18.01.1944
Sameinað þing: 6. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (4046)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hæstv. forseta er það ljóst, að þegar er fundur var settur, var kveikt

á kertum, og eins ætti að vera hægt að halda áfram að vinna við kertaljós.

Ég vil aðeins geta þess, að eins og vænta mátti er það rétt frá skýrt hjá hv. 3. landsk., að Alþfl. hefur ekki lagt bann við því, að einstakir flokksmenn tali á annan hátt en þing flokksins og miðstjórn gerir fyrir sitt leyti. Alþfl. hefur þar fylgt annarri stefnu en hinir flokkarnir, sem reyna að kæfa niður gagnrýni af hálfu þeirra, sem ekki vilja hlíta forsjá forustunnar. Alþfl. sér ekki ástæðu til að meina neinum að láta álit sitt í ljós. Eins og hv. 3. landsk. tók fram, hefur flokksþing og miðstj. Alþfl. samþ. að mæla með því sáttatilboði, sem fram hefur komið frá þeim mönnum, sem bundnir eru samtökum um að reyna að hafa áhrif á afgreiðslu þessa máls.

Ég mun nú víkja að ræðu hv. þm., sem töluðu s. l. föstudag af hálfu hinna þriggja stjórnarflokka og gerðu grein fyrir afstöðu sinni og sinna þingflokka til málsins, sem hér liggur fyrir, og sérstaklega vil ég minnast á það, sem að mér og Alþfl. var beint.

Hv. þm. G.-K. fór nokkrum orðum um afstöðu mína í mþn., en ég hef á fundi í Nd. í gær gert grein fyrir henni og sé ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum í það, þar sem ég vil reyna að forðast endurtekningar í umr. Það er þó eitt atriði úr ræðu hans, sem ég get ekki látið ómótmælt standa, sérstaklega af því, að þau orð voru síðar tilgreind í flokksblaði Sjálfstfl., Morgunblaðinu, að ég hafi hótað afskiptum tveggja stórvelda gegn þeim ákvörðunum, sem Alþingi kynni að taka. Mín orð voru þau, að vanefndakenningin hefði mælzt illa fyrir, og ég nefndi sem dæmi, að fulltrúar þeirra tveggja stórvelda, sem hér hafa mikil völd, hefðu látið þær skoðanir í ljós, að Íslendingar yrðu að fylgja sambandslagasáttmálanum út í æsar og slíta honum ekki, fyrr en hann væri útrunninn. Þegar 17. maí 1941 var látin fara fram atkvgr. á réttmæti vanefndakenningarinnar, og varð niðurstaðan sú, að einn þeirra, sem lét álit sitt í ljós, hélt fast við kenninguna, 2. og 3. maður vildu enga ábyrgð á henni taka, en sá 4. taldi kenninguna ekki rétta. Þetta vil ég, að komi fram á þessu stigi málsins.

Hv. þm. G.-K. sagðist ekki vilja tefla á tvær hættur í þessu máli. Það vil ég ekki heldur. En afstaða mín er sú, að mesta áhætta, sem Alþingi, ríkisstj. og þjóð gæti tekið, væri að tefla á tvær hættur um það, hvort skilnaður við Dani yrði framkvæmdur nú að réttum lögum, sérstaklega þegar hægt yrði að framkvæma hann að réttum lögum innan skamms tíma. Að mínu viti tefla þeir menn á tvær hættur, sem endilega vilja hraða þessu máli, án þess að vilja hugsa um aðra möguleika til lausnar. Eins og hv. 3. landsk. beindi því til mín, að hann vænti þess, að ég hefði ekki sagt mitt síðasta orð í þessu máli, eins ætla ég að beina því til hinna þriggja flokka, að ég vænti þess, að þeir hafi ekki sagt sitt lokaorð.

Hv. þm. G.-K. endaði ræðu sína í gær með því að segja, að ef til væri samkomulagsgrundvöllur í þessu máli, þá vildi hann leita eftir honum. Mér finnst þetta drengilega mælt, og ég vil segja, að þess grundvallar er ekki langt að leita, og á honum gætum við staðið saman og reynt að leysa málið í sameiningu. Þessi sami hv. þm. sagði líka í gær, að utan þings væru fáir menn í engum flokki á móti þessu máli, en bágt á ég með að trúa því, að Sjálfstfl. vilji prýða lista sína með nöfnum þeirra manna, sem ekki eru í flokknum .... á lista Sjálfstfl. við síðustu kosningar. Ég veit ekki til þess, að hann hafi síðan horfið úr þeim flokki. En út af því, sem gripið var fram í ræðu mína, um þennan utanþingsmann, og sérstaklega út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að hann muni meðal hinna tilgreindu manna, sem einn af forustumönnum samtaka utanþingsmanna, þá er það kunnugt, að áður en hann fór í siglingu, þá var hann skuldbundinn í flokki þessa hv. þm. Að vísu greiddi hann ekki iðgjöld sín, meðan hann var erlendis, en mun hafa leitazt við að greiða þau, eftir að hann kom úr för sinni, en ekki fengið það, og má vera, að það sé þessi refsiaðgerð, sem hann er beittur fyrir að hafa persónulega og sjálfstæða skoðun í þessu máli, hvað sem liði forustunni í þessum flokki, sem hann tilheyrði.

Um ræðu hv. 2. þm. S.-M. þarf ég lítið að tala, sérstaklega fyrir þá sök, að nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hans í Sþ., bar einnig á góma í Nd. í gær og voru rædd okkar í milli þá. En þó kemst ég ekki hjá því að minna menn á það, að þessi hv. þm. S.-M. lagði mikla áherzlu á það, að það væri vikið frá samkomulaginu 17. maí 1941, ef farið væri inn á þá braut, sem ég tilgreindi og ég taldi af minni hálfu sem möguleika til þess, að menn gætu staðið saman um lausn málsins. Það er mjög vafasamt, hvort nokkuð sé vikið frá þeim samþ., og ég verð að segja, að það mætti engu síður halda því fram, að þeir, sem nú vilja endilega á þessu ári koma lýðveldismálinu í gegn, að óbreyttu ástandi, að þeir hafi ekki síður vikið frá þeim grundvelli, sem lagður var 17. maí 1941. Sé ég ekki ástæðu til að fara frekar inn á það.

En það var annað atriði í ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem hann drap á og ég vildi fara um nokkrum orðum. Hann gat þess, að hans eigin flokkur hefði viljað leita að samkomulagi um lausn málsins. Þetta er rétt. Ég get vottað, að fulltrúar Framsfl. í stjskrn. leituðust eftir því, að reynt væri að ná samkomulagi allra flokka um afgr. þessa máls. En þegar hinir tveir flokkarnir, Sjálfstfl. og Kommúnistafl., vildu ekki gangast inn á slíkt samkomulag, þá sagðist Framsfl. ekki lengur geta haldið því áfram. Og einmitt þessi hv. 2. þm. S.-M. brýnir það fyrir mér og okkur Alþfl.mönnum, að við ættum að hafa þann sama sið og Framsfl. í þessu máli. Það væri ekki það að leita eftir ákveðnum till., sem gætu orðið til lausnar málinu. En ef till. minni hl. yrði hafnað af meiri hl., þá ætti minni hl. samt sem áður að fylgja meiri hl. í málinu. Þetta getur nú verið. Það fer eftir því, hvernig málið er vaxið og eðli þess er, hvort það væri hyggilegt að beygja sig fyrir meiri hl. og hegða sér eins og hv. 2. þm. S.-M. drap á. En ég held, að í jafnþýðingarmiklu máli og því, sem nú á að afgr. hér á Alþ., að ef menn hefðu ekki á því ákveðna skoðun, að það væri ekki í því fólgin nein þjónusta við íslenzku þjóðina, við þetta stolt manna, að láta undan og fara inn á þær brautir, sem menn teldu ekki í samræmi við rétt lög og drengskap. Ég legg þann mælikvarða á þetta, að minni hl. eigi ekki að beygja sig, ef meiri hl. hefur rangt fyrir sér, jafnvel þótt æskilegt væri, að samkomulag yrði um það mál, sem um væri að ræða. En einmitt vegna þess, hve Alþfl. er það ljóst, að það er mjög þýðingarmikið, að sameining geti orðið um þetta mál, hefur hann teygt sig til samkomulags, lengra en hann hefði talið æskilegt, en þó þannig, að borgið væri réttlæti og drengskap. Og ef ekki yrði samkomulag sem næst þeim grundvelli, þá væntum við þess, að hv. 2. þm. S.-M. skilji, að það sé ekki ástæða til þess að láta af þeim skoðunum, ef menn telja þær réttar, og þótt menn séu í minni hl. Með því hefði aldrei unnizt neitt á um góð málefni, ef þeir, sem voru í minni hl., hefðu alveg beygt sig, og það þótt málið væri stórt. Ég veit, að hv. 2. þm. S. -M., sem er í flokki, sem ekki hefur meiri hl. meðal þjóðarinnar að baki sér, og er jafnmikill bardagamaður, mundi gangast inn á þetta. Ég veit, að ef hann áliti, að meiri hl. manna í öðrum flokki færi með rangt mál, væri það ekki hans háttur yfirleitt að beygja sig. Þá þekki ég illa siðgæðisreglur þessa ágæta þm., ef svo væri ekki.

Þá kom hv. 2. þm. Reykv., og eins og við var að búast, stóðu spjótalög hans til Alþfl., og ég harma það ekkert. Ég hef fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga. Það er ekki nýtt, að þeim sé beint orðið nokkuð hart til Alþfl. úr þessu horni. Það þarf engra skýringa við. En það er líka annað, sem þarna kom í ljós og áður hefur verið minnzt á, og það er það, að þessi hv. þm. og flokksbræður hans fylgja dyggilega þeirri reglu, sem fyrir liggur frá alþjóðasambandsþingi kommúnista, þar sem sagt er, að þeir mættu ekki vanmeta þjóðréttarbaráttu meðal þjóðanna og þeir yrðu að kosta kapps um, ekki aðeins að fylgja eftir öðrum flokkum í þessu efni, heldur færi og bezt á því, að þeir tækju höndum saman við Sjálfstfl. um forustuna. Þetta er nú í bréfi frá Moskva, og ég veit, að þessu hefur verið fylgt, og það er ekki sök hv. 2. þm. Reykv., ef hann er ekki forustumaður í þessu máli. Það er þá vegna þess, að Sjálfstfl.foringjarnir hafa viljað láta á því bera, að þeir standi honum framar. En gert hefur þessi hv. þm. það, sem máttur hans og megin frekast leyfðu, til þess að fylgja þessu máli. Ég skal senda honum vottorð upp á það, ef það mætti verða honum að gagni.

Þessi hv. þm. dró nokkuð inn í deilurnar látinn merkismann, fágætan og ágætan mann, alþýðuforingja í Danmörku, Th. Stauning. Vildi hann sérstaklega segja, að heimsókn Staunings til Íslands, sumarið 1939, ætti að hafa haft sérstök áhrif á Alþfl., og að mér skildist, þá hefðu áhrifin ekki einna sízt orðið fyrir tilstilli þess, að ég varð honum samferða á skipi frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Ég vil leyfa mér að benda á, að á því skipi voru og samferða fleiri ágætir menn, og má þar m. a. nefna hæstv. forseta hér í Sþ. og fleiri, og ég veit, að hæstv. forseti mun bera það með mér, að lítið hafi þessi maður reynt að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir okkar í sambandsmáli Íslendinga og Dana. Og ég veit, að þeir, sem til þekkja og áttu orðræður við þennan merkismann, muni á sama máli um þetta, og m. a. form. Sjálfstfl., sem kann að meta þennan ágæta Dana og átti margar orðræður við hann þetta sumar, að hann hafi ekki reynt að hafa áhrif á skoðanir þeirra um skilnað Dana og Íslendinga. Ég veit, að þessir menn, hæstv. forseti þessa þings og form. Sjálfstfl., munu geta borið vitni um þetta. En ég veit einnig, að aðrir, að ég ekki nefni hv. þm. Str. og hv. 2. þm. S.-M., áttu ekki minni samtöl við þennan danska stjórnmálamann en ég, og ég hugsa, að enginn þeirra vildi bera honum það á brýn, að hann hafi leitazt við að hafa áhrif á þá um afstöðu þeirra til sambandsmálsins. Og ég skora á þessa menn, hæstv. forseta þessa þings, form. Sjálfstfl., hv. þm. Str. og hv. 2. þm. S.-M., sem áttu margar samræður við þennan ágætismann, að láta hið sanna í ljós.

En ég veit það hins vegar, að ég hafði oftar en einu sinni — og ekki að fyrra bragði — átt samtöl við danska menn, og þá hefur viðkvæðið jafnan verið þetta, að sjálfir ráði Íslendingar, hvað þeir geri. Það er aðeins eitt, sem þeir leggja áherzlu á, það, að allt fari fram í bróðerni. Og ég hugsa, að það hafi ekki verið mikill átroðningur á íslenzku stjórnmálamennina, þá menn, sem ég nefndi. (SigfS: Stóðust hann allir nema Stefán Jóhann?) Ég er nú ekki að svara þessum fyrrv. flokksbróður, sem var að gjamma fram í, hef varla skap í mér til þess, eftir þá kynningu, sem ég hef haft af honum fyrr og síðar.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um viðtal við mig í Social-Demokraten, og þar átti að hafa komið fram sönnun fyrir því, að ég væri undirlægja Dana í samskiptum Íslendinga og Dana og að þar hafi verið varpað fram spurningu af dönskum blaðamanni um það, hvað ég segði um sambandslagasamninginn. Því er nú að svara, að hv. 2. þm. Reykv., sem verið hefur blaðamaður lengi, ætti að vita það, hversu nákvæm samtölin eru í blaðaviðtölum. En hvað sem um það er, þá man ég bókstaflega ekkert, hvernig þessi orð féllu. En jafnvel þótt þau hefðu fallið á þessa lund, sem hv. þm. telur, hvað var það þá annað en rétt? Við vorum að vísu alltaf ákveðnir í því og erum það enn í dag eins og í gær að stofna lýðveldi, þegar þess væri kostur, en það er svo óendanlega margt í sambandi við það, sem enginn flokkur er búinn að taka afstöðu til. Má t. d. nefna þau atriði, er varða fiskveiðar Færeyinga, og verður að leita sér annarra raka en hv. 2. þm. Reykv. var með í því efni, en ég met tilburði hans, sem ég þekki vel og kippi mér undurlítið upp við.

Þá vitnaði sami ræðumaður í grein í Alþbl. 1939, þar sem talað væri um mörg spursmál og atriði í sambandi við skilnað Íslendinga og Dana. Það, sem væri rétt 1939, það væri rétt 1944. Það eru svo margir liðir, sem eftir er að athuga, og þegar við samþ. þessa till., þá er ekki búið að ganga frá sambandslagasáttmálanum og eftir að semja við Dani um marga hluti. Hv. 2. þm. Reykv. telur, að það væri ekkert sérstaklega álitlegt að fela mér og öðrum Alþfl.mönnum það verkefni að semja við Dani, eftir þá frammistöðu, sem við hefðum sýnt, og eftir að ég nú hefði verið samferða Th. Stauning til Danmerkur og það hefði birzt mynd af mér í blaði þar. Því væri ekki heppilegt að senda mig þangað. Ég veit vel, að hv. þm. ber ekkert traust til Alþfl., svo að það er varla við því að búast, að hann treysti honum í þessu sambandi. En ég hefði mátt ætla, að allmargir menn væru hér á landi, sem teldu, að fulltrúar kommúnista væru ekki heppilegir til að segja þar síðasta orðið.

Það var fyrir allmörgum árum, þegar verið var að ræða um það í innsta hring Kommúnistafl., hvað ætti að gera til þess að bjarga íslenzkri alþýðu, ef stríð mundi skella á. Þá var almennt álitið, að þetta stríð mundi meira að segja beinast að Rússlandi og það mundu verða engilsaxnesku stórveldin, a. m. k. Stóra-Bretland, sem snerust gegn Rússlandi. Þá kom þessi hv. þm. með það, hvernig þessi flokkur ætti að láta íslenzka alþýðu bregðast við. Það var m. a. að koma því til leiðar, að togaraáhafnirnar sigldu togurunum til Rússlands, en þá áttu og aðrir að vera tilbúnir að sprengja upp olíugeymana hér við Skerjafjörð. Að vísu var þessi till., sem flutt var í innsta hring Kommúnistafl., aldrei samþ., en þessi till. var flutt af þessum utanríkisspeking þeirra, og hún átti að verða til þess að vernda fjöregg og sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar út á við og inn á við. Þið hafið þá góða liðsmenn með ykkur að hafa þá með ykkur. Þá eyddi hv. 2. þm. Reykv. æði mörgum orðum að því, hversu hugsun mín væri frábrugðin öllum rétti og velsæmi, að virða þannig sambandslagasamninginn, sem gerður var 1918 milli tveggja ríkja! Hann tók að vísu fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að við ættum að halda verzlunarsamninga, sem við hefðum gert við Dani. Við ættum að halda þá, því að það væru pappírsmiðar, sem ekki mætti rífa; annað væri með samninga, sem settir væru um íslenzk stjórnmál. Þá þyrfti ekki að halda, ef mönnum þóknaðist svo. Og það átti að vera vegna þess, að sjálfstæðinu 1918 hefði verið neytt upp á Íslendinga. En við, sem kynnzt höfum verzlunarsamningum og fylgzt með, þegar verzlunarsamningar hafa verið gerðir, vitum, að ekki eru alltaf allir ánægðir með þá. Íslendingar hafa gert marga verzlunarsamninga, sem allir hafa ekki verið sammála um. En hv. 2. þm. Reykv. segir, að slíka samninga ætti að halda í heiðri, en bara ekki þjóðréttarlega samninga, þá á ekki að halda í gildi. Ég vil leyfa mér að láta í ljós þá skoðun, að sú hugsun liggi til grundvallar ræðu hv. 2. þm. Reykv., að ef máttur meiri hl. fólksins á Íslandi ætti að ráða, þá ætti þjóðin að taka sér meiri rétt en hún hefur, — þá væri henni það heimilt, hvað sem liði öllum samningum, sem gerðir hafa verið við önnur ríki. Það er einmitt þessi hugsun, sem leitt hefur til þeirra mestu átaka, sem nú eiga sér stað í heiminum. Þjóðverjar sögðu: Verzlunarsamningum var þröngvað upp á okkur, við þurfum ekkert að halda þá, — og það var sama og að segja: Þýzka þjóðin krefzt þess, að þeim sé kastað í bréfakörfuna. Og það var gert, og við höfum séð afleiðingarnar. Og bandamenn hafa lýst yfir því, að þetta stríð væri háð m. a. til þess að koma í veg fyrir, að sú stigamennska viðgangist í viðskiptum þjóða, að samningar séu ekki haldnir.

Ég held þess vegna, að ég blygðist mín ekkert fyrir það, og tel mig þess vegna engu lakari Íslending en hv. 2. þm. Reykv., þótt ég haldi því fram, að það sé stolt og heiður íslenzku þjóðarinnar að halda gerða samninga milli tveggja ríkja og halda þeim uppi, samtímis því, sem við erum að gerast fullkomlega sjálfstæður aðili í samneyti við aðrar þjóðir. (ÓTh: Hvernig á að halda 18. gr. þessa samnings? ) Þá spyr hv. þm.: Hvernig á að halda 18. gr. þessa samnings? Já, ég gleymdi að geta þess, að hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. G.-K. minntust ekkert á það, að það er ýmislegt, sem ég vildi slá föstu í sambandi við það, að sambandslagasáttmálanum yrði ekki slitið, nema þjóðaratkvgr. fari fram eftir 18. gr. sambandsl. Ég tel því, að það vanti enn þá skýringu á þessu atriði, en hv. 2. þm. Reykv. er ekki lengi að afgr. það. Hann talaði um það, að sambandslagasáttmálinn væri að vísu í gildi, en sagði, að við værum ekkert skyldugir að halda hann. Það væri réttur þjóðarinnar að ákveða slíkt, hvað sem hverjum sýndist. Ef maður hugleiðir málið, sést, hve fráleitt er að halda slíku fram. En þjóðin hefur ekki verið kúguð til að halda í heiðri gerða samninga. Það var búið svo um samninga þjóðarinnar, að til þess að segja þeim upp, þurfti að vera ákveðinn meiri hl. því fylgjandi. Það er alltaf búið svo um stjórnskipulög hverrar þjóðar, að til þess að breyt. á þeim sé gild, þá þurfi að vera ákveðinn meiri hl. kjósendanna í landinu, sem fylgi henni, eins og hér á Íslandi er einnig ákveðið til þess að þessi stjórnarskrárbreyt. gangi í gildi. Þetta er haft svo af nauðsyn þess, að það sé ekki verið að rugla í stjórnskipulögunum oftar en skyldi, þó að ákvæðin um einfaldan meiri hluta gildi um samþ. margs annars hjá þjóðunum. Um þennan mikla meiri hl., sem þarf eftir sambandslagasáttmálanum til þess að hægt sé að breyta sambandsl., má segja, að Danir hafi óskað eftir ákvæðinu um hann. En af Íslendinga hálfu hefur þetta heldur ekki verið talin nein frágangssök, þar sem sambandsl. voru samþ. af þjóðinni með 12.500 atkv. gegn 1.000 og öllum atkv. gegn 2 í hvorri d. þingsins. Þjóðin taldi því ekki óeðlilegt, að það þyrfti þetta til þess að breyta eða fella úr gildi þennan gerða milliríkjasamning. Ég held þess vegna, að það sé hrein fásinna að halda því fram, að af því að hér sé um tiltekinn meiri hluta að ræða, þá þurfi þjóðin ekki að virða það, sem hún hefur gengizt inn á um þennan meiri hluta, af því líka, að það er engin hætta á ferðum, ef farið er að l. og leitað eftir samkomulagi meðal þjóðarinnar og þingsins. Það er ofur einfalt að fella sambandsl. úr gildi samkv. ákvæðum þeirra. En þeir, sem vilja tefla á tæpasta vað um það, hvernig á að fella þau úr gildi, kynnu að reka sig á óþægilega agnúa í sambandi við það. En þá er það ráð hv. 2. þm. Reykv., að ekkert þurfi að virða þau.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, hvað ég vildi segja t. d. um rétt Færeyinga sem sérstakrar þjóðar. Ég fyrir mitt leyti mundi vilja ljá málstað Færeyinga lið og mæla með því, að þeir fengju það, sem þeir óskuðu eftir, m. a. gagnvart Íslandi. En það er ekkert um slíkt í því máli, sem hér liggur fyrir. En það má kannske breyta því (Raddir af þingbekkjum: En gagnvart Dönum?) Hvað mundi hv. þm. sjálfur gera í þessu sambandi? (BBen: Hvað mundi hv. 4. þm. Reykv. gera, ef um það væri spurt?) Ég mundi ekki verða eftirbátur annarra í því efni. En út af þessum orðum hv. 2. þm. Reykv. dettur mér í hug, að ég skrifaði einu sinni grein í Alþýðublaðið um íslenzka utanríkispólitík og sagði, að vegna þess, að Íslendingar væru smáþjóð og gætu ekki byggt sjálfstæði sitt á öðru en siðferðislegum og lagalegum kröfum, þá væri eðlilegt, að þeir tækju undir óskir allra smáþjóða um frelsi, og tiltók ég Eystrasaltsríkin. Þá fékk ég nú svolitla dembu í Þjóðviljanum út af því, að ég vildi, að þessi litlu ríki við Eystrasalt væru frjáls, ef þau óskuðu eftir því. Þá var það ekki vesalings litla Danmörk í sárum, heldur hið stóra og volduga Rússland, sem hér átti ágæta talsmenn. (Sigf S: Hvað segir hv. þm. um Indverja og Íra og fleiri góðar þjóðir?). Þessi hv. framígrípandi ætti að tala um Indverja og Íra svolítið, — en ég veit ekki, hvort það bætti nokkuð úr fyrir frelsiskröfum þeirra þjóða. (BrB: Kannske hv. þm. sé fúsari til að tala um Finna?) Ég man, að hér á lokuðum fundi hefur verið talað um Finnland, — og ég mun aldrei gleyma málblænum í ræðu þessa gamla skólabróður míns, þegar hann minntist á þá þjóð.

Að lokum klykkti svo hv. 2. þm. Reykv. út með því, að það væri ekki við góðu að búast frá mér og mínum flokki — við hefðum óskað Hitler sigurs. En það hef ég auðvitað aldrei gert. En hitt er það, að maður heitir Molotov úti í Rússlandi. Og í blaðinu Isvestia sagði sá maður, að það væri smekksatriði, hvort menn væru með eða móti Hitlerismanum. En þá var líka bandalag á milli þessara tveggja stórþjóða. Og ég býst við, að íslenzkir kommúnistar hefðu ekki brugðizt þessum húsbændum sínum með það á þeim tíma að víðurkenna líka, að það væri smekksatriði, hvort menn væru með eða móti nazismanum þýzka. Og það getur vel verið, að það eigi eftir að koma í ljós seinna í afstöðu þeirra til þeirra þjóða, smárra og stórra, um frelsi þeirra og sjálfstæði, hve vel og drengilega þeir taka undir þetta. Og gætum við kannske nokkuð af því metið, hversu þeim er mikil alvara, þegar þeir tala um íslenzku þjóðina.