19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Það er, eins og oft hefur verið bent á hér í hv. d., að það má æra óstöðugan að þreyta kappræður við hv. þm. Barð., það var hér einu sinni af reikningsglöggum manni reiknað út, að ef allir þm. töluðu eins mikið og hv. þm. Barð., þá þyrfti tvö ár til þess að halda hvert þing. Og þá er það þetta orðbragð, sem hann viðhefur, eins og það, að þegar við bendum á eitthvað, að vísu oftar en einu sinni, þá er því mótmælt og snúið út úr því, t.d. sagt, að við höfum sagt, að það eigi aðeins að veita undanþágur á sama hátt og vegna vélstjóra. Það er orðbragð eins og það, að við séum að jórtra á þessari vitleysu. Þetta mundi ekki vera liðið án þess að taka ofan í við þm. að verðleikum, ef menn hefðu ekki gaman af þessum hv. þm. annað slagið.

En ég held að hv. þm. Barð. ætti ekki að eyða jafnmiklum tíma í að tala um öryggi á sjó og hann gerir. Og þó að hann þykist sérfróður, eins og hann á að heita, þá hygg ég, að honum hafi ekki farizt allt svo sérlega vel úr hendi, sem hann hefur gert í þeim efnum, að hann þurfi að tala í þeim tón, sem hann gerir:

Hann talar um, að lögfræðingar eigi að hafa vit á lögum, og segir svo „lugum“. Ef þetta væri ekki svo sérkennilegt afbrigði, sem hann er, væri hann óþolandi. En það er liðið vegna þess, að það tekur enginn mark á því. Það er ekki fyrir annað. — Og að rísa svona upp í hverju máli og þykjast vita betur en allir aðrir. Þegar hann talar við prófessora og borgarstjóra. þá vita þeir ekki neitt. Ég held að hv. þm. Barð. (GJ) viti nokkuð betur í „lugum“ !

Annars held ég, að hv. þm. Barð. ætti að leggja þetta niður sem allra fyrst. Þetta er sagt við hann í fullri vinsemd. Vitanlega getur hann haldið þessu áfram, ef hann vill, en þetta er honum aðeins til leiðinda, eins og hann kemur fram, og skraf hans um það, að við séum ekki færir um að bera ábyrgðina á þessu eða hinu, að það sé leitt í l.. og margt annað skraf af þessu tagi er ákaflega óviðeigandi. Til dæmis kom það fyrir hér um daginn, að þessi hv. þm. fór til forseta með það, að þm. skröfuðu saman í d., og einnig, að menn hlógu hér í d. Ég veit ekki, að hverju á að hlæja, ef ekki þessum hv. þm. Og það væru undarlegir menn, ef þeim yrði ekki á að hlæja að ræðum hans. Og svo gerir hann kröfur til þess, að menn hlæi ekki að honum.

Við getum talað um mál hér alveg rólega og með rökum aftur og fram, eins og t.d. hvort menn, sem komnir eru á þann aldur að hafa þessa reynslu, eigi að fá að stjórna þessum stóru skipum. Það er engin veila í þeim rökum, sem við höfum fært fram í þessu máli. En þessi ósköp ætti hv. þm. Barð, að leggja niður. Þau eru honum bara til leiðinda og eru ekki tekin alvarlega af neinum. Þm. eru mér e.t.v. dálítið reiðir fyrir að vera benda hv. þm. Barð. á þetta, því að þeir vilja kannske hafa skemmtun af þessu eins og hingað til.