. t. v. ekki óljósara en þeim, sem mest hafa um það talað. En mér er líka ljóst, að til þess að þjóðin geti staðið saman, verður að nást samkomulag um heilbrigða lausn og ekki óheilbrigða. Það er ekkert samkomulag að ákveða að knýja fyrirætlun meiri hl. fram hvað sem tautar og hvernig sem málstaður kann að reynast og skipa minni hl. að gefast upp og styðja meiri hl. Eins og það er fyrir miklu, að þjóðin standi saman út á við, er hitt enginn gróði og enginn vegsauki fyrir íslenzku þjóðina, þó að hún stæði saman um óréttlæti og vafasamar ákvarðanir. Á grundvelli réttar og ótvíræðs velsæmis verðum við að sameinast. Það er kunnugt, að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa nú tekið höndum saman til að sporna við vafasamri afgreiðslu málsins. (BrB: Hverjir úr Sósfl.?). Ég hygg Þorvald Þórarinsson vera þar í flokki (BrB: Nei, sá maður er alls ekki í flokknum). Síðan á skólaárum hefur hann talið sig fylgja flokknum, hvað sem páfi flokksins, sem svipuna og burtrekstrarvaldið hefur, segir nú, og má vera, að fáir hætti á að eiga þá svipu yfir höfði sér. Alþfl. hefur ekki bundið einstaka flokksmenn í þessu máli, hann þarf þess ekki og telur það styrk sinn.

Ég tel, að Alþfl. geti óskiptur gengið að þeirri miðlunarlausn, sem ég hef nú lýst, að ég gæti fellt mig við til samkomulags við aðra flokka þingsins. Vilji til slíks samkomulags er fyrir hendi meðal þjóðarinnar, og lýst hefur verið yfir af mönnum í öllum stjórnmálaflokkum, að þeir telja brýna þörf að hverfa frá hinni einskorðuðu stefnu þingmeirihl. í málinu og fylgja í þess stað algerlega ákvæðum 18. gr. sambandslagasamningsins. Ef þeim ákvæðum er fylgt, er málstaður okkar traustur, og það er ekki einskis virði. Samningurinn verður ekki úr gildi felldur nema því aðeins, að fylgt sé uppsagnarákvæðum hans þar að lútandi, þar á meðal við þjóðaratkvæðagreiðsluna um málið. Og náist samkomulag um meðferð málsins, ætti enginn að þurfa að kvíða því, að ekki fengist sá meiri hl. við þjóðaratkvgr., sem tilskilinn er í samningnum. Og þar með væri réttarheiðri okkar í sambandi við afgreiðslu málsins fullkomlega borgið.

Því aðalatriði megum við enga stund gleyma.