29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (4118)

54. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Þessi till., er við hv. þm. Mýr. flytjum á þskj. 92, skýrir sig sjálf. Þar er aðeins farið fram á að taka út úr þáltill. þeirri um þetta efni, sem samþ. var á síðasta þingi, ákvæðið um, að efni til virkjunar Andakílsár verði keypt í Bandaríkjunum. Nú er sú breyting á orðin, að hagkvæmara þykir að kaupa þetta efni frá Svíþjóð. Hv. fjmrh. telur réttara, að þetta ákvæði sé tekið út úr till. og það látið standa opið, hvar efnið sé keypt. Við flm. viljum fara fram á, úr því að ekki er um aðra breyt. að ræða, að málið fái afgreiðslu, án þess að till. sé vísað til n., þó að við leggjum ekki á það áherzlu, ef það kynni að sæta andmælum.