01.02.1945
Neðri deild: 119. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

24. mál, atvinna við siglingar

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja umr. um málið almennt, aðeins ræða brtt. á þskj. 1012. Deilt er um heimild þá, sem samkv. frv. er veitt til undanþágu handa skipstjórum með minna fiskimannapróf til að fara með 75–150 tonna skip. Þetta vilja þeir algerlega fyrirbyggja, sem að brtt. standa. Þeir vilja slá því föstu um reynda skipstjóra, sem skortir meira prófið, að þeir séu ófærir til að stjórna skipi upp í 150 tonn, og telja meira öryggi að setja til þess nýútskrifaða pilta, sem hafa ekki lengri reynslu en nemur skemmsta stýrimannstíma, sem þeim er skylt að hafa siglt. Það er algengt að gera lítið úr reynslu og mikið úr skólalærdómi. Úr hvorugu vil ég lítið gera, en hygg þó, að 5–10 ára reynsla í skipstjórn geri nýtan mann færari til skipstjórnar en nokkurt skólapróf getur gert.

Það vita allir sjómenn og allir, sem til sjósóknar þekkja, að á siglingum og veiðum hér við land beita skipstjórar aldrei víðtækari skólakunnáttu en heimtuð er til minna prófsins, þótt þeir hafi tekið meira prófið. Munur prófanna hefur því mjög litla hagnýta þýðingu á fiskiskipum þessarar stærðar, ef maðurinn hefur öðlazt alllanga reynslu og gefizt vel í starfinu. Það er því alger sleggjudómur, að nauðsyn sé öryggis vegna að heimta hið meira fiskimannapróf.

Eitt af því, sem stuðningsmenn brtt. hafa haldið fram, er, að ekki skipti miklu fyrir þessa skipstjóra. þótt þeir þurfi að taka próf. En þessir rosknu menn, sem um ræðir, vilja ekki leggja sig í skólanám hér eftir, taka alls ekki prófið, sætta sig heldur við að vera á smærri bátum. Það má fullyrða, að það muni kosta íslenzka útgerð stórfé að verða af skipstjórn þessara vönu manna. því er haldið fram. að nógir menn með meira prófi séu til og verði til næstu árin. Þá er því að svara. að reyndu mennirnir með minna prófið eru betri. Hvaða útgerðarmaður, sem væri, mundi vafalaust velja slíkan góðkunnan aflamann skipstjóra á skip sitt heldur en nýútskrifaðan meiraprófspilt. Þegar útgerðarmenn fara að ráða á 75–150 smál. skipin, leggja þeir svo mikið upp úr reynslunni, að þeir vilja ekki án slíks manns vera. Megí hann ekki vera skipstjóri, ráða þeir hann samt og svo með honum einhvern pilt með meira prófi til að leppa. Samþykkt brtt. mundi ýta undir óheilbrigði, skapa allt annað en gott ástand. Ég vil eindregið skora á þm. að fella hana: Málið liggur ljóst fyrir, en óhemjumiklum áróðri hefur verið beitt í því í þinginu af mönnum, sem eru því vanir að koma með mikinn afla í land. Nú hafa þeir aflað hér allvel, og þess vegna er deilt. Annars er það fyrirbrigði allt of algengt, að hópar manna, sem búnir eru að fá tiltekin atvinnuréttindi, berjast fast gegn því að leyfa öðrum að fá réttindin, þótt bæði sanngirni og almenn þörf mæli með. Svo hefur orðið með sumar iðnstéttir, og svo er hér. Ef vöxtur útgerðar verður sá, sem vonast má eftir á næstu árum, mun víða skorta menn. Þá kemur mönnum í koll, ef sá naglaskapur er sýndur nú sumum beztu aflamönum okkar að flæma þá frá skipstjórn.