01.02.1945
Neðri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

24. mál, atvinna við siglingar

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Hér hefur komið fram brtt. frá fjórum mönnum í sjútvn. um, að 3. málsgr. bráðabirgðaákvæðanna falli niður. Ég er andvígur þessari brtt. og tel hana til skemmda. Það getur verið, að þessar undanþágur gætu eins vel verið í einhverju öðru formi, en þær eru hyggileg lausn á málinu, og má því ekki fella þær burt.

Það er að vísu rétt, að formlega er enginn sviptur þeim rétti, sem hann hefur nú, þó að þetta bráðabirgðaákvæði falli niður. Menn hafa áfram rétt til að vera á 75 tonna skipum, en það er þó rétt að gera sér ljóst, að það er aðeins formlega hliðin, vegna þess að nú eru fiskiskip okkar miklu stærri en þegar þetta ákvæði var sett. Nú er svo komið, að mikill hluti af fiskiskipum okkar er stærri en 75 tonn. Það er því fullkomlega ranglátt að taka ekki tillit til þess breytta viðhorfs og gefa ekki þessum mönnum, sem búnir eru að afla sér eins mikillar reynslu og gert er ráð fyrir í 3. málsgr., tækifæri til að geta að þessu leyti fylgzt með tímanum.

Nú er Stýrimannaskólinn um það bil að taka til starfa, og við skulum vona, að sú stofnun verði fær um að veita nægilega mörgum mönnum góða menntun. svo að við getum fengið skipstjóra og stýrimenn með betri menntun en hingað til. En þegar við erum að setja svona ákvæði, þá megum við ekki taka aðeins tillit til hins bóklega lærdóms, en líta ekki á starfið sjálft. Það væri ósanngirni að vilja ekki taka tillit til þess, ef menn væru búnir að stunda sjómennsku áratugum saman og vera skipstjórnarmenn í fimm ár. Það væri órétt að neita þessum mönnum um að stunda áfram þessa atvinnu án þess að þurfa fyrst að setjast á skólabekk. Ég veit, að ýmsir þessara manna mundu alls ekki beygja sig undir það, svo að það væri sama og að reka þá úr starfinu, ágæta formenn, sem kjósa að vera við það starf áfram.

Það er vert að hafa það í huga, þegar rætt er um lærdóm og réttindi skipstjóra og stýrimanna, að þótt það sé vissulega gott að hafa góða þekkingu, þá er þó annað atriði, sem ekki er minna um vert, þegar um skipstjóra og stýrimenn á fiskiskipum er að ræða, en það er, að þeir kunni til fiskveiða, þekki miðin og veiðiaðferðirnar og þess háttar, og svo það, að þeir séu fisknir, og það er kannske eitt af því, sem er ekki hægt að skýra. Það er t.d. staðreynd, að oft eru sömu mennirnir langhæstir á síldveiðunum ár eftir ár. Það er í raun og veru ekki hægt að segja, að þeir hafi meiri reynslu eða þekkingu en ýmsir aðrir, en samt eru þeir hæstir ár eftir ár. Ég þekki mörg dæmi þess, að síldarútgerðarmenn hafa ekki hikað við að ráða sér mann, sem hefur ekki haft full réttindi, sem raunverulegan skipstjóra á skip sitt til að stjórna veiðunum til viðbótar við fulla skipshöfn. Mér er kunnugt um skip, sem ár eftir ár hafa haft réttindalausa menn til að vera raunverulega skipstjóra, vegna þess að þeir eru góðir fiskimenn. Þetta er atriði, sem vert er að taka tillit til. Við megum ekki „risikera“ því, að þaulæfðir og ágætir fiskimenn verði að fara í land og vilja ekki sætta sig við að verða að setjast á skólabekk eftir að þeir hafa starfað alla ævi sem ágætir fiskimenn.

Ég held, að það sé misskilningur hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu, að svo mikið sé unnið við, að mennirnir fari í þennan skóla eða hafi að öðrum kosti ekki réttindi til að vera með stærri skip en 75 tonn. Þetta mundi raunverulega þýða það, að þeir fengju ekki nema léleg skip, og í flestum tilfellum, að þeir drægju sig í hlé.

Þegar umr. urðu um þetta í Ed., þá var því haldið fram, að óþarft væri að vera á móti því, að þessir menn færu á námsskeið, af því að ríkisstj. hefði í hendi sér að setja svo væg skilyrði fyrir prófinu, að það væri enginn vandi að komast í gegnum það. Þessi röksemd hefur ekki komið fram hér, en það segir sig sjálft, að það er gersamlega þýðingarlaust að fara að skylda þessa menn til að fara á slík námsskeið, þegar svo er um búið, að þessa undanþágu fá aðeins þeir, sem hafa starfað að sjómennsku að heita má öll manndómsár sín og eru orðnir þaulreyndir sjómenn og hafa því öðlazt reynslu, sem engin leið er að afla sér í skóla.

Þá er annað, sem menn verða að gera sér ljóst, en það er, að ef allir þeir menn, sem samkv. bráðabirgðaákvæðunum hafa rétt til að fara á þessi námsskeið, ætla að sækja þau, þá yrði það slíkur fjöldi, að þeir gætu ekki komizt þar að. Og þegar menn hafa orðið að hætta við að fara í skóla hér í Reykjavík, af því að þeir hafa ekki fengið hér inni, þá yrði einhvers staðar þröngt, ef allir þessir menn kæmu. Það er því í alla staði óskynsamlegt að vera með svona smásálarskap, þegar á stendur eins og hér. Farmanna- og fiskimannasambandið virðist hafa sótt það af miklu kappi að fá þetta ákvæði fellt niður, en mér er kunnugt um, að meginþorri sambands félaga minnaprófsmanna er mjög eindregið með þessu, svo að það er órétt, þegar Farmanna- og fiskimannasambandið er að gefa svona álít út, að láta þess ekki getið, að það gengur að þessu leyti ekki heilt til skógar.

Það er gert ráð fyrir, að Farmanna- og fiskimannasambandið fái öll mál eins og þetta. einkum þau, er snerta öryggi á sjónum, og það er ekki nema gott og blessað og þá eðlilegt, að það sé á móti því, ef ekki eru uppfylltar nægilega þær kröfur, sem gerðar eru til öryggis. En það fær mig enginn til að trúa því, að menn. sem komnir eru yfir fertugt, eru búnir að stunda sjómennsku í 10–20 ár og hafa verið stýrimenn eða formenn í fimm ár og vilja halda sjómennsku áfram, séu ekki eins vel færir um að stjórna skipum upp í 150 tonn eins og 75 tonna skipum eða að þeir séu ekki eins vel færir til þess og menn, sem hafa örlitla reynslu, þó að þeir hafi verið í skóla. Það er ekkert annað en ósanngirni að bera vönum fiskimönnum slíkt á brýn. Það er mesta fjarstæða, að með þessu sé verið að stofna mannslífum eða verðmætum í hættu. En ef hv. d. er svo hörð á þessu atriði, að hún er ófáanleg til að gefa heimild til að veita slíkar undanþágur, þá getur farið svo, að það verði að veita þær án heimildar, því að hver einasta ríkisstj. hefur séð sig til neydda að veita slíkar undanþágur, þó að engin heimild væri fyrir því. Það hefur staðið þannig á, að verðmæti hafa legið undir skemmdum og ekki verið annað hægt en veita undanþágurnar, en slíkt er illt og jafnvel áhætta fyrir ríkissjóð, sem gæti orðið skaðabótaskyldur gagnvart vátryggingarfélögum, þegar illa fer, eins og alltaf getur að höndum borið.

Það eru eindregin tilmæli ríkisstj., að þetta ákvæði verði látið haldast eins og að er í frv. eða svipað ákvæði sett í þess stað. Ég tel öruggt, að hvorki þessi ríkisstj, né nokkur önnur muni taka á sig þá ábyrgð að veita aðrar undanþágur en þær, sem gerðar verða í samráði við fulltrúa fiskimanna, þannig að tryggt sé, að þeir einir fái réttindi, er svo séu kostum búnir, að áhættulaust sé talið að trúa þeim fyrir stærra skipi en þeir hafa.