14.01.1944
Sameinað þing: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (4037)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Einar Olgeirsson:

Tíminn er lítill, þar til kaffihlé hefst. Ég mun því ekki byrja á aðalatriðinu, heldur segja nokkur orð út af einu atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. kom hér með áðan.

Hann var að bjóða flokkunum samkomulag og lýsti því, hvað hann vildi ganga inn á til samkomulags. Það væri allt í bezta lagi, ef hann og flokkur hans gæti fengið tækifæri til að ræða við Dani, áður en gengið væri endanlega frá þessu máli. Mig langar til að athuga ofurlítið, hvers vegna Alþfl. er að óska eftir þessu, hvað reynslan segir okkur um framkomu þessa hv. þm. í þessu máli og hve vel má treysta á skilning hans í þessu máli.

Alþfl. var búinn að taka þá ákvörðun 1928, eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur yfir lýst, að hann vildi, þegar sáttmálinn rynni út 1942, segja skilið við Dani og stofna lýðveldi. Hann varð þannig á undan öðrum flokkum að lýsa þessu yfir. Árið 1937 lýsir hann aftur yfir, að hann sé búinn að taka ákvörðun sína og samningnum verði sagt upp og lýðveldi stofnað á Íslandi strax eftir 1943. Er það ekki rétt? Alþfl. bjó sér til stefnuskrá 1938 og setti það í stefnuskrána, að hann vildi gera Ísland að lýðveldi strax og sáttmálinn rynni út. Hv. 4. þm. Reykv. var þá kosinn formaður Alþfl., m. a. til að framfylgja þessari ákvörðun. Alþfl. ögraði öðrum flokkum á þingi 1937, hvort þeir stæðu ákveðnir eins og hann að því, að sáttmálanum skyldi ekki aðeins sagt upp, heldur skyldi hann ekki verða endurnýjaður og lýðveldi stofnað á Íslandi. Afstaða Alþfl. var því alveg ákveðin og ljós. Hann var búinn, eins og aðrir þingflokkar fram að 1937, að taka þá afstöðu, að sáttmálanum skyldi sagt upp.

Svo gerast þau tíðindi árið 1939 um sumarið, að nokkrir merkir danskir stjórnmálamenn koma í heimsókn til Íslands, þar á meðal formaður sósíaldemókrataflokksins í Danmörku, Stauning. Hann talaði hér við ýmsa merka stjórnmálamenn, vafalaust ekki sízt við flokksbróður sinn, hv. 4. þm. Reykv., þáv. form. Alþfl., eins og hann er enn. Ég efast ekki um, að hv. 4. þm. Reykv., sem hafði staðið svo skeleggur að vígi í sjálfstæðismálinu, hefur þá sagt forustumönnum Dana, og þá fyrst og fremst forsrh. þeirra, að Alþfl. væri búinn að taka ákveðið þá afstöðu í málinu og hann stæði að því ákveðnastur allra flokka, að lýðveldi yrði stofnsett á Íslandi þegar eftir 1943.

Síðan fer Stauning aftur til Danmerkur. Honum er samferða einn ráðherra Íslands, maðurinn, sem segir okkur nú, að allt sé í lagi, bara ef við fáum tækifæri til að tala við Dani. Stauning kemur út og lætur í ljós skoðun sína og segir frá því áliti, sem hann hafi fengið á Íslandi um afstöðu þeirra. Og þessa vitneskju fær hann af viðræðum þeim, sem fram höfðu farið milli þeirra dönsku og íslenzku stjórnmálamanna, sérstaklega milli form. Alþfl. á Íslandi og form. sósíal-demókrataflokksins og forsrh. Dana, Staunings. Stauning segir frá þessu áliti sínu og afstöðunni heima á Íslandi í viðtali við „Politiken“ 11. ágúst 1939. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jeg vedkender mig gerne, at jeg ønsker Forbindelsen mellem de to gamle NordboNationer, Island og Danmark, bevaret og jeg tror, at mange i Island nærer dét samme Ønske.“

Hann á viðtöl við fleiri af dönskum blöðum, þegar hann kemur þarna út. Það eru birtar fallegar myndir af Stauning í dönskum blöðum. M. a. birtist 11. ágúst í Aftenbladet mynd af Stauning og Stefáni Jóh. Stefánssyni, þar sem þeir eru um borð í Gullfossi. Þar segir Stauning svo í blaðviðtali, með leyfi hæstv. forseta: Blaðamaðurinn spyr Stauning: „Hvad mener De selv om Unionen?“ Því svarar Stauning svo: ,„Jeg lægger skam ikke Skjul paa, at jeg haaber, at den bliver fortsat, og jeg ved, at mange Islændinge har det paa samme Maade .... saa nu faar vi se.“ Næst heilsar fréttaritarinn Stefáni Jóh. Stefánssyni.

Síðan er viðtölunum haldið áfram, og oft birtast myndir af þeim saman Stefáni Jóh. Stefánssyni og Stauning. Enn þá birtist viðtal í Social-Demokraten 11. ágúst. Það er auðséð, að Stauning stingur algerlega undir stól öllu því, sem formaður Alþfl. hefur sagt honum um hina skeleggu afstöðu Alþfl.

Hefur hv. 4. þm. Reykv., þáv. ráðh., formaður Alþfl., alveg gleymt að skýra þessa þjóðlegu afstöðu flokks síns fyrir Stauning í síðasta sinn sem hann átti þess kost í viðtali? Gleymdi hann að segja honum frá því, að íslenzki Alþfl. beitti sér fyrir því að segja upp sambandslagasamningnum eins fljótt og það væri hægt og stofna lýðveldi? Gaman að fá að vita það! En ef ég má trúa fréttaritara hins danska blaðs Socialdemokraten, sé ég ekki betur en orð hans séu skýr. Hann spyr núv. hv. 4. þm. Reykv.: „Hvad mener Ministeren om Forbindelsen?“ Nú fær hann tækifærið til að segja skorinort vilja sinn og Alþfl., sem hefur í 12 ár ögrað öðrum flokkum með því, hvort þeir þori að standa með því að slíta sambandið og stofna lýðveldið. Hverju svarar hann? „Jeg kan ikke udtale mig herom, da mit Parti endnu ikke har taget Standpunkt.“

Hvernig færi, ef við gæfum þessum fyrrv. hæstv. utanríkisráðherra sjálfstæðismálið í hendur og sendum hann til að halda á því fyrir þjóðina? [Fundarhlé.]

Herra forseti. — Ég lauk máli mínu síðast þar, sem ég hafði lýst afstöðu hv. 4. þm. Reykv., þegar hann kom til Kaupmannahafnar með Stauning í ágústbyrjun 1939.

Við skulum nú leggja allt út á betri veg fyrir honum. Við skulum gera ráð fyrir, að hann hafi setið góðar veizlur með Stauning, hafi þótt vinátta hans góð og ekki viljað hryggja hann, eða jafnvel, að hv. fyrrv. félmrh. hafi glúpnað fyrir Stauning og hans stóra, virðulega skeggi. Við ættum þó a. m. k. að geta gengið út frá því, að afstaða sú, er hann tók þá og lýsti yfir, hefði ekki þurft að hafa áhrif á afstöðu Alþfl. Þessu er þó ekki til að dreifa. Alþfl. sjálfur virðist hafa breytt um stefnu í sambandi við þessa heimsókn, því að 15. ágúst 1939 birtir Alþýðublaðið leiðara, sem ég vil leyfa mér að lesa upp úr með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„En hitt mun óhætt að segja, að enginn þessara flokka mun enn út af fyrir sig hafa tekið neina endanlega ákvörðun um það, hvort stefna beri að því að slíta því sambandi, sem verið hefur við Danmörku samkvæmt sambandslagasamningnum frá 1918, til fulls eða gera samning um það á öðrum grundvelli.“

Alþýðublaðið, höfuðmálgagn Alþfl., lýsir því þar með yfir, að flokkurinn hverfi frá fyrri ákvörðunum um þetta mál og sé ekki búinn að taka neina endanlega ákvörðun um afgreiðslu sambandsmálsins, geti jafnvel komið til mála að gera nýjan samning. Og það er ekki nóg með, að blaðið lýsi burtu fallið það, sem flokkurinn hafði áður ákveðið í málinu, heldur segir það ósatt um afstöðu annarra flokka. Það segir, að enginn þeirra hafi tekið ákvörðun í þessu máli. Bæði Sósfl. og Sjálfstfl. höfðu lýst því yfir, að þeir vildu ekki endurnýja samning við Dani, er sambandslagasamningurinn væri útrunninn, og 1. marz 1937 sagði Ólafur Thors, form. Sjálfstfl., í þingræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Við Íslendingar viljum nota heimild 18. gr. sambandslaganna til þess að krefjast þess, að strax eftir árslok 1940 verði byrjað á samningum um endurskoðun sambandslaganna. Í öðru lagi viljum við enga samninga gera í staðinn, heldur hagnýta ákvæði sömu gr. um að fella samningana með öllu úr gildi þremur árum eftir að þessi endurskoðunarkrafa kemur fram.“

Það lágu m. ö. o. fyrir yfirlýsingar frá yfirgnæfandi meiri hluta þings um að láta sambandssáttmálann falla úr gildi, þótt Alþýðublaðið fari með fyrr greind ósannindi með það fyrir augum að byrja baráttu fyrir því, að svo verði ekki gert. Með þessu breytti Alþfl. algerlega um stefnu.

Maður skyldi nú ætla, að hv. 4. þm. Reykv. og flokkur hans hefði ekki verið ginnkeyptur fyrir því að semja við hina flokkana eftir þessu að dæma. Það virtist þó á annan veg. Alþfl. var gefinn kostur á að taka þátt í aðgerðum 1942 með tveimur öðrum þingflokkum, þess efnis að taka ákvörðun um að samþykkja stjskr. fyrir Íslendinga, er átti að koma til framkvæmda á því ári. Þetta gerði flokkurinn. En þá kom til íhlutunar Bandaríkjanna. Þá var kosin 8 manna n. frá öllum flokkum til þess að athuga, hvað gera skyldi. Í n. þessari kom fram uppástunga um að leysa málið á þann hátt að samþ. stjskr. það haust, en láta hana ekki koma til framkvæmda fyrr en 17. maí eða 17. júní 1944. Ég ætla ekki að fullyrða, hver átti þessa uppástungu og setti tímatakmarkið, en ég man ekki betur en það væri hv. 4. þm. Reykv. og væri tíminn tiltekinn með það fyrir augum, að þriggja ára uppsagnarfrestinum væri þá fullnægt. Þá var það rætt milli flokkanna, hvort hægt væri að mynda samtök í þinginu um að mynda stjórn um þessa lausn málsins. Sjálfstfl. leitaði svara frá hinum flokkunum um þetta, og svar Alþfl. var á þá leið, að flokkurinn væri reiðubúinn að fara þessa leið og standa að stjórn um þetta mál, ef hinir flokkarnir fengjust til þess. Það kom yfirlýsing frá flokknum um þetta. Þá var ekki minnzt á yfirdrepskap gagnvart Dönum eða konungi. Því var aðeins skýrt og skorinort lýst yfir, að Alþfl. væri reiðubúinn að standa að þessari lausn, ef hinir flokkarnir væru það. Það náðist hins vegar ekki samkomulag um þessa leið. En það sýnir bezt, að fulltrúar Alþfl. voru enn á þessari braut, að þeir héldu áfram starfi sínu í stjskrn. og undirskrifuðu álit hennar 7. apríl.

Síðan hefur það svo gerzt, að einnig hefur verið hlaupið frá þessu. Hvað hefur gerzt í millitíðinni? Hafa komið ný skilaboð, hafa farið fram skriflegar viðræður, eða hefur náðst líkt samband við Danmörku og 1939? Svo mikið er víst, að Alþfl. þverbrýtur stefnu sína vorið 1943 og hleypur frá fyrri afstöðu. Áður hafði flokkurinn sína stefnuskrá í þessu máli og ögraði öðrum til að fylgja sér. Síðan stríðið byrjaði og vont samband varð í Danmörku, rétti hann sig af og var kominn á réttan rekspöl 1942. En eftir tæpt ár er aftur hlaupið frá þeirri afstöðu. Mér þykir því nokkur áhætta að eiga nokkuð undir þessum flokki í þessu máli. Það er betra fyrir þjóðina að byggja kröfur sínar á ótvíræðum rétti en loforðum hv. 4. þm. Reykv. um viðræður við Dani og úrslitum þeirra viðræðna.

Það geri ég að aðalatriði, á hvaða rétti við byggjum kröfur okkar um algert sjálfstæði. Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að okkar lagalegi og siðferðislegi réttur væri hæpinn. Ég held, að það sé réttara að orða þetta svo, að við byggjum kröfur okkar á almennum mannréttindum og þjóðarvirðingu. Hv. þm. las hér upp kafla úr grein, sem ég hef skrifað í „Andvara“. Ég held það sé rétt, að ég lesi meira upp úr þeirri grein, með leyfi hv. forseta:

„Það er skýlaus réttur vor Íslendinga sem þjóðar, hvenær sem vér viljum, að taka öll mál vor í eigin hendur og verða algerlega sjálfstæð þjóð. Slíkt er helgur, óafseljanlegur réttur hverrar þjóðar, sem engrar stoðar þarfnast í frelsisskrám eða sáttmálum. Það getur enginn svipt oss þeim rétti, engin kynslóð Íslendinga svipt komandi kynslóðir honum. Sá réttur er öllum sáttmálum æðri og verður aldrei af oss saminn, hve slæma sáttmála sem valdhafar Íslands á undanförnum árum hafa gert eða á komandi árum kynnu að gera.

Þessu megum vér aldrei gleyma, þótt vér kjósum oft frekar að byggja frelsiskröfur vorar á gamla sáttmála, eins og Jón Sigurðsson gerði, eða á sambandslagasáttmálanum frá 1918, svo sem gert hefur verið upp á síðkastið. Hefði gamli sáttmáli aldrei verið gerður, heldur eins konar Kópavogshylling farið þá fram, þá væri réttur vor hinn sami, — óskráði, óafseljanlegi réttur þjóðar til frelsis, — og Jón Sigurðsson mundi þá vafalaust hafa byggt þjóðfrelsiskröfur vorar á mannréttindunum sjálfum, í stað þeirra ákvæða gamla sáttmála, sem hinir erlendu drottnar höfðu rofið.

Grundvöllurinn fyrir þjóðfrelsiskröfum vorum er fyrst og fremst vilji þjóðar vorrar til fulls frelsis. Þá einföldu og sjálfsögðu staðreynd er nauðsynlegt að leggja áherzlu á, einmitt þegar hætta er á, að flækt verði skilnaðarmálið við Dani með lögfræðilegum útskýringum eða kröfum um ýmiss konar samninga um mál, sem vér einir höfum réttinn til að ákveða um.

Hitt er svo annað mál, að vér þurfum ekki að beita hinum óskráða frelsisrétti vorum í þeim ákvörðunum, sem nú skal taka. Vér getum haldið oss við lagalegan, samningslega viðurkenndan rétt vorn.“

Ég verð að segja það, að ég bjóst ekki við að upplifa, að nokkur maður lýsti því yfir á þingi þjóðar sinnar, að þjóð hans hefði ekki þennan rétt. Mér datt ekki í hug, að önnur eins rödd gæti heyrzt um þennan eilífa og óafseljanlega rétt. Hitt höfum við upplifað, að þjóðir, sem heimtuðu þennan rétt sér til handa, viðurkenndu hann ekki fyrir aðrar þjóðir. En að svo langt sé gengið að virða ekki þessi grundvallarréttindi eigin þjóð til handa, það hygg ég sé dæmalaust. Við erum hér ekki að ræða um neinn saltfiskssamning eða þess háttar. Við erum að ræða um rétt þjóðar til að ráða sér sjálf, og það á ekkert skylt við venjulega milliríkjasamninga. Þetta verður að athuga, þegar um þetta mál er rætt. Réttur til lýðræðis og þjóðfrelsis er ekkert skyldur lagalegum rétti. Það getur enginn selt sig í þrældóm, þannig að það sé viðurkennd réttmæt sala eða hægt sé að tala um lögformlegan gerning. Það gildir sama um þjóðir, sem búa við skipulag, sem ekki byggist á lýðréttindum. Þær hafa óskráð mannréttindi til að taka rétt sinn, þótt það sé þvert ofan í gildandi lög. Þessi réttindi eru ofar öllum lögum, þau eru grundvöllur þjóðfélagsins. Það er því undarlegt að heyra því gagnstæða haldið fram 150 árum eftir frönsku stjórnarbyltinguna og amerísku mannréttindaskrána.

Mér datt ekki í hug, að nokkur maður mundi verða til þess að mótmæla þessu. Hitt gat ég vel skilið, að við þyrftum að breyta þessum óskráða frelsisrétti, og ég vil geta þess, að ef skilningur hv. 4. þm. Reykv. ætti að vera sá rétti, þá hefðu Íslendingar með því að gera gamla sáttmála, ef hann hefði verið haldinn, afsalað sér um alla eilífð réttinum til þess að ráða þessu landi. Gamli sáttmáli er hinn lagalegi réttur, og ef hann hefði verið haldinn og Noregskonungar hefðu haldið sínu valdi áfram, þá ættu þeir þennan rétt enn í dag, ef skilningur hv. 4. þm. Reykv. á þessu máli væri hinn rétti. Hitt er svo allt annað mál, þó að við viðurkennum og undirstrikum þennan rétt okkar í sambandi við þjóðfrelsi og lýðræði til þess að þjóðin megi ráða sér sjálf, en við viðurkennum þar með alls ekki, að það veiti rétt til þess að brjóta milliríkjasamninga eða rifta þeim, svo sem ef við hefðum gert samning við eitt ríki um fisksölu eða annað slíkt. Þegar við gerðum sambandslagasamninginn við Dani, þá vorum við þannig settir, að við gátum ekki annað en gengið að þeim kostum, sem þar voru settir, en við viðurkennum aldrei, að við með því höfum afsalað okkur nokkrum öðrum rétti. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að vegna þess, að þessu „principi“ væri haldið á lofti, sem ég held fram, þá ætti styrjöldin sér stað, ætti þjóðarkúgun sér stað. En þetta er einmitt þveröfugt: Vegna þess, að þetta „princip“ er brotið, vegna þess, að þessi réttur hverrar þjóðar til þjóðfrelsis og lýðræðis er ekki viðurkenndur, einmitt vegna þess stendur heimurinn í þeim ósköpum, sem hann á nú í. Það, sem gert hefur verið meðal annars, er það, að þröngvað hefur verið upp á þjóðirnar sáttmálum, sem þeim síðan hefur verið haldið fast að að standa við, og þessir sáttmálar hafa síðan verið kallaðir lög og réttur, þó að þeir hafi verið í andstöðu við frelsi þjóðanna og hafi ekki gefið þeim neinn rétt til þess að fá sitt frelsi aftur. Það er einmitt vegna þess, að þetta „princip“ um rétt hverrar þjóðar hefur verið brotið, að hin ægilega styrjöld nútímans er háð.

Ég læt svo útrætt um þetta spursmál, sem mér datt ekki í hug, að þyrfti að fara að ræða í alvöru hér á hæstv. Alþ.

Þá er annað atriði, sem ég ætla að minnast á, það er uppsagnarákvæðið. Hv. 4. þm. Reykv. tók það fram, að hann áliti, að það ætti að fylgja stranglega reglum 18. gr. um uppsögn. Við vitum, hverjar þessar reglur eru; að Alþ. Íslendinga, 2/3 hlutar þm., greiði atkv. með uppsögninni, síðan fari fram þjóðaratkvgr., þar sem 3/4 mæti við atkvgr. og 3/4 greiði atkv. með uppsögn. Hvers konar reglur eru nú þetta? Eru þessar reglur um atkvgr. í samræmi við lýðræði og þjóðfrelsi? Eru þessar reglur í samræmi við það, sem fullvalda þjóð mundi semja um við aðra fullvalda þjóð um að fá sér til handa fullt frelsi í sínum málum? Nei, — þessar reglur eru keyptar. Íslendingar hefðu ekki samið svona, ef þeir hefðu verið alveg frjálsir að setja þessi ákvæði, þeir gátu aðeins samið svona vegna þess, að þeir áttu frelsi sitt að sækja undir aðra og urðu að ganga að þessum kostum, ef þeir áttu að fá fullveldið viðurkennt. Þeir höfðu um það að velja að hafna samningnum eða taka honum með þessum ákvæðum, þó að þessi ákvæði væru eins og fleinn í holdi fullveldisins. Það var í rauninni ekki að viðurkenna fullveldi einnar þjóðar að heimta af henni, að hún framfylgdi þessum ákvæðum. Við vitum, hvað þessi ákvæði gætu þýtt, ef rúmlega 1/3 hluti þm. sæti hjá við atkvgr., — þá væri ekki hægt að segja sáttmálanum upp. Ef rúmlega 1/4 hluta þjóðarinnar vantaði við atkvgr., þó að hver einasti maður, sem kæmi, segði já, — þó að 75% Íslendinga segðu já — þá væri samt ekki hægt að segja sambandslagasáttmálanum upp. Það var að afneita grundvelli þjóðfrelsis og lýðræðis að setja þessi ákvæði. Með þessum ákvæðum var verið að gera minni hl. að drottnandi aðila og ofurselja íslenzku þjóðina sambandi við Dani. Þess vegna er það eðlileg afstaða að viðurkenna ekki réttlæti þessa ákvæðis. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé óréttlátt að afsala okkur þeim rétti, sem við eigum. Hitt er svo allt annað mál að reyna að sameina þjóðina um það að greiða svo rösklega atkv., að 90% hennar standi með uppsögn. En það er einmitt í sambandi við þetta, sem hv. 4. þm. Reykv. er að reyna að leita að átyllu til þess að geta barizt á móti þessari uppsögn. Hann vill nota sér þessi röngu, einræðislegu ákvæði til þess að hindra það, að Ísland nái rétti sínum. Í því sambandi langar mig til að spyrja, hvort menn muni halda, að það séu margir Danir, sem mundu vilja halda við það nú, að svona ákvæði væru í samningi þeirra við Íslendinga, og heimta, að þessum bókstaf væri fullnægt, og viðurkenna ekki rétt Íslendinga til lýðveldisstofnunar. Ég er viss um, að meginþorri dönsku þjóðarinnar mundi ekki vilja halda þessum ákvæðum fram, — hann mundi álíta það fyrir neðan virðingu sína að halda svona skilyrðum. Danska þjóðin metur meira rétt sinn og annarra þjóða til þjóðfrelsis en svo, að hún mundi vilja viðhalda svona ákvæðum. Ég skal ekki segja um það, hvað Knud Berlin mundi segja, en ég skal vera viss um, að Stefán Jóhann væri áreiðanlega í röð afturhaldssömustu Dana, þar sem hann stendur með því, að þessum ákvæðum verði stranglega framfylgt. Mér datt það í hug út af hugleiðingum, sem fram komu hjá honum um rétt þjóðanna til þjóðfrelsis, að hann vildi einskorða þann rétt við lagalegan rétt. En við Íslendingar þurfum ekki bara að byggja á þessum almenna rétti, við höfum líka lagalegan rétt. En ég vil spyrja hv. 4. þm. Reykv.: Hvaða rétt hefur minnsta þjóð Norðurlanda, færeyska þjóðin, til sjálfstæðis? Hvar er hennar lagalegi réttur? Hún hefur ekki neinn sambandslagasáttmála við Dani, hennar land er hluti af danska ríkinu, henni er meira að segja fyrirskipað að kenna erlent mál í sínum skólum. Hvaða rétt hefur þessi þjóð til þjóðfrelsis? Hefur hún máske engan rétt, eða á hún að eiga það undir náð meiri hl. hjá Dönum, hvenær hún öðlast þennan rétt? Hefur hún ekki þennan rétt í krafti þess að vera þjóð, ef hún hefur vilja til þess að fá þennan rétt sinn viðurkenndan? Ég hefði gaman af að heyra afstöðu hv. 4. þm. Reykv. til þessa atriðis. Ég álít t. d., að færeyska þjóðin hafi rétt til þess að lýsa yfir sjálfstæði sínu, þegar meiri hl. þjóðarinnar vill það, án tillits til allra laga, sem um hana gilda hjá Dönum. Ég álít, að öðrum þjóðum beri skylda til að virða þá yfirlýsingu hennar, viðurkenna þjóðfrelsi hennar. Hins vegar ber að viðurkenna, að samkvæmt þessum sama rétti hefur hún líka rétt til þess að ganga sem sjálfstæð þjóð inn í hvaða aðra ríkisheild sem væri; ef hún kýs að vera í sambandi við Dani, þá hefur hún rétt til þess. En þó að Færeyingar hafi þennan rétt, þá þýðir það ekki það, að þeir hafi rétt til þess að rjúfa saltfiskssamning t. d. við Englendinga.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði svo í ræðu sinni, sem við, með því að stofna lýðveldi, værum að taka eitthvað frá Dönum, en þetta er alger misskilningur. Ekki eiga þeir okkar þjóðfrelsi, og sízt af öllu vildum við verða til þess að skerða þeirra frelsi. Ég efast ekki um, að nú á tímum er vinarhugur Íslendinga í garð Dana meiri en hann hefur verið nokkurn tíma áður allar þessar aldir, en það er svo langt frá því, að við viljum taka nokkuð frá Dönum, sem þeir hafa vald yfir, og ég hef ekki heyrt slíkar raddir nema úr einni átt í sambandi við þær umr., sem fram hafa farið um sjálfstæðismálið, að við ættum að taka eitthvað frá Dönum af því, sem þeir hafa vald yfir nú, að einhverju leyti að reyna að skerða þann rétt. Þessi rödd kom fram frá einum manni, sem sæti á í stjórn Alþfl., Ingimar Jónssyni. Þessi maður segir svo í blaðagrein, sem hann skrifaði fyrir nokkru:

[Vantar í hndr.]

Þessi yfirlýsing liggur fyrir frá einum af forustumönnum Alþfl. Hann vill fresta að lýsa yfir sjálfstæðinu til þess að geta heimtað Grænland af Dönum. Ég er hræddur um, að þegar Stefán Jóhann talar um það af miklum þjósti, að hér séu einhverjir menn innan þingsalanna, sem vilji níðast á Dönum, og bregður þeim um ódrengskap, þá er ég hræddur um, að hann þurfi eitthvað að prédika yfir flokksbróður sínum, Ingimar Jónssyni. Þessi maður talar um það að taka Grænland af Dönum, og þá fer ég kannske að skilja betur, hvers vegna hv. 4. þm. Reykv. vill ekki gera mikið úr rétti þjóðanna og þjóðfrelsinu, — hann vill byggja meira á gömlum lagalegum útskýringum heldur en rétti þjóðanna til þjóðfrelsis. Hann álítur máske, að Ísland eigi einhvern rétt yfir Grænlandi, við eigum rétt til að ráða yfir grænlenzku þjóðinni. Þá fer ég að skilja, hvers vegna þessi maður vill gera lítið úr rétti þjóðanna til frelsisins, ef hann skoðar Grænland sem nýlendu okkar, af því að við viljum það sjálfir, þó að við höfum alls ekki rétt til þess. Ég sé ekki betur en að hvar, sem drepið er niður, fari svo fjarri því, að nokkuð af þeim rökum, sem þessi hv. þm. hefur komið með víðvíkjandi sjálfstæðismálinu, fái staðizt. Hann minntist á, að við ættum að bíða þangað til Danir eru frjálsir, konungurinn frjáls o. s. frv. En það er einnig rétt að athuga í því sambandi: við höfum gert þennan samning, við höfum okkar þjóðfrelsisrétt. Ef erlent stórveldi brýtur Danmörku undir sig, eins og nú hefur gerzt, þýðir það, að við höfum ekki rétt til þess að lýsa yfir lýðveldisstofnun og taka okkur sjálfstæði. Ef Hitler hefði tekizt að sigrast á rauða hernum, eins og var ósk Alþýðublaðsins, þegar hann hélt í austurveg, hvað lengi skyldu Danir þá hafa orðið að búa við ófrelsið, sem þeir eiga nú við að búa? Var það þá skylda okkar Íslendinga að bíða allan þennan tíma, til þess að geta talað við kónginn, sem við einu sinni áttum? Átti Hitler að ráða því, hvenær Ísland yrði lýðveldi?

Ég held, að það sé alveg sama, hvernig á þetta mál er litið, — röksemdirnar, sem þessi hv. þm. færir fram, fá ekki staðizt. 25 árin eru liðin frá því, að sambandslagasáttmálinn var gerður, og 17. júní er þriggja ára fresturinn liðinn og meira en það, ef við vildum líta svo á, að við værum því skuldbundnir. En rétt okkar, sem við höfum til að ráða okkar þjóðskipulagi, — í krafti allra nútíma mannréttinda, — byggjum við á yfirlýsingum gefnum út á tímum frönsku þjóðbyltingarinnar og allt til þess, er Atlantshafssáttmálinn var gefinn út. Sósfl. stendur því eindregið með því frv., sem rætt verður í hv. Nd. um stjskr., og þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Við munum vera með því að athuga þessa till. í n. og gera breyt. á henni. Við höfum frá upphafi staðið með þeim aðgerðum, sem þingið hefur gert í þessum málum, og það þó að það hafi ekki alltaf verið beitt mikilli tillitssemi í samningatilraunum við Sósfl. í þeim málum, eins og beitt hefur verið til þess að reyna að fá Alþfl. til að standa á grundvelli þeirra yfirlýsinga, sem hann hefur gefið. 10. apríl 1940, þegar sú yfirlýsing var gefin, sem við nú byggjum okkar aðgerðir á, voru stjórnarflokkarnir búnir að sitja á fundum alla nóttina og búnir að koma sér niður á því, hvað gera skyldi, og ég býst við, að þeim hafi verið það ljóst, að mikið var undir því komið, að fulltrúar íslenzku þjóðarinnar á þingi — hver einasti — stæðu að þessari yfirlýsingu, sem þá var gerð, en við þm. sósíalista vorum ekki kallaðir til umræðna um þetta mál. Þegar hinir flokkarnir höfðu komið sér saman um þetta mál, var kallaður saman opinber þingfundur til að taka ákvörðun um málið, og þá fengum við sósíalistar einar 10 mínútur til þess að taka ákvarðanir okkar um þetta mál, og þrátt fyrir þessar aðfarir gagnvart okkur þm. Sósfl., og þrátt fyrir það, þó að við værum í harðvítugri andstöðu við hæstv. ríkisstj., þá þurftum við ekki nema 5 mínútur til þess að koma okkur niður á því, hvað við vildum gera. Við svöruðum því allir játandi á þessum fundi að flytja konungsvaldið inn í landið, af því að okkur fannst nauðsyn á því, að allir þm. — hver einasti — stæðu að þessari yfirlýsingu. Það hefur ólíkt verið farið að við Alþfl. með allar þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að fá hann til þess að standa með þessu máli, og mætti næstum því segja, að þar launi kálfur illa ofeldi sitt, þegar við sjáum árangurinn af því, eftir yfirlýsingar hv. 4. þm. Reykv. En ég vona hins vegar, að það muni sýna sig, þó að hann taki þessa afstöðu, að meginið af Alþfl., eins og allir aðrir flokkar, standi saman um þær ákvarðanir, sem um þetta hafa verið teknar. Það hefur hingað til aldrei komið fyrir, að íslenzka þjóðin hafi ekki staðið á bak við þingið í sjálfstæðismálum sínum, og það mun ekki heldur verða nú.