19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég vissi ekki um það, þegar ég kvaddi mér hljóðs, að komin væru fram andmæli gegn þessari till. og það í þá átt, sem ég hefði viljað. Vil ég því ekki lengja umræðurnar.

Till. snerist um að taka ekki réttinn af þeim skipstjórum, sem stjórnað hafa skipi undanfarin fimm ár, eru 40 ára eða eldri og hafa farið með skip, sem er 30 smálestir eða meira, þótt fiskiskipin stækkuðu. Um þetta snerist till., sem samþ. var.

Þessi till. (904) fer í allt aðra átt, og þarf ekki um það að ræða. Þó hafa flm. hennar fallizt á, að þeir menn, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem ég nefndi, séu svo færir, að ekki sé hættulegt að fá þeim skip til umráða.

Ég hygg, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafi fyrir fram ákveðnar skoðanir á þessu máli. Þeir, sem réttindi hafa öðlazt, hverjir svo sem það eru, halda fast í þau og reyna að gæta þess, að í stéttinni fjölgi ekki um of. Þetta er almenna afstaðan í málinu, og þetta er yfirleitt hin alinenna afstaða í málum af þessu tagi.

Það virðist ekki fjarri lagi að taka nokkurt tillit til reynslu manna í þessu efni. Má þar t.d. nefna þá, sem með flóabátana fara, en þeir bátar fara oft hinar mestu svaðilfarir eins og kunnugt er. Reynsla slíkra manna er áreiðanlega mikils virði, og má fullyrða, að þar sé mesta og bezta öryggið og mælikvarðinn í þessu máli, en ekki umsögn þeirra manna, sem hafa sömu afs;öðu til málsins og þeir, sem öðlazt hafa þau réttindi, er hér um ræðir, og er ekki hægt að deila á þá fyrir að halda fast í þau og sitja að þeim.