14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (4081)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Hæstv. félmrh. hefur minnzt á, að breyta þurfi nokkrum atriðum í frv. Ég tel, að svo sé. Ber ég fram brtt. um viðauka í 9. gr. á eftir málsgr.: „Áður en undanþága er veitt ...“ Hljóðar brtt. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur er atvmrh. heimilt að veita þeim, er lokið hafa hinu minna fiskimannaprófi og siglt sem skipstjórar eða stýrimenn í 36 mánuði fyrir gildistöku laga þessara á skipi yfir 15 rúmlestir brúttó og eru 30 ára að aldri, réttindi til þess að vera skipstjórar eða stýrimenn í innanlandssiglingum á fiskiskipum allt að 150 rúmlestum að stærð.“

Þó að ég viðurkenni, að ég sé ekki fróður maður um siglingar, get ég ekki skilið, að það sé af eðlilegum ástæðum, að mönnum, sem stýrt hafa allt að 75 smál. skipum við góðan orðstír, skuli meinað að færa nokkru stærri fiskiskip, þannig að nú, er þróunin fer í þá átt, að skipin stækka og í stað 60–75 smál. skipa koma t.d. 85–100 smál. skip, þá missa þessir menn í framkvæmdinni skipstjórnarréttindi sín, oft og tíðum, og fá þau ekki aftur nema setjast um skeið á skólabekk, en það lætur miðaldra og rosknum mönnum einatt illa, svo að þeir þola heldur réttindamissinn. Mér finnst mjög hart að fara þannig með gamla skipstjóra. Úr þessu ranglæti og þjóðfélagstjóni vildi ég bæta með brtt. minni.

Það er ósamræmi í því, eins og hæstv. félmrh. veik að, að gera nýjar prófkröfur til manna, sem tekið hafa minna fiskimannaprófið og hlotið síðan mikla reynslu í skipstjórn, en leyfa mönnum án prófs að stjórna 15–30 smál. bátum, en af þeirri stærð eru m. a. flestir flóabátar og fjöldi báta, sem oft flytja farþega og póst, og verður að gera allmiklar kröfur til skipstjóra á þeim skipum.

Ég hef rekið mig á það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að reynsla margra lítt lærðra skipstjóra hér við land vegur þyngra, er í raun rekur, en fullgilt meira próf stýrimanns, sem reynsluna skortir. Þessum mönnum á að veita tækifæri til að stjórna áfram skipum á fiskveiðum og í innanlandssiglingum, þótt smálestatala skipa hækki. En hitt væri mönnum þessum lítill fengur, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að fá rétt til millilandasiglinga. Og þeir, sem þær vilja, geta þá lagt á sig að taka nýtt próf. Brtt. fer aðeins fram á heimild, sem eigi yrði notuð, nema um reynda og valinkunna menn væri að ræða. Ég er fús að taka brtt. aftur til 3. umr., ef n. fellst á að taka efni hennar til athugunar.