14.01.1944
Sameinað þing: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (4034)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Ólafur Thors:

Öllum þeim, er af einlægni hafa þráð og barizt fyrir fullu stjórnarfarslegu frelsi Íslendinga, er það mikið gleðiefni, að tillaga sú, sem hér er til umr., skuli hafa verið lögð fram á Alþingi Íslendinga og eiga að baki sér öruggt þingfylgi. Er því fjarri mér að rifja nú upp fyrri ágreining við þá, sem nú eru samherjar. Og ekki mun ég heldur deila hart á hv. 4. þm. Reykv., því að hvort tveggja er, að hann og ég höfum í allýtarlegum blaðadeilum lagt málstað okkar fyrir dómstól almennings, sem og hitt, að enda þótt sigur málsins sé nú tryggður, þykir mér samt nokkru skipta, ef auðið mætti reynast að sameina alla þjóðina um lausn þess. Ég tel mig þó til neyddan að víkja nokkuð að ræðu hans, jafnframt því að fara fám orðum um málið í heild.

Það yrði allt of langt mál að rekja hér höfuðdrættina í sjálfstæðismáli Íslendinga. Ég skal ekki heldur freista þess að draga upp skýra mynd af því, er gerzt hefur síðustu árin. Læt nægja að stikla á einstökum stóratriðum.

Ég hef lengi litið svo á, að því mætti treysta, að Íslendingar bæru gæfu til að hagnýta sér óskertan þann rétt, er felst í 18. gr. sambandssáttmálans. Voru vonir þær m. a. reistar á ummælum forustumanna allra flokka hér á Alþ. 1928, en einkum þó 1937. Atburðir síðari ára hafa allir hnigið að því, að þjóðinni bæri að stefna beint að settu marki, hiklaust og með fullum hraða. Hafa og allar fyrri ákvarðanir Alþ. bent til þess, að svo mundi verða, og það án alls ágreinings. Nefni ég þar til samþykkt Alþ. í maí 1941, þar sem Alþ. fellst á og byggir á þeim rétti til tafarlausra sambandsslita, er Íslendingar hafi öðlazt vegna vanefnda Dana. Á þeim rétti var og byggt á vorþinginu 1942, enda var þá fullt þingfylgi fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi á því ári. Voru þar í forustu og engum óskeleggari þeir, sem nú deila harðast á aðra fyrir að fresta ekki afgreiðslu málsins, þar til fram hafi farið viðræður við Dani og einkum þó konung. Minni ég enn á, að 7. apríl í fyrra var stjórnarskrárnefnd allra flokka á einu máli um stofnun lýðveldisins eigi síðar en 17. júní 1944. Við unnendur málsins höfum því með fullum rétti mátt vænta allsherjareiningar og eigum skilyrðislausa kröfu á hendur þeim, er nú hafa brugðizt fyrri málstað, að þeir segi satt og rétt til um, hvað veldur.

Ég tel mér skylt að víkja aðeins að því, hvað réð því, að stjórn sú, er ég veitti forstöðu á árinu 1942, efndi ekki það heit að stofna lýðveldið á því ári. Veit ég þó, að a. m. k. nær allir þm. eru þeim hnútum kunnugir. Eins og vitað er, hétu allir flokkar því við sumarkosningarnar 1942, að á því hausti yrði endir bundinn á málið. Að afloknum kosningum lagði sérstakur erindreki Roosevelts forseta leið sína um Ísland. Í viðtali við mig lét hann þá orð falla um, að ef til vill mundi mér bráðlega berast boð frá forsetanum þess efnis, að hann bæri fram ósk um, að Íslendingar frestuðu skilnaði við Dani fram yfir árslok 1943. Tók ég mjög þunglega á því máli, en rek viðtalið eigi frekar að sinni. Hinn 26. júlí 1942 bárust mér þó þessi skilaboð, er voru upphaf langra nótuskipta. Er efni þeirra öllum kunnugt, en endirinn varð sá, að Íslendingar töldu sér ráðlegast að fallast á tilmæli og rök forsetans, gegn því að stjórn Bandaríkjanna gaf hinn 14. október 1942 út yfirlýsingu um það, að hún hefði ekkert við það að athuga, að Íslendingar stofnuðu lýðveldi, einungis ef lýðveldisstjskr. kæmi ekki til framkvæmda fyrr en eftir árslok 1943. Með þessari yfirlýsingu hafði tekizt að tryggja fyrirfram samþykki og viðurkenningu voldugasta lýðræðisríkis veraldarinnar á lögmæti stofnunar íslenzks lýðveldis, því að sjálfsögðu gátu Bandaríkin ekki lýst yfir, að þau hefðu ekkert við það að athuga, sem þau töldu ólögmætt. Þykist ég vita, að er fram líða stundir, muni gildi þeirrar yfirlýsingar rétt metið. Sjálfur taldi ég þá unninn veigamikinn sigur í sjálfstæðisbaráttunni. Þykir mér rétt að skýra frá því, að nokkurs ágreinings gætti síðar á haustinu 1942 um skilning þessarar yfirlýsingar stj. Bandaríkjanna, milli hennar og mín, sem þó lauk með fullri viðurkenningu á íslenzka sjónarmiðinu, því, að Íslendingar að dómi Bandaríkjanna gætu þegar haustið 1942 gengið að fullu frá stofnun lýðveldis, að því einu tilskildu, að hún kæmi ekki til framkvæmda fyrr en eftir árslok 1943.

Öll saga þessa máls segir skýrt frá um stefnu Sjálfstfl. í því. Við vildum binda endi á það 1942, en féllumst á að fresta því. En mér vitanlega hefur engum þm. Sjálfstfl. komið til hugar, að sá frestur næði fram yfir 17. júní 1944, og sannast sagna datt mér til skamms tíma ekki í hug, að slíkar raddir mundu heyrast hér á Alþ.

Ég tel, að í raun og veru sé sjálfstæðismálið útrætt. Sigur þess er tryggður. Frá því sjónarmiði er tilgangslaust að fara nú að tæta sundur ummæli og rökvillur hv. 4. þm. Reykv. Ég mundi heldur ekki geta bætt miklu við það, sem ég hef áður opinberlega um málið sagt og þjóðinni er löngu kunnugt um. Samt sem áður get ég ekki stillt mig um örstuttar athugasemdir.

Hv. þm., sem er form. þess flokks, sem lengst af hefur miklazt af skeleggri forustu í málinu, hefur nú snögglega gerbreytt um skoðun. Það á að sönnu að stofna lýðveldi, en bara ekki strax, heldur þegar tími er til kominn. Eru hér ekki á ferð gamlar afturgöngur? Hafa ekki þessar vofur alltaf ásótt alla, sem eitthvert spor vildu stíga fram á veginn í sjálfstæðisbaráttunni? Hefur því ekki alltaf verið við brugðið, að tíminn væri ekki hentugur, þótt stefnan væri í sjálfu sér rétt? Frestur, nýr frestur og framhaldsfrestur. Það eru vopnin, sem jafnan hafa bitið íslenzka málstaðnum bezt. Hv. 4. þm. Reykv. er svo sem ekki einn á báti. Fjöldi merkra utanþm. er í andófinu með honum. Einnig nokkrir flokksbræður hans á þingi. Mér dettur ekki í hug að hallmæla þessum mönnum. Sumir þeirra a. m. k. hlýða rödd samvizku sinnar. En ég hef aldrei skilið þá og geri það víst ekki úr þessu. Ég er jafnsannfærður í dag sem hv. 4. þm. Reykv. var 1941 og 1942 og síðast 7. apríl 1943 um rétt Íslendinga. Og nú minni ég hann og alla þá, er nú fylgja honum að máli, á, að réttur er sama og skylda. Ég get ekki sannað, að Íslendingum stafi voði af bið í málinu. En ég hef margleitt rök að því, að það sé líklegt eða geti a. m. k. allt eins orðið. Og hver er sá, sem þorir að staðhæfa, að þetta sé ekki a. m. k. hugsanlegt? Og vill þá nokkur bera ábyrgð á afleiðingum þess, að nú sé látið undir höfuð leggjast að nota skýlausan rétt meðan gatan er greið? Og fyrir hvern er svo þetta gert? Dani, konung, er svarað. En er nokkuð fyrir þá gert með þessu? Og sé svo, er þá ekki einmitt ástæða til að óttast afleiðingarnar? Ekki er Dönum neinn hagur í biðinni, og ekki konungi, nema því aðeins, að töfin bæti aðstöðu þeirra, sem alltaf hafa og alltaf munu vilja tengja saman ís og eld, Dani og Íslendinga. Og fyrir þá og þann málstað má enginn Íslendingur neitt gera.

Nei, lagalegi rétturinn er ekki hæpinn, eins og hv. 4. þm. Reykv. segir. Okkar vitni í því máli, íslenzk og erlend, eru þar gild og góð. Og siðferðisrétturinn er ekki heldur hæpinn, þótt hv. 4. þm. Reykv. vilji nú telja það. Sannleikurinn er sá, að lagaréttur okkar er ótvíræður, og okkur ber siðferðisleg skylda til að hagnýta hann tafarlaust. Verum þess minnugir, að sú þjóð, sem sjálf véfengir sinn helgasta rétt, á sér hvergi athvarf þegar í eindaga er komið, og gætum þess nú, að hvað sem líður kurteisi og umgengnisvenjum, þá hvílir nú á okkur skyldan, þung ábyrgð og heilög skylda gegn einum og eingöngu einum aðila, þ. e. gegn komandi kynslóðum á Íslandi.

Við höldum í dag á fjöregginu. Gætum þess að brjóta það ekki.