19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (4107)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þetta mál hefur nú verið rætt hér mjög ýtarlega.

Í sambandi við till. mína og hv. 1. þm. S.–M. á þskj. 904 vil ég leyfa mér að benda á, að sérstök áherzla var á það lögð af hæstv. atvmrh. og hv. þm. Str., að hér væri um undanþágu að ræða. Því hefur alltaf verið blandað saman, að hér væri um að ræða undanþágu eða veitingu fullra réttinda.

Ég hef borið hér fram till. um, að 12. gr. verði breytt á þessa leið:

„3. meginmálsgr. í Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Á sama tímabili er atvinnumálaráðherra heimilt, þegar skortur er á skipstjórum eða stýrimönnum, að veita mönnum, sem lokið hafa hinu minna fiskimannaprófi, undanþágu til þess að gegna skipstjóra- eða stýrimannastöðu á fiskiskipum í innanlandssiglingum allt að 150 rúml. að stærð, enda hafi þeir siglt sem skipstjórar eða stýrimenn á skipi yfir 30 rúml. í minnst 5 ár og eigi yngri en 40 ára.

Áður en undanþága er veitt, skal leita umsagnar skipaskoðunarstjórans og Farmanna- og fiskimannaráðs Íslands.“

Þetta mundi fullnægja ríkisstj. til þess að komast út úr því öngþveiti, sem hæstv. atvmrh. taldi, að ríkja mundi, þegar skipin koma, sem kaupa á til landsins. Þá mundi verða hægt að leggja þeim til fullnægjandi starfskrafta.

Ég vil ekki ætla neinum að vilja stofna mönnum og verðmætum í hættu, og sést það, þegar málið kemur til atkv., hvort alvara fylgir því að vilja bjarga því, sem bjarga þyrfti, eða hvort það er meiningin að veita full réttindi til að gegna þessum störfum.

Ég hef lagt til, að þegar undanþága sé veitt, skuli leita umsagnar Farmanna- og fiskimannaráðs Íslands, og er það samkv. venju, sem ríkt hefur. Tel ég það ekki aðeins ástæðulaust, heldur líka hættulegt, ef gengið verður fram hjá þeim venjum, sem ríkt hafa undanfarin ár.

Ef brtt. þessi verður ekki samþ., hef ég lagt til, að áður en réttindi eru veitt, skuli leita umsagnar skipaskoðunarstjóra og Farmanna- og fiskimannaráðs Íslands. enda séu þessir aðilar sammála því, að réttindin séu veitt. Ég hef kveðið hér sterkara að orði en í fyrri till., vegna þess að mikill eðlismunur er á því, hvort veita á undanþágu eða réttindi. Það er mikið vald, sem atvmrh. fær með því, að honum sé veittur réttur til að veita þessi réttindi án þess að leita umsagnar þeirra aðila, sem ég nefndi. Það mundi skapa ósamkomulag milli þeirrar stéttar, sem hér á hlut að máli, og ríkisstj., og mundi það ekki leysa þau vandræði, sem hér vofa yfir.

Skal ég svo ekki halda lengur áfram umr. um málið. Ég sé ekki ástæðu til þess, nema frekara tilefni gefist.