18.01.1944
Sameinað þing: 6. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (4040)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Mér þykir rétt að gera, nú þegar á þessu stigi málsins, nokkra grein fyrir afstöðu minni til þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir, og þá um leið til skilnaðarmálsins í heild sinni. En þar með meina ég bæði þáltill. og frv. stjskrn. til lýðveldisstjskr. Allir þingfl., allir þm. og, að ég hygg, landsmenn allir, eru sammála um höfuðatriði þessa máls, þau: að hinu stjórnarfarslega sambandi við Dani skuli að fullu slitið og að lýðveldi skuli stofnað hér á Íslandi. Um meðferð málsins virðist hins vegar verulegur ágreiningur. Þrír af fjórum þingflokkunum hafa opinberlega lýst því yfir, að þeir sameiginlega og hver þessara flokka um sig í heild hafi skuldbundið sig til að taka málið upp á Alþ. eigi síðar en nú hefur gert verið og að gildistaka stjskr. skyldi nú þegar ákveðin 17. júní.

Alþfl. hefur ekki talið rétt að gera það að flokksmáli, hvenær málið yrði tekið upp í þinginu og ekki heldur gildistökudag stjskr., hvort hann skyldi ákveðinn nú þegar eða síðar. Það, sem ég hér segi um þessi atriði, segi ég aðeins fyrir sjálfan mig, en tala þar ekki í umboði Alþfl. Ég get ekkert um það fullyrt, hversu margir af flokksmönnum mínum eru sömu skoðunar um þau og ég. En hitt veit ég, og það er alþjóð kunnugt, að Alþfl. er einhuga bæði um að sambandinu skuli slitið og lýðveldi stofnað. Afstaða mín til málsins kemur nokkurn veginn glögglega fram í bókun stjskrn., sem gerð var 30. nóv. s. l. og ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Þetta er bókað á 27. fundi n., 30. nóv. s. l. Þar segir: „Haraldur Guðmundsson tekur fram, að hann sé því samþykkur, að stjórnarskrármálið (þ. e. lýðveldisstjórnarskráin og ályktun um formleg sambandsslit) verði afgreitt á Alþingi nægilega snemma til þess að þjóðaratkvæðagreiðslu sé lokið fyrir 17. júní n. k. og gildistaka ákveðin þann dag, en telji ekki ástæðu til að flýta upptöku málsins meira en svo, að þetta náist, og að nota beri tímann til að reyna að ná samkomulagi um afgreiðslu þess.“ Með öðrum orðum: Ég tel höfuðatriði þessa máls, að samkomulag náist með okkur sjálfum innbyrðis um afgreiðslu þess. Á það ber að leggja alla áherzlu. Hitt skiptir í mínum augum litlu máli, hvort málið er flutt á Alþ. nokkrum vikum fyrr eða síðar, nema ástæða sé til að óttast, að það torveldi samkomulagstilraunir. Hins vegar tel ég sjálfsagt að stefna að því, að stjskr. taki gildi 17. júní og haga afgreiðslu svo, að meðferð málsins sé að fullu lokið fyrir þann tíma.

Fyrir fundi n. 30. nóv. s.l. lá bréf frá fjórtánmenningunum svokölluðu, þar sem gerð var grein fyrir till. þeirra um afgreiðslu skilnaðarmálsins. Ég skal ekki ræða efni þeirra till., en það tel ég, að ekki megi draga í efa, að með þessu bréfi er beinlínis látið í ljós, að þeir, sem undir það rita, vilja vinna að því að draga úr þeim ágreiningi, sem upp er kominn, og gera sitt til þess að fá samkomulag um lausn málsins. Ég hefði því talið, hvað sem maður annars segir um einstakar till., sem í bréfinu voru, að það hefði verið rétt að reyna enn, hvort ekki væri unnt að ná samkomulagi við þá um málið, því að ef samkomulag hefði náðst við þessa menn, má hiklaust fullyrða, að allur ágreiningur hefði niður fallið. Því taldi ég ekki ástæðu til að flýta svo upptöku málsins, að ekki yrði reynt til þrautar að ná samkomulagi. En meiri hluti stjskrn. ákvað þá að taka málið upp á Alþ. í fyrri hluta janúar og gera ekkert til að jafna ágreininginn. Fulltrúar Sjálfstfl., Sósfl. og Framsfl. lýstu því yfir á fundinum, að þeir 3 flokkar þeirra væru sammála um það að bera málið fram á Alþ. fyrri hl. janúarmánaðar, ef það yrði ekki gert fyrr, sem einn flokkanna vildi ákveða þá þegar. Mér þykir nú rétt að gera með örfáum orðum grein fyrir því tvennu: Í fyrsta lagi, hvers vegna ég er sammála því, að rétt sé að miða gildistöku stjskr. við 17. júní, og í öðru lagi, hvers vegna ég ekki vildi eiga þátt í samtökum um það að taka málið upp á Alþ. strax í byrjun þessa árs.

Ég skal víkja fyrst að fyrra atriðinu. Ég tel og hygg, að um það séu flestir sammála, að meginástæðan til þess, að sambandslagasáttmálinn við Dani var samþ. 1918, hafi verið sú, að með því fengu Íslendingar viðurkenndan skýlausan rétt til þess, að liðnum 25 árum eða í árslok 1943, að taka öll mál sín í eigin hendur og gera fullan stjórnarfarslegan skilnað við Dani. Höfuðröksemdin fyrir því, að samþykkja bæri samninginn, var einmitt sú, að með honum öðluðust Íslendingar óvéfengjanlega viðurkenningu Dana á þessum rétti. Það er alveg augljóst af ræðum og blaðagreinum frá þeim tíma, að höfuðástæðan til þess, að samningurinn var samþ. við þjóðaratkvgr. 1918, var einmitt sú, að menn vildu ekki missa tækifærið til að fá þessa skýlausu viðurkenningu. Að vísu voru nokkrir meinbugir á í þessum efnum, en það voru hin ströngu skilyrði, sem sett voru í 18. gr., uppsagnarákvæðin. Þau voru mér og ýmsum öðrum þyrnir í augum. En það breytir í engu því, að meginástæðan til þess, að samningurinn var samþ., var sú, að þjóðin vildi fá þennan skýlausa rétt til þess einhliða að slíta sambandinu, enda yfirlýst í sambandi við umr., að þjóðin ætlaði að nota sér réttinn til uppsagnar strax og tími væri til kominn. Þessar yfirlýsingar hafa síðan margsinnis verið áréttaðar, og skal ég aðeins minna á þær helztu þeirra. Það mun öllum hv. þm. í minni, að árið 1928 kom fram og var samþ. á Alþ. skýlaus og einhuga yfirlýsing frá öllum flokkum í þinginu fyrir munn allra þm., þess efnis, að það væri ætlun Íslendinga, strax og samningstíminn væri útrunninn, að taka öll sín mál í eigin hendur. Árið 1937 var aftur samþ. á Alþ. þáltill. í sambandi við þetta mál, og kom glögglega fram í umr. um till. skýlaus vilji alls þingsins og allra flokka um það að slíta að fullu sambandinu við Dani strax og samningstíminn væri útrunninn og hefja þegar undirbúning þess að taka við þeim málum, sem við þá ekki höfðum í okkar höndum. Ég vil enn fremur minna á samþ. þá, sem gerð var hér í þinginu í apríl 1940 einnig einhuga og án þess að nokkur þm. skærist úr leik. Þá var samþ. þál. þess efnis, að Íslendingar tækju öll mál sín í eigin hendur, einnig meðferð hins æðsta valds, af þeim orsökum, sem hv. þm. eru í fersku minni, — ástæðum, sem hvorki konungur, Danir né við sjálfir gátum við ráðið. Einnig um þessa ályktun var fullkomin eining og samkomulag, ekki aðeins allra flokka, heldur og allra þm., og ég hef aldrei annað heyrt en að á bak við hana hafi og verið einhuga vilji þjóðarinnar allrar. Í maí 1941 er svo komið, að í meira en eitt ár hefur sambandinu við Dani raunverulega verið að fullu slitið og við Íslendingar höfum allan þann tíma orðið að búa við bráðabirgðaskipulag, sem ómögulegt var að búa við til frambúðar, þ. e. að ríkisstj. fari með konungsvaldið. Það var þá og fyrirsjáanlegt, að enn um langan tíma, — hversu langan vissi enginn, — mundi ekkert samband nást við Dani eða konung. Þá samþ. Alþ. yfirlýsingu og ályktun, sem felur í sér það, sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi, að Ísland hefur þá þegar öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Dani, einhliða.

Í öðru lagi, að um endurnýjun sambandslagasáttmálans verði ekki að ræða.

Í þriðja lagi, að formlegum sambandsslitum verði ekki frestað lengur en til stríðsloka.

Í fjórða lagi, að það sé vilji Alþ., að lýðveldi verði stofnað jafnskjótt og formlega sé gengið frá sambandsslitum.

Einnig um þessar ályktanir allar voru allir flokkar og allir þm. sammála, og ég veit ekki annað en að á bak við þessa ályktun hafi verið og sé enn einhuga vilji þjóðarinnar.

Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram um það, hvort sá réttur til einhliða riftingar, sem Alþ. lýsti yfir, að það teldi Ísland hafa, sé óvéfengjanlegur eða ekki. Ég vil aðeins á það minna, að ríkisstj. sú, er þá fór með völd, hafði að sjálfsögðu látið fara fram nokkra athugun á réttarhlið málsins. Sú athugun hefur þá verið talin fullnægjandi, því að það var að fengnum þeim upplýsingum og athugunum, sem fyrir hendi voru af hálfu ríkisstj., sem þm. greiddu atkv. um ályktun þá, sem ég áður hef greint, og var hún samþ. einhuga af þingheimi öllum, eins og áður er sagt. Mér er um það vel kunnugt, að meðal lögfræðinga er deilt mjög um þetta atriði, réttinn til riftingar, og að sjálfsögðu eru einnig um það skiptar skoðanir meðal leikmanna. Ég er ekki lögfræðingur og enn síður fræðimaður í þjóðarétti, og skal ég því ekki leggja þar dóm á, en hitt vil ég fullyrða, að hafi það verið rétt, sem ég hygg, að við hefðum slíkan rétt 1941, þá getur það ekki leikið á tveim tungum, að sá réttur er stórum öruggari, að ég ekki segi meiri, nú, eftir að liðin eru þrjú ár frá því að þessi samþykkt var gerð. Allan þennan tíma var fullkomlega ómögulegt að framkvæma sambandslagasamninginn, og neyddumst við því til að byggja upp stjórnskipulag með innlendum þjóðhöfðingja, og er það nú farið að festast í framkvæmd og vitund þjóðarinnar. Það er löngum svo, að lögfræðinga greinir á, og er það eðlilegt, — ella væri lítið fyrir lögfræðinga að starfa. En ég lít svo á, að það sé fullkomlega rétt, sem einn reyndasti maður í utanríkisþjónustu Íslendinga hefur sagt í einu bréfi sínu til ríkisstj. varðandi einmitt þetta mál, að það eru ekki lögfræðingar og fræðimenn, sem eiga að taka ákvörðun í þessu máli, það eru stjórnmálamennirnir, — þeim er lögð sú skylda á herðar, og undan henni geta þeir ekki skotið sér. Það er þeirra að taka ákvörðun um þetta mál. Að sjálfsögðu eiga þeir að kynna sér lögfræðilegar röksemdir, en þeir verða að síðustu sjálfir að taka ákvarðanir um málið, eins og Jón Krabbe réttilega bendir á í bréfi sínu. Um annað atriði yfirlýsingarinnar, að ekki verði um endurnýjun sáttmálans að ræða, hygg ég, að óþarft sé að fjölyrða. Það er yfirleitt ekki deilt um það atriði nú. Um þriðja atriðið, að formlegum sambandsslitum skuli ekki frestað lengur en til stríðsloka, neyðist ég til að segja aðeins örfá orð. Ég hef haldið allt fram undir síðustu mánuði, að um þetta atriði væri einn og sami skilningur þm. allra, sem sé sá, að þetta þrennt hafi verið haft í huga, þegar þessi ályktun var gerð, í fyrsta lagi: að jafnskjótt sem stríðinu lyki, í síðasta lagi, skyldi gengið frá formlegum sambandsslitum og lýðveldi stofnað, þótt samningstíminn þá ekki væri á enda; í öðru lagi, að ef svo bæri að höndum, að samningstíminn rynni fyrr út, þ. e. a. s., ef stríðið stæði lengur en til ársloka 1943, þá skyldu sambandsslit fara fram þá þegar, enda það eitt í samræmi við fyrri ályktanir Alþ. um þetta efni. Í þriðja lagi mun það hafa verið haft í huga, að þær breyt. gætu orðið á stjórnarháttum í Danmörku, að það væri sérstök ástæða til að slíta sambandinu fyrr. Í mínum huga hefur aldrei verið skuggi af efa um það, að það væri ætlun þm., og það var ætlun mín, þegar ég greiddi atkv. með þessari till., — að hvort sem fyrr bæri að höndum, að samningstíminn væri útrunninn eða stríðinu lyki, þá væru það þau tímamót, sem formleg sambandsslit skyldu miðast við, nema sérstök ástæða væri til að slíta sambandinu fyrr. Um það er ekki hægt að deila, að hefði styrjöldinni lokið fyrir árslok 1943, þá lá fyrir einhuga viljayfirlýsing Alþ. um, að sambandinu skyldi þá þegar slitið, án tillits til ákvæðanna um gildistíma samningsins. Það er svo skýrt, að um það er ómögulegt að deila. Alþ. hefur því 1941 alveg tvímælalaust talið sig hafa rétt til að rifta sáttmálanum að fullu og öllu, hvenær sem það taldi heppilegast og ákvað, að svo skyldi gert eigi síðar en í stríðslok, en að sjálfsögðu fyrr, ef samningstími væri áður út runninn eða stjórnarfar Danmerkur gæfi tilefni til. Þetta þrennt verður að hafa í huga, þegar rætt er um og vísað til ályktana Alþ. frá 1941. Að því er snertir lýðveldisstofnunina, þá er það svo skýlaust tekið fram sem unnt er, að vilji Alþ. er sá, að hún fari fram samtímis formlegum sambandsslitum, jafnskjótt og formleg sambandsslit eru gerð, enda verð ég að segja, að mér finnst það í alla staði eðlilegt og sjálfsagt, að lýðveldisstofnunin fari fram um leið og vald konungs fellur niður. Ég fæ ekki séð, að síðan þessi ályktun var gerð, hafi nokkuð það fram komið, sem gefi tilefni til þess að hverfa frá því, sem áður var ályktað og yfirlýst af einhuga Alþ. með atkv. allra þingm. Sá tími, sem um getur í sambandslagasáttmálanum, er nú útrunninn, og hafa tilkynningar verið sendar konungi og dönsku stj. um þann vilja og þá ákvörðun Alþ. í þessu efni, að þegar eftir 1943 sé ætlun Íslendinga að taka öll mál sín í eigin hendur og stofna lýðveldi á Íslandi. Ég fæ því ekki annað séð en till. um að ganga frá sambandsslitum og stofna lýðveldi 17. júní n. k. sé rökrétt og eðlilegt framhald af gerðum Alþ. til þessa.

Mér þykir nú hlýða að víkja að hinu, hvers vegna ég vildi ekki bindast samtökum við hina 3 flokka þingsins um að taka málið upp 10. jan. s. l. Ástæðan var sú, að ég tel ekki enn hafa verið reynt til hlítar að ná hinni einu sæmilegu lausn á máli þessu, þ. e. að fá fullkomna einingu um afgreiðslu málsins.

Hv. þm. G.-K. komst svo að orði í ræðu sinni við fyrri hl. þessarar umr., að hann sjái alls enga hættu í sambandi við fyrirhugaða lausn þessa máls. Ég er honum ekki sammála, því að ég þykist sjá eina hættu, stóra eða litla, það er matsatriði, en hún er ekki lítil í mínum augum. Hún er sú, að ef Íslendingar skipa sér inn í fylkingar, sem deila hart, þá leiðir það ef til vill til þess, að verulegur hluti þjóðarinnar greiðir atkv. gegn till. um sambandsslit og lýðveldisstofnun. En ef svo illa tekst til, þá er ég hræddur um, að hér verði ískyggilegar horfur, ekki aðeins í okkar innanlandsmálum, heldur, og jafnvel sérstaklega, út á við. Ef við hugsum okkur, sem engan veginn er ósennilegt, að einstakir menn meðal Dana vilji véfengja rétt okkar til þessara aðgerða, þá liggur í augum uppi, hversu mjög það hlýtur að veikja aðstöðu okkar, ef verulegur hluti þjóðarinnar greiðir atkv. gegn sambandsslitum og heldur því fram, að hér sé verið að fremja réttarbrot og lögleysu. Ég hygg það vera ofmælt hjá hv. þm. G.-K., að það séu aðeins fáir menn í engum flokki, sem séu andvígir till. í því formi, sem hún hefur og eins og hún er fram borin, því miður. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. mæli svo til að sýna kjark sinn og karlmennsku og reyna að telja öðrum hv. þm. trú um, að engin veruleg andstaða sé gegn málinu. En hún er til, því miður. Það kann að þykja kjarkleysi að láta sér vaxa þetta í augum, að taka ekki heldur upp harða baráttu. Ég segi frómt frá því, að ég vildi heldur kjósa, að hjá slíku yrði stýrt. Þess vegna fagna ég þeirri yfirlýsingu, sem hv. 4. þm. Reykv. gaf í ræðu sinni við fyrstu umr. þessa stórmáls í Nd. Yfirlýsinguna skildi ég svo, að hann væri reiðubúinn til að samþykkja till. um sambandsslit, ef ekki færi fram lokaatkvgr. um hana, fyrr en eftir 19. maí n. k. Mér skildist enn fremur á honum, að hann mælti þetta einnig fyrir munn fjórtánmenninganna svokölluðu og þeirra, sem að baki þeim standa, og það eins, þótt ekki gefist fyrir þann tíma tækifæri til að ræða þetta mál við Dani. Ég fagna þessu, og mér virðist nú hafa dregið svo nærri fullu samkomulagi, að líklegt megi telja, að ekki þurfi til ágreinings að koma.

Að því er snertir gildistökutíma stjskr., þá vil ég enn minna á yfirlýsinguna frá 1941 um það, að hér verði stofnað lýðveldi jafnskjótt og gengið hefur verið frá formlegum sambandsslitum, og verð ég því að vænta, að um það þurfi heldur eigi að verða ágreiningur. Ég vil því leyfa mér að beina því til n. þeirrar, sem fær málið til meðferðar, að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að finna leið til samkomulags. Mér virðist það unnt með því að fresta þjóðaratkvgr. um till. þar til eftir 19. maí og lokaafgreiðslu hennar á Alþ. þar til í júní. Þótt það yrði gert, er samt nægur tími til að ákveða gildistöku stjskr. 17. júní, sem ég tel rétt og sjálfsagt að gert sé, nema óviðráðanleg atvik hamli. Fyrir þann tíma ætti þá og að vera hægt að tilkynna Dönum og konungi úrslit þjóðaratkvgr. og fá vitneskju um afstöðu hans. Ég vil ekki skoða yfirlýsingu hv. 4. þm. Reykv. sem hans síðasta orð í málinu, heldur sem ábendingu um leið til að ná því marki að fá fullkomna einingu um afgreiðslu málsins. Ég veit, að honum er það áhugamál ekki síður en mér, en eins og ég hef áður sagt, tel ég þá lausn eina vera örugga og sæmandi okkur Íslendingum, að við stöndum saman, allir sem einn, við lokaatkvgr. um málið. Ég vona, að svo megi verða. Ég á bágt með að sætta mig við þá tilhugsun, að það verði hlutskipti þeirra ágætu manna, sem nú virðast á öndverðum meið við okkur hina um meðferð málsins, að greiða atkv. gegn till. um sambandsslit og gegn lýðveldisstjskr. fyrir Íslendinga. Ég vona, að til þess þurfi ekki að koma. Við vorum einhuga 1940 og 1941. Svo mun enn verða. Ég vil enn beina því til n., sem fær málið til meðferðar, að hún vinni að því að ná einhug um afgreiðslu málsins á þeim grundvelli, sem ég hef bent á.