17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (4104)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Ég þarf ekki miklu að svara. Þessar deilur hafa aðallega verið milli hæstv. atvmrh. og hv. þm. Barð. Ég vil þó, áður en þessum rökræðum lýkur, minna hv. þm. Barð. á það, að þegar talað er um, að menn fái að hafa sömu réttindi og þeir hafa nú, þá er vitanlega ekki átt við tonnatölu skipa, heldur að þeir fái að stjórna fiskiskipum, þó að þau séu eitthvað stærri en verið hefur fram að þessu. (GJ: Það er ný lögskýring.) Ég hygg, að hann geti ekki neitað því, að reynsla manna er ekki einskis virði. Þarna eiga hlut að máli 40 menn, sem hafa siglt í fimm ár sem skipstjórar eða stýrimenn.

Ég vil minnast á eitt dæmi, en það mætti nefna mörg. Það lá 15 tonna bátur vestur á Ísafirði í miklu óveðri. Maðurinn, sem fór með bátinn, hafði ekki leyfi til að vera með hann nema láta múra í botninn á honum til að fá hann niður fyrir 15 tonn. Hann fór með hann suður á Akranes og sótti á sömu slóðir og þeir, sem höfðu stóra báta þar. Hann varð næstefstur að tiltölu við stærð bátsins. Þótt hægt sé að segja, að svona lagað sé slembilukka, þá sýnir þetta, hvað slíkum manni er fært. Ég hef verið með honum á sjó, og ég vil heldur vera með honum en mönnum, sem hafa próf til að fara með svo og svo stóra báta. Og það er alveg víst, að margir af þeim mönnum, sem hér um ræðir, eru margir hverjir færari til að færa sín skip en þeir, sem hafa stór próf. og ég vil heldur sigla með mörgum þeirra en hinum, sem hafa meiri próf. Þess vegna er það svo, að þegar verið er að stækka skipin, þá er ekki hægt að setja nein heildarfyrirmæli og skera allt við eina línu. En ég er ekki í vafa um, að ef þessari heimild er beitt rétt, þá er hún réttmæt og nauðsynleg, og mér kemur ekkert annað til að flytja hana en það. Að henni verði misbeitt, gerir maður ekki ráð fyrir, og það getur ekki afstýrt því, að réttlát fyrirmæli séu sett í l. Mér dettur ekki í hug, að þau ákvæði verði sett í l., að réttindin skuli í raun og veru tekin af skipstjórunum, og þess vegna flyt ég brtt. um þessa undanþágu, þó að hægt sé að misbeita henni. En ég geri ráð fyrir, að henni verði beitt rétt, og þá er hún réttmæt.