24.02.1944
Sameinað þing: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (4065)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Íslendingar voru öldum saman háðir erlendu valdi, en þeir viðurkenndu aldrei, að það vald hvíldi á rétti. Íslendingar héldu því fram, að það væru landsmenn sjálfir, sem úrslitaráð hefðu yfir málefnum þjóðarinnar, og þó að þeir tækju sér konung búsettan í erlendu ríki og fengju honum síðan einveldi, þá gættu þeir þess ætíð að fela öðru ríki aldrei nein yfirráð yfir málefnum íslenzku þjóðarinnar. Þess vegna var það, að þegar hinn einvaldi konungur afsalaði sér einveldi sínu, þá héldu Íslendingar því fram, að það vald, sem hann hefði haft yfir íslenzkum málum, ætti af sjálfu sér að hverfa á ný til íslenzku þjóðarinnar. Og þeir viðurkenndu aldrei, að danska ríkið, löggjafarstofnun þess, né aðrir aðilar þar í landi, hefðu neinn rétt til að skipta sér af íslenzkum málum. Þess vegna var það, að Íslendingar heimtuðu 1848 og síðar, að þjóðfundur eða sérstakt stjórnlagaþing væri kallað saman í landinu sjálfu, til þess að ákveða stjórnskipun þess og stjórnartilhögun. Og þess vegna var það, að er Danir urðu ekki við þessum kröfum né héldu þau loforð, sem gefin höfðu verið í þá átt, þá mótmæltu þeir eindregið setningu stöðulaganna, sem voru einhliða lögboðin af dönskum stjórnarvöldum án samþykkis Íslendinga. En í þeim var svo ákveðið, að Ísland skyldi vera óaðskiljanlegur hluti af Danaveldi. Íslendingar mótmæltu, þ. e. Alþingi mótmælti þá þegar og ítrekaði mótmæli sín síðar, er tilefni gafst til.

Og Íslendingar reyndu eftir getu að forðast á allan hátt beint samþ. þessara ráðstafana síðar, þó að þeir ættu á stundum óhægt um vik, þar eð umbætur og aukinn réttur landsins var á stundum tengdur því, að á hina dönsku skoðun væri fallizt. En Íslendingar vildu aldrei viðurkenna hana af sinni hálfu og töldu sem sagt, að afskipti danska ríkisins af málefnum Íslendinga væru með öllu óheimil og gegn réttum réttarreglum. Og þess vegna var það einnig, að þær umbætur eða þau ákvæði, sem í framkvæmdinni veittu Íslendingum töluverðar umbætur á stöðu þeirra, eins og stjórnarskráin 1874 og stjórnskipulögin 1903, áttu ekki þeim vinsældum að fagna, sem gera hefði mátt ráð fyrir, né heldur vildu Íslendingar við þær umbætur una til frambúðar, vegna þess að þrátt fyrir umbæturnar, þá var grundvöllurinn ætíð sá, að úrslitaráðin voru í höndum danskra stjórnvalda. Þetta sama sjónarmið kom ekki hvað sízt mjög glögglega fram, þegar fram kom samningsuppkastið, sem gert var 1908 og lagt var fyrir Alþingi 1909. Í því frv., sem samþ. var af samninganefnd Dana og Íslendinga, voru vissulega fjöldamargar umbætur frá því, sem verið hafði um framkvæmdir, en íslenzka þjóðin reis þá öndverð gegn setningu þeirra laga, vegna þess að þar með áttu Íslendingar að skuldbinda sjálfa sig til þess að fela dönskum stjórnvöldum meðferð margra íslenzkra mála, sumra óuppsegjanlega, en annarra um 37 ára skeið. Á þetta vildu Íslendingar ekki fallast. Þeir beygðu sig að vísu undir valdið, lutu þeirri stj., sem hér var, en þeir vildu ekki sjálfir samþ. þau afskipti danskra stjórnvalda, sem þeir höfðu aldrei viðurkennt, að rétt væru.

Sambandslagasamninginn frá 1918 verður einnig að skoða í þessu ljósi. Af helztu frumkvöðlum hans af Íslendinga hálfu var því beinlínis yfirlýst hér á Alþingi, að hann bæri að skoða sem eins konar verzlun af Íslendinga hálfu; að Íslendingar hefðu með honum tryggt fullveldisviðurkenningu sína, gegn því að láta dönskum stjórnvöldum í té afskipti af íslenzkum málum, sem Íslendingar héldu fram, að dönsk stjórnvöld hefðu engan rétt til að blanda sér í. En Íslendingar töldu það þess virði að kaupa fullveldisviðurkenninguna þessu verði, vegna þess að afskiptaréttur Dana af hinum íslenzku málum var svo tímabundinn. Í meðferð sambandslaganna 1918 er einmitt megináherzla lögð á það, að sú verzlun borgi sig, að kaupa fullveldisviðurkenninguna gegn því, að Danir færu með tiltekin íslenzk mál um nokkurra ára skeið, gegn því, að Íslendingar, að þeim tíma liðnum, tækju þau mál einnig í eigin hendur úr Dana höndum. Og það er áherzla á það lögð, að þetta tímabil þurfi eigi lengur að standa en um 25 ára skeið. Íslendingar höfðu áður neitað að fela Dönum meðferð hliðstæðra mála, bæði óuppsegjanlega og um 37 ára skeið, en töldu síðar fært að ganga svo langt að láta þá fá meðferð íslenzkra mála um 25 ára bil, að því áskildu, að Íslendingar hefðu það þá í hendi sér að losna að fullu undan yfirráðum Dana, ef þeir svo kysu.

Í þessu sambandi er rétt að rifja nú aðeins upp, hvert raunverulegt efni sambandslaganna er. Í stuttu máli má segja, að meginefnið sé fullveldisviðurkenning Dana til handa Íslendingum. Viðurkenning á rétti, sem Íslendingar höfðu ætíð haldið fram, að þeir ættu, og aldrei höfðu afsalað sér. Enn fremur er samið um það í þessum sambandslögum, að meðan þau séu í gildi, skuli sami konungur vera á Íslandi og í Danmörku, og eru tiltekin ákvæði sett því til tryggingar. Þá er ákveðinn gagnkvæmur jafn réttur ríkisborgara hvors landsins í hinu. Þá eru einnig fyrirmæli um það, að Danmörk skuli fara með utanríkismál Íslands í umboði þess, Danmörk skuli fara að öllu eða nokkru leyti með landhelgisgæzlu Íslands, að danskur hæstiréttur skuli vera hæstiréttur í íslenzkum málum: Þá eru fyrirmæli, þar sem komizt er að samkomulagi um fjárskipti landanna, en þeim var svo háttað áður, að Íslendingar töldu sig eiga stórfé hjá Dönum, en Danir höfðu uppi fjárkröfur á hendur Íslendingum. En í sambandslögunum var endanlega um þetta samið. Þá eru einnig fyrirmæli um svo kallaða dansk-íslenzka ráðgjafarnefnd, sem átti að stuðla að vinsamlegri sambúð landanna. Enn eru ákvæði um, hvernig ágreiningi varðandi samninginn skuli ráðið til lykta. Enn fremur uppsagnarákvæðin í 18. gr., ákvæði um gildistöku samningsins og loks um ævarandi hlutleysi landsins. Þessi ákvæði eru í eðli sínu mjög ólík. Sum eru, eins og fullveldisviðurkenningin, gefin í eitt skipti fyrir öll og verða ekki afturkölluð. Þessi viðurkenning fellur ekki úr gildi, þótt sambandslögin sjálf falli úr gildi. Önnur eru þessu fyrirmæli hliðstæð. Eins og ég drap á áðan, var endanlega samið um fjárskipti landanna, og þau fyrirmæli standa, hvað sem um gildi sambandslaganna verður. Um hlutleysisyfirlýsinguna má segja, a~) hún sé nánast einhliða yfirlýsing Íalands, sem ekkí skapar danska ríkinu neinn rétt, en getur a. m. k. ekki skapað því rétt lengur en sambandstíminn stendur. En svo eru einnig önnur fyrirmæli, sem mátti nema úr gildi, áður en sambandslögin sjálf féllu úr gildi, og eru það bæði fyrirmælin um landhelgisgæzlu og hæstarétt Dana. Íslendingar settu strax árið eftir gerð sambandssáttmálans, eða 1919, löggjöf um það, að stofna íslenzkan hæstarétt. Hins vegar hélzt hin danska landhelgisgæzla allt þar til árið 1940. En þau efnisfyrirmæli, sem þá eru eftir og bundin eru við a. m. k. 25 ára samningstímabilið, ef engin sérstök atvik ber að höndum, sem leiða til breytinga fyrr, eru þá fyrst og fremst samningarnir til þess að tryggja sameiginlegan konung, samningar um gagnkvæman rétt ríkisborgaranna, samningar um meðferð Dana á íslenzkum utanríkismálum í umboði Íslendinga og svo loks auðvitað 18. gr. sambandslaganna sjálf, auk réttarfarsákvæðanna um ráðgjafarnefndina og gerðardóm.

Eins og ég sagði áðan, þá kom það strax fram við meðferð sambandslaganna 1918, að Íslendingar ráðgerðu, að krafizt yrði endurskoðunar á sambandslagasamningnum þegar er unnt væri, og samningnum yrði sagt upp samkvæmt sambandslögunum að 25 árum liðnum. Og íslenzku samningamennirnir lögðu einmitt megináherzlu á, að þótt þau ákvæði, sem þar eru um uppsögn sambandslaganna, virtust nokkuð ströng, þá væri á ýmsa vegu hægt að draga úr strangleika þeirra með því að setja löggjöf bæði um heimakosningar, um skyldu til þess að greiða atkv. og jafnvel um opinberar kosningar og annað slíkt, til þess að tryggja næga þátttöku. Og það kemur bæði fram í þessu og í mörgu öðru, að Íslendingar — eða a. m. k. verulegur hluti þeirra, og þeir þeirra, sem réðu úrslitum um, að að sambandsl. var gengið, gerðu það strax í upphafi með þeirri forsendu, að samningunum yrði slitið strax að hinu 25 ára tímabili liðnu. Og á næstu árum eftir 1918 kom þetta sama einnig glögglega fram, fyrst svo, að úr skar þó á árinu 1928. En þá bar, eins og kunnugt er, Sigurður Eggerz fram í hv. Nd. fyrirspurn til ríkisstj. um uppsögn sambandslagasamningsins, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa upp, þar sem hann spyr:

„Vill ríkisstjórnin vinna að því, að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til, og í því sambandi íhuga sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, er vér tökum þau að fullu í vorar hendur?“

Þessu svaraði þáv. forsrh., Tryggvi Þórhallsson, afdráttarlaust á þann veg: „Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn telur það alveg sjálfsagt mál, „að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til,“ og þar af leiðandi er ríkisstjórnin og flokkurinn reiðubúin til „að vinna af því“. — Síðan vitna aðrir framsögumenn flokka í þessi ummæli. Magnús Guðmundsson, sem þá var málsvari Íhaldsflokksins, sem var fyrirrennari Sjálfstfl., segir um þetta atriði: „Get ég þar alveg tekið undir það, sem hæstv. forsrh. (TrÞ) sagði viðvíkjandi uppsögn samningsins.“ Og Héðinn Valdimarsson, þáv. málsvari Alþfl., segir í þessum sömu umr.: „Við getum fallizt á svör þau, sem hæstv. forsrh. (TrÞ) gaf hv. þm. Dal., það sem þau náðu.“

Sem sagt, þá er því lýst yfir í einu hljóði, fyrir munn alls þingheims á Alþingi Íslendinga, að menn telji það alveg sjálfsagt mál, að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standi til, og skuldbindi sig allir til þess að vinna að því, að svo verði gert. Þessar yfirlýsingar voru svo endurnýjaðar á Alþ. 1937, þar sem í sameinuðu Alþ. var samþ. svo hljóðandi þáltill. í einu hljóði, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa nú þegar, í samráði við utanríkismálanefnd, þá tilhögun á meðferð utanríkismála, innan lands og utan, sem bezt kann að henta, er Íslendingar neyta uppsagnarákvæðis sambandslaganna og taka alla meðferð málefna sinna í eigin hendur.“ o. s. frv.

Á þessum tíma, 1937, þykir vera svo nærri komið þeim tíma, að uppsögn sambandsl. muni eiga sér stað, að það er beinlínis skorað á ríkisstj. um beinar aðgerðir til þess að undirbúa meðferð Íslendinga á utanríkismálum þeirra. Og í umr. um málið á hæstv. Alþ. kemur með margvíslegu móti fram, að Íslendingar standa þá enn fast á þeim grundvelli, sem lagður var strax 1918 og staðfestur 1928, um, að sambandsl. beri að fella úr gildi svo fljótt sem lög standi til. Forsrh. þáv. (1937), Hermann Jónasson, lýsir því berum orðum yfir, að þegar árið 1928 hafi um þetta málefni verið gefin yfirlýsing af Framsfl., „sem stendur enn alveg óbreytt,“ eins og hann segir. Og hið sama segir þá málsvari Bændaflokksins, Þorsteinn Briem. Hið sama kemur einnig glögglega fram í ummælum fulltrúa Alþfl., ekki sízt Haraldar Guðmundssonar, sem ráðgerir, að mjög skammur tími sé þá eftir af sambandstímanum við Danmörku. Einna glögglegast tók þá til orða formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, sem þá sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn krefst þess, að uppsagnarákvæði 18. gr. sambandsl. séu hagnýtt þegar í stað, er lög leyfa, og taki þá Íslendingar í sínar hendur alla stjórn allra sinna mála, og séu landsins gæði hagnýtt landsins börnum einum til framdráttar.“

Og síðar í sömu umr. segir hann:

„Við Íslendingar viljum nota heimild 18. gr. sambandsl. til þess að krefjast þess, að strax eftir árslok 1940 verði byrjað á samningum um endurskoðun sambandsl. Í öðru lagi viljum við enga samninga gera í staðinn, heldur hagnýta ákvæði sömu gr. um að fella samningana með öllu úr gildi þremur árum eftir að þessi endurskoðunarkrafa kemur fram.“

Það er því alveg ótvírætt, að þingheimur á Alþ. 1937 gerir ekki síður ráð fyrir því heldur en 1928, að sambandsl. verði úr gildi felld sem fyrst eftir árslok 1943, og taldi þann tíma þá vera orðinn svo nálægan, að ástæða væri til og óhjákvæmilegt, að ríkisstj. undirbyggi þá meðferð íslenzkra mála, og þá einkum utanríkismála, sem við yrðum að hafa eftir þann tíma.

Eftir að þessar yfirlýsingar voru gefnar og áður en endurskoðunar sambandsl. yrði krafizt samkvæmt 18. gr. sambandsl., bar að höndum þá atburði, sem okkur eru öllum kunnir og leitt hafa til þess, að þessi mál hafa nokkuð farið um annan farveg en í upphafi var ráðgert. Árið 1940 urðu Íslendingar fyrirvaralaust að taka í sínar hendur meðferð allra þeirra mála, sem um var samið í sambandsl., að Danir skyldu með fara fyrir Íslendinga hönd, og voru þá í rauninni ekki önnur orðin en utanríkismálin og landhelgisgæzlan auk ákvæðanna um konungssamband. Landhelgisgæzluna máttum við með einfaldri samþykkt taka í okkar hendur. En taka utanríkismálanna í hendur Íslendinga braut auðvitað ótvírætt alveg skýran bókstaf sambandsl. Eins má segja, að aðgerðir Íslendinga, þegar þeir ákváðu að taka handhöfn konungsvaldsins inn í landið, brjóti í bága við fyrsta kafla sambandsl., og enn fremur, að niður hefur fallið starf og kosning í hina svo kölluðu ráðgjafarnefnd. Og þurftum við þá að horfast í augu við þær staðreyndir, að lífið sjálft hafði feykt burtu, fyrr en til stóð og fyrr en Íslendingar höfðu ráðgert og búið sig undir, því, sem eftir var af sambandsl. öðru heldur en fyrirmælunum um jafnrétti ríkisborgaranna, sem Íslendingar hafa af fullri eindrægni fylgt fram til þessa dags, og okkur er ekki heldur annað kunnugt en samningsaðili okkar hinn, danska ríkið, hafi fylgt af sinni hálfu. En við sjáum af þessu, að hin veigamestu fyrirmæli sambandsl. hafa þannig af sjálfu sér horfið úr sögunni, og þýðing þess, sem eftir er, eins og fyrirmælin um jafnrétti þegnanna, er í raun og veru orðin allt önnur og miklu minni, meðan eðlilegar samgöngur eru tepptar milli ríkjanna, heldur en annars hefði verið.

Það hefur nú orðið nokkur ágreiningur um, hvernig meta ætti gildi þessara staðreynda, hver réttaráhrif ætti að telja, að þessar staðreyndir hafi haft. Það er nú öllum hv. þm. kunnugt, geri ég ráð fyrir, hver mín skoðun hefur verið í því efni, sem sé, að sjálfur hef ég talið, að það lægi í hlutarins eðli, — og ég hef reynt að færa að því margvísleg rök —, að þessar staðreyndir, þessi breyttu viðhorf, það, að danska ríkið gat ekki farið með þau málefni, sem það hafði tekið að sér að fara með af Íslands hálfu, hlutu að hafa áhrif um gildi samningsins í heild, hlutu að skapa Íslendingum annan og aukinn rétt til niðurfellingar samningsins heldur en þeir höfðu samkv. 18. gr. sambandslagasamningsins. Þetta hefur eigi verið einkaskoðun mín, því að hæstv. Alþ. sjálft lýsti því yfir 17. maí 1941, að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hafi þegar orðið að taka í sínar hendur meðferð allra mála sinna, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur frá 1918, og að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki þá að svo stöddu tímabært vegna ríkjandi ástands að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.

Þarna hefur Alþ. lýst því yfir tvímælalaust og einum rómi, að það teldi Ísland hafa rétt til þess að slíta sambandslagasamningnum eftir öðrum reglum en í 18. gr. sambandsl. segir. Hitt er svo allt annað mál, að frá upphafi hafa ýmsir landsmenn, góðir og gegnir, talið óheppilegt að vitna til slíks réttar. Sumir þeirra hafa jafnvel dregið í efa, að hann væri til, en aðrir hafa sagt, að þar sem við hefðum fram undan örugga leið, sem leiddi til sambandsslita, væri ástæðulaust og raunar fávíslegt að taka áhættusamari leið, sem um mætti deila og til þess væri löguð að vekja tortryggni og illindi í okkar garð hjá okkar gömlu sambandsþjóð.

Ég skal nú ekki um það dæma, hvort sjónarmiðið hefur meira til síns máls. Ég tel það, eins og komið er, litlu máli skipta. Það hefur orðið ofan á, fyrir atvikanna rás meira en fyrir okkar eigin vilja, að þetta mál er nú eigi tekið til endanlegrar afgreiðslu á Alþ. Íslendinga fyrr en eftir árslok 1943, þ. e. a. s. ekki fyrr en eftir að liðinn er sá 25 ára samningstími, sem ráðgerður var strax 1918. Það er að vísu rétt, að atvikin hafa einnig leitt til þess, að Íslendingar hafa ekki um endurskoðun og uppsögn sambandsl. getað farið svo að, sem í 18. gr. sambandsl. segir. Sú endurskoðun, þau viðtöl, sem ráðgerð eru í 18. gr., hafa ekki átt sér stað. Og ég vil sérstaklega taka það fram hér, að þau hafa ekki getað átt sér stað. Sumir menn hafa að vísu á síðari mánuðum sagt, að það væri vanræksla af Íslendinga hálfu að hafa ekki látið þessi samtöl eiga sér stað fyrr, því að það hefði a. m. k. árum saman verið mögulegt að láta þau fara fram í Svíþjóð. Þetta er að mínu viti og margra annarra algerlega rangt þegar af þeirri ástæðu, að allan tímann frá 1940 hafa dönsk stjórnarvöld verið eins og í fangelsi, ekki ráðandi gerða sinna, og þess vegna með öllu óbær um að taka þátt í slíkri samningagerð sem þessari. Það er því alveg öruggt, að það hefur ekki verið hægt að öllu leyti að fara eftir 18. gr. sambandsl. En liðinn er sá tími, sem í upphafi var ráðgert, að sambandsl. stæðu. Og þar við bætist, að Íslendingar, bæði 1928, 1937 og einkum 1941 létu það alveg ótvírætt uppi, að þeir mundu ekki semja á ný. Hvort þessar yfirlýsingar, og þá einkum yfirlýsingin 1941, verður talin jafnast á við kröfu um endurskoðun, skal ég ekki ræða um hér. Sumir menn hafa sér til gamans gert að halda því fram, og ég skal ekki mæla á móti því. Það getur meira að segja vel verið, að það geti verið hagkvæmt frá vissu sjónarmiði, að við látum opnar dyr standa fyrir þeim skilningi. Hitt er ljóst, að sú krafa eða yfirlýsing fullnægir ekki bókstaf sambandslaganna. En víst er, að þegar málið var tekið upp til endanlegrar íhugunar í stjórnarskrárn. á síðasta ári, 1943, þá var það alltaf ráðgert og beinlínis í hugum manna, með nokkurri hliðsjón af yfirlýsingunum frá 17. maí 1941, að láta sambandsslit ekki eiga sér stað fyrr en þrjú ár væru liðin frá þeim tíma, eða 17. júní í ár. Það var sjónarmið, sem þá þegar var haft í huga og menn þá þegar gerðu sér grein fyrir, þó að stjórnarskrárn. þá teldi, og ég vil segja meiri hluti manna nú, bæði hér á Alþ. og í skilnaðarnefnd, telji, að þetta geti engum úrslitum ráðið.

— Það er þess vegna ljóst, að nú er sá tími fullnaður, hvernig sem á er litið, sem ráðgert var í upphafi, að sambandsl. þyrftu að standa. Og hvort sem menn nú vilja telja, að þeir atburðir, sem gerzt hafa, hafi áhrif til þess að veita Íslendingum aukinn rétt frá því, sem áður var, eins og ég fyrir mitt leyti hef talið, en aðrir hafa viljað véfengja, þá hygg ég, að það geti engum blandazt hugur um, að þessir atburðir eru ekki þannig vaxnir, að þeir geti skuldbundið Íslendinga til þess að verða bundnir við nauðungarsamninginn frá 1918 — eða verzlunarsamninginn, ef við viljum nota það orð í þeirri merkingu, sem það var notað 1918 — lengur en upphaflega var ráðgert. Og þess vegna er það, að skilnaðarnefnd Alþingis hefur nú á þeim grundvelli, sem ég hef reynt að lýsa, orðið sammála um að mæla með þáltill. að meginefni til. Og ég vonast til þess, að þótt í ræðu minni nú hafi mitt eigið sjónarmið e. t. v. nokkuð komið fram, þá hafi ég reynt að forðast að halla á skoðanir annarra hv. þm. Svo ánægjulega hefur til tekizt, að skilnaðarn. hefur orðið sammála um að mæla með þessari þáltill. að meginefni til. Það má segja, að í skilnaðarn. hafi verið ágreiningur um það eitt, hvort í till. ætti að vera það ákvæði um aukinn meiri hluta við þjóðaratkvgr., sem til er tekinn í 18. gr. sambandsl. Meiri hluti n., 11 nefndarmenn, allir nema einn, töldu, að slíkt gæti ekki komið til mála þegar af þeirri ástæðu, að þeir telja, að þeir atburðir, sem að höndum hefur borið og enn standa yfir, en hófust 1940, hafi gefið Íslendingum rétt til þess að fella samninginn niður með öllu og einfaldur meiri hluti við þjóðaratkvgr. nægi til þess og einfaldur meiri hluti á Alþ. Einn nm., Stefán Jóh. Stefánsson, hefur aftur á móti talið, að aukins meiri hluta, svo sem segir í 18. gr. sambandsl., beri að krefjast, bæði á Alþ. og við þjóðaratkvgr. Nú er vitað, að á Alþ. er fyrir hendi það atkvæðamagn, sem nægir til þess að samþ. till. með hinum aukna meiri hluta sem í 18. gr. segir. Og það er ekki heldur að efa, að ef allir þeir landsmenn, sem vilja sambandsl. og skuldbindingar þeirra úr sögunni sem fyrst, — ef allir þessir leggjast á eina sveif við þjóðaratkvgr. um að fá þau nú felld úr gildi, þá mun einnig hinn aukni meiri hluti, sem hv. 4. þm. Reykv. telur, að nauðsynlegur sé, nást við þjóðaratkvgr. Hv. 4. þm. Reykv. vill samkomulag jafnóðfús og við, og þó að hann telji þá leið, sem til þess liggur, vandfarnari en við hinir, þá varð að samkomulagi í n. að láta þennan ágreining að svo stöddu liggja á milli hluta, og það er víst, að það er á valdi Íslendinga að láta hann aldrei vakna á ný, með því móti að fjölmenna til þjóðaratkvgr. á vori komanda og greiða svo einhuga atkvæði, að ekki verði um villzt, hver vilji þjóðarinnar sé, að þjóðin greiði því nær öll atkvæði og allir verði sammála. Þá er sá ágreiningur úr sögunni, og var það vissulega mikils virði eftir allt, sem á milli hafði borið, að samkomulag náðist við hv. 4. þm. Reykv. um það, að við legðumst allir á eitt um að eyða ágreininginum á þennan heppilega hátt, sem raunar er sá eini rétti í þessum efnum.

Svo sem menn muna, voru í till., eins og hún var lögð fram, fyrirmæli um það, að danskir ríkisborgarar búsettir hér skyldu hafa jafnrétti við íslenzka borgara, þar til öðruvísi væri ákveðið. Að betur athuguðu máli þótti nefndinni sýnt, að bezt væri, að um þetta væru sett sérstök lög. Þótti þá bezt að taka þessi fyrirmæli alveg úr till., en undirbúa í þess stað löggjöf um það, sem ég held, að nú hafi verið samin og undirbúin af hæstv. dómsmrh., sem til þess er allra manna færastur, vegna afskipta sinna af því máli, fyrr og síðar, og mun það frv. hafa verið lagt fram á Alþ. Þar er og ráðgert, að allir danskir ríkisborgarar haldi þeim réttindum, sem þeir hafa samkv. 6. gr. samningsins, þar til 6 mánuðum eftir að samningar geti tekizt milli landanna um þessi efni.

Rétturinn er því tímabundinn, en nokkru víðtækari en gert er ráð fyrir í till. Menn hafa ekki talið ástæðu til að skerða hann frá því, sem nú er. M. a. ræðir þar um tillit til frænda okkar í Færeyjum, sem við viljum ekki láta gjalda þeirra aðgerða, sem við beitum nú.

Þá var líka í n. um það rætt, hvort setja ætti í till. sjálfa fyrirmæli um það, hvenær atkvgr. færi fram. Ég held, að einn nm. hafi talið það skipta nokkru máli, að atkvgr. færi ekki fram fyrr en 20. maí. Við hinir höfðum ekkert á móti þessu, vegna þess að veðurfari og öðrum aðstæðum er þannig háttað hér á landi, að ekki er heppilegt að láta atkvgr. eiga sér stað fyrr, auk þess sem aldrei skaðar að hafa vaðið fyrir neðan sig. Og ef þessi dagsetning gæti orðið til þess, að ,sumum mönnum veittist það auðveldara að fylgja till. en ella, þá er það auðvitað sjálfsagt mál. Um þetta var þó ekki sett ákvæði í sjálfa till., heldur var ákv. um þetta sett í frv. til laga um þjóðaratkvgr., og hefur það nú verið lagt fram í Ed. Var það samið af hæstv. dómsmrh. í samráði við lýðveldisnefnd að meginatriðum til, en stjórnarskrárn. hefur síðan haft það til athugunar. Er ráðgert, að þjóðaratkvgr. hefjist um 20. maí n. k. og standi í nokkra daga.

Þá voru líka gerðar nokkrar breytingar á till., aðeins vegna þess, að betur þótti fara, en án þess að það breytti nokkuð efni málsins.

Niðurstaðan varð því sú, að skilnaðarnefnd varð sammála um að mæla með hinni upphaflegu till., sem samin var af stjórnarskrárn. og flutt af hæstv. ríkisstj., óbreyttri að efni um meginatriði.

Nefndin varð sammála um, að sjálfsagt væri að samþ. till., og það er einlæg ósk mín og allra nm., að svo megi einnig fara hér á Alþ.,Alþ. geti nú sameinazt um þetta mál og afgr. þessa till. hið allra fyrsta. Er þess síðan að vænta, að öll þjóðin fylki sér um það fordæmi, sem nefndin og Alþ. hafa þannig gefið, og hún standi saman öll sem einn maður og hristi af sér þá ófrelsisfjötra, sem á íslenzku þjóðinni hafa hvílt um aldir.