14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (4083)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Ég vildi gjarnan fá að vita hjá hæstv. frsm., sem er útvegsmálum kunnugur, hve mörg fiskiskip mundu nú vera hér 75–150 smál. að stærð. Ég hygg þau ekki afar mörg, en skip, sem fara lítið eitt yfir lægra markið, verða að líkindum mun fleiri í náinni framtið. Stökkið, sem hv. frsm. finnst vera gert með því að leyfa að hækka rétt nokkurra reyndra skipstjóra úr 75 í 150 smái., er því í framkvæmd miklu minna en hann virðist telja. Ég minnist þess að hafa nýlega séð nákvæma skýrslu yfir fiskiskip landsmanna, og þótt ég taki ekki tölur þaðan, hygg ég hana styðja mitt mál.

Hvort sem mennirnir stýra 75 eða 85 smál. skipi, fiska þeir á sömu miðum við sömu skilyrði, sömu hættur og sigla sömu leiðirnar. Ég sé ekki skynsemi í að draga þarna skarpa merkjalínu milli skipstjóranna og réttinda þeirra. skil ekki, t.d., að öryggið sé neitt annars eðlis á 75 en 85 smál. skipinu. Eða þarf 75 smál. skipið minna öryggi en 85 smál. skip, svo að fært sé að hafa minnaprófsskipstjóra á 75 smái. skipinu, en ófært að láta hann hafa hitt skipið til forráða, hversu þrautreyndur maður sem hann er? Ég hef ekki heyrt nokkur frambærileg rök fyrir því, að mun meiri vandi sé að stjórna 85–90 smál. skipi en 75 smál.

Höfuðatriði í þessu máli er hin vaxandi stærð skipa af þessari tegund og sanngirniskrafan, að þeir skipstjórar. sem reynast vaxa í hlutverki sínu, verði ekki sviptir rétti til skipstjórnar á þessum hluta veiðiflotans.