21.02.1945
Efri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Brtt. á þskj. 1174, sem ég hef flutt, var rædd nokkuð hér við 1. umr. þessa máls. Ég býst við, að henni verði ekki. langra lífdaga auðið, því að hún er ekki borin fram í því skyni, að hv. dm. fallist á hana, heldur er hún einungis borin fram af minni eigin skoðun. Ég hef því hugsað mér að taka hana aftur til 3. umr., til þess að hún fái að tóra lengur, og læt þá til skarar skríða.

Ég vil bæta því við það, sem ég hef hér áður sagt, að þetta málefni er að vísu borið fram af fjhn., en ekki nema að forminu til, því að það var lagt fyrir hana af hæstv. fjmrh. Annars má halda því fram, sem löngum hefur verið gert ráð fyrir, að bak við frv., eins og það er hér lagt fyrir, hefur komið fram við umr. hér á Alþ., að almennur vilji margra hv. þm. er að verki um þessa byggingu, hvort sem frv. að forminu til hefði verið borið fram af hæstv. fjmrh. eða hv. fjhn. eða ekki, þannig að hér er ekki að ræða um einn fremur en annan, og hefur þessi vilji um að reisa þessa opinberu byggingu komið víðs vegar fram í ræðum hv. þm.

Ég hef sagt það áður, að ég játa þessa nauðsyn, en ég ber fram þessa till. mína einungis til þess að undirstrika það, að það er ekki eins víst. og sumum kann að finnast, að leggja beri jafnmikið kapp á að láta þetta mál hafa framgang og að það hafi við full rök að styðjast. Hv. 1. þm. Eyf. ber fram brtt. um aðrar slíkar framkvæmdir á öðru sviði, en brtt. mín fer fram á enn meira aðkallandi framkvæmdir. Er þetta sagt aðeins til þess að vekja athygli á, hve þm. hafa ólíkar skoðanir á, hvar þeir telja, að þörfin sé brýnust.

Það, sem var þess valdandi, að ég hef borið hér fram þessa brtt., er, að ég tel, að nauðsynlegar framkvæmdir í þágu heilbrigðismálanna eigi að sitja fyrir þeim framkvæmdum, sem frv. þetta fer fram á, þar sem kunnugt er, að héraðslæknar landsins hafa enn mjög ófullnægjandi sjúkraskýli fyrir sjúklinga sína og þau vantar harla víða í strjálbýlinu. Margir þekkja, að okkur vantar stóra spítala, í sambandi við það mál, er rætt var um fjórðungsspítalana og viðbætur við önnur sjúkrahús. Frá sjónarmiði fjöldans eru þessi mál svo sérstaklega aðkallandi, að enginn þm. ætti að sitja sig úr færi, að á þau sé bent.