20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (4163)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Eiríkur Einarsson:

Til áréttingar því; sem ég sagði hér áðan, vil ég segja nokkur orð og geta þess, að ég ber hér fram litla brtt., sem hljóðar svo. með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 2. gr. komi ný grein, er verði 3. gr. og hljóði svo: Framkvæmdir samkvæmt l. þessum skulu þá fyrst gerðar, er nauðsynlegar umbætur og aðgerðim í þágu heilbrigðismála þjóðarinnar eru af hendi inntar, að áliti og umsögn heilbrigðismálastjórnarinnar.“

Þetta er mér hreint alvörumál. Ég játa, að það, sem farið er fram á í frv., er mikil nauðsyn. Hæstarétt vantar húsrúm, og stjórnarráðsbyggingu vantar. En þrátt fyrir þetta er önnur nauðsyn enn ótvíræðari fyrir hendi. Þess vegna segi ég það, og ég meina það, að meðan fjárhagsgeta þjóðarinnar og umráðasvið er ekki takmarkalaust, eigi sú nauðsynin að ganga á undan. Það var verið að tala um, að á sumum ríkisspítölunum væru ekki nægilegar vindur og lyftur, til þess að hægt væri að framkvæma nauðsynleg verk, sem þarf að inna af hendi á slíkum stöðum. Það er sagt. að ekki sé fé til, til þess að koma þessu í lag. Ég vil ekki staðhæfa, að það muni vera rétt. Það þekkja allir umræðurnar, sem farið hafa fram hér á Alþ. um geðveiklingana og Klepp. Það er öruggara hljóðið í mörgum þm., þegar verið er að tala um byggingu stjórnarráðshúss og yfir Hæstarétt, eins og þarf að gera. Þetta hvort tveggja er nauðsyn, en ég flokka nauðsynjarnar. Lífsnauðsynin á alltaf að ganga á undan hinni nauðsyninni. Þetta er mergurinn málsins fyrir mér. Ef ríkið hefur ótakmarkað fé til að verja til þessara hluta, þá væri afa elskulegt að horfa á framkvæmd hvors tveggja. En ef framkvæmdagetan er einhverjum skorðum bundin, þá verður að athuga, hvern veginn á að ganga á teiginn í þessu efni. Það er skoðun mín, að í menningarríki eigi þörf hinna þjáðu í landinu að ganga á undan hinni fínu fordild. Það var þetta, sem ég vildi undirstrika sem mína meiningu. Ég hef hér engin gögn önnur en sannfæringuna og brtt., sem miðar í slíka átt. Ég vona, að hv. d. láti hana standa eða falla eftir því, sem hún er skapi farin.