28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ásgeir Ásgeirsson:

Fjhn. Nd. hefur flutt þetta frv. um breytingu á l. frá fyrra ári um dýrtíðarráðstafanir. Aðalefni þess er, að sú hækkun á landbúnaðarafurðum, 9,4%, sem átti að ganga í gildi 15. sept., skuli falla niður í eitt ár. Jafnframt er svo ákveðið, að hækkun, sem verða kann á kaupgjaldi á þessu tímabili, skuli koma fram á afurðaverðinu. Þá er ákveðið í frv. að halda óbreyttu útsöluverði á landbúnaðarafurðum þennan tíma og greiða verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir eins og á síðasta ári. Þessi till. er í aðaldráttum í samræmi við það, sem samþ. var á búnaðarþinginu.

Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um hvort tveggja, að bændur hafi með þeirri samþykkt rétt út hönd til samkomulags og að tekið sé vingjarnlega í hina útréttu hönd þeirra. Bændum eða þeirra fulltrúum á Alþ. og búnaðarþ. mun hafa brugðið, er þeir heyrðu frá kjötverðlagsn., að hvert kg kjöts yrði selt á allt að 19 kr. þetta ár. Þessi útkoma var útreiknuð samkv. sex manna nefndar álitinu. Þetta nál. kom mörgum á óvart, og mun sumum hafa þótt það of gott til að geta verið satt. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að þeir samningar, sem hér hafa verið gerðir, séu góðir fyrir bændastéttina, og það kemur ekki í veg fyrir, að ég fylgi þessu máli bænda. Bændur sleppa þessari hækkun, sem yrði hækkun á dýrtíðinni, en gegn því fá þeir verðuppbætur á útfluttar vörur tryggðar og greitt niður verð á innlendum markaði. Er það að vissu leyti rétt, ekki aðeins vegna þeirra einna. En samt njóta þeir sem framleiðendur þess með því, að það gerir markaðinn stærri og hjálpar til að koma út vörunni. Í fyrra snemma var gerð sætt í fjhn. Nd. um verð á landbúnaðarafurðum, og samkv. brtt., sem sú n. gerði, var sex manna n. sett á laggirnar. Hún átti að ráða innanlandsverðinu, yrði hún sammála. Bændur hafa um langt skeið haft einokun á innanlandsmarkaðnum, og þess utan hefur þessi n. fengið fullveldi til að ákveða verðið á innlendum markaði, og svo ákveðið, að taka mætti tillit til hins lága verðs á útfluttu vörunum að svo miklu leyti sem sex manna n. teldi, að kaupgetan þyldi. Í þessari till. var engin ábyrgð tekin á útflutningsuppbótum. Það kom að vísu fram í fyrra, að 28 menn tóku sig saman og skrifuðu undir skjal um að tryggja bændum þessar uppbætur, en fyrir þessu var enginn þingmeirihl. og frá því gengið á óþinglegan hátt. Ég harma, að þá var yfirgefinn þessi samningsgrundvöllur, og þessir 28 menn tóku allt í sínar eigin hendur og sögðu: Við þurfum ekki að semja við aðrar stéttir. Í sambandi við þetta mál er það viðurkennt, sem og rétt er, að í fyrra var engin lögfesting gerð á útflutningsuppbótum. Alþfl., sem þá var gengið fram hjá, greiddi atkv. á móti þessu, en ef til samninga hefði verið gengið, þá hygg ég, að bændur hefðu getað fengið allmikla peninga til landbúnaðarins, þótt ekki fengjust samningar um að útdeila því fé til einstakra manna. Það var kannske ekki það, sem landbúnaðurinn þurfti helzt með. Það var fullur vilji á því að leggja landbúnaðinum allmikið fé, til þess að hann mætti standa nær því að geta borið sig, og með því að verja uppbótunum á þann hátt, hefði dýrtíðin ekki verið hækkuð. Það er góðra gjalda vert, að þetta er viðurkennt nú, að útflutningsuppbæturnar eru ólögbundnar. Búnaðarþ. lagði til, að hækkunin yrði gefin eftir, en slíkt hefði ekki verið hægt, ef uppbæturnar væru lögbundnar.

Ég vil endurtaka það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég hygg, að þegar árið er liðið, muni allir sjá, að þetta er allgóður samningur fyrir bændur. Þau ákvæði, sem nú gilda, eiga að falla niður, þegar lýkur því ófriðarástandi, sem nú er ríkjandi, og við væntum þess öll, að því verði lokið fyrr en árið er úti, en þá er samt bændum tryggt óbreytt ástand í eitt ár. En þótt þetta sé viðbót við þann rétt, sem þeir hafa haft, er ekki óeðlilegt að veita þeim hann. Ég vil segja, að þótt kalla megi þetta útrétta hönd og þakka beri eins og vert er þessa samþykkt búnaðarþ., þá geri bændur samt ekki slæman samning. Það er áætlað, að þetta eigi að haldast í eitt ár. En einn slæmur skuggi er á þessu. Þetta kostar mikið fé, tugi milljóna, og er ekki að sjá, hvar þeir peningar eru. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram fjárlfrv., en þar er enginn afgangur fyrir þessar uppbætur. Það verður fullerfitt að gera ráðstafanir, sem þarf í þessu efni, því að í sköttum t.d. er ríkið komið svo langt, að lengra verður ekki farið. Ofan á innflutningsverð og ýmis rándýr gjöld er kominn 50% tollur á kvenkjóla og sokka, eins og það sé einhver lúxus, að kvenfólk klæðist fötum. Lengra verður ekki gengið. Það má minna á, að ríkið hefur sannarlega gert sitt til að halda dýrtíðinni uppi með þeim miklu sköttum, sem nú hvíla á og margir telja þunga, eins og þeir eru líka. Það væri að vísu einfalt að eiga við þetta, ef ekki þyrfti annað en breyta dýrtiðinni í skatt. Saga dýrtíðarinnar er orðin hörmungasaga og allt talið um hana hér á Alþ. Það vantar ekki, að prédikað sé móti dýrtiðinni. en það er eins og þegar Hitler talar um frið. Honum tókst ekki að skapa frið, og eins er hér. Alþ. tókst ekki að vinna bug á dýrtíðinni þrátt fyrir vilja til þess og prédikanir bæði á þingfundum og í útvarpi. Það er eins og með seihausínn á Fróðá, sem gekk upp við hvert högg, en ekki niður. Dýrtíðin er ekki annað en innlend framleiðsla eins og landbúnaðarafurðirnar. Hún stafar frá hinu háa flutningsgjaldi og hinum gífurlegu tollum. Hún stafar frá verðlaginu á innlendum afurðum. sem alltaf fer hækkandi, og síðast, en ekki sízt hinum miklu gerðardómsl., sem áttu að verða til að berja hana niður til fulls. Þá fyrst gekk hún verulega upp, þegar félagsþroskinn var úr sögunni. Það er nú svo komið, að það kostar ríkið tugi milljóna að varðveita landbúnaðinn, sem er þó sá atvinnuvegur, er sízt má án vera. Bændur eiga að vísu skilið mikið af því lofi, sem á þá hefur verið borið, en mér finnst þó ekki viðeigandi rómantík, er hv. síðasti ræðumaður sagði, að Jón Sigurðsson hefði eingöngu byggt á bændum. Það er engu líkara en Jón Sigurðsson mundi ekki, ef hann væri uppi nú, hafa sérstakar mætur á sjómönnum, verkamönnum og iðnaðarmönnum. Áður var það svo, að bændastéttin var þjóðin, en nú er orðin margvísleg verkaskipting. Bóndinn var áður landbóndi og útgerðarmaður og oft iðnaðarmaður líka, og svo var um allt hans heimili. Verkaskipting er nú orðin þannig, að iðnaður er rekinn í þorpum og kaupstöðum, og eins er með útgerðina. Vegna þessarar verkaskiptingar, sem nú er orðin, mundi Jón Sigurðsson eflaust meta verkamenn og sjómenn jafnmikils og bændur, ef hann væri nú uppi. Ég tók enn fremur eftir því hjá hv. síðasta ræðumanni, sem annars talaði friðsamlega, eins og hans er vandi, að kaupið í kaupstöðunum væri aðalfjandi bændastéttarinnar. En er það ekki einmitt þetta kaup, sem ákveður kaupgetu þeirra, er landbúnaðarafurðirnar kaupa, og er það ekki líf bóndans, að almenn kaupgeta sé í kaupstöðunum? Hv. þm. ætti sízt að saga af trénu þá greinina, sem hann situr á. Það er einfaldur sannleikur, að íslenzkur landbúnaður væri illa farinn, ef þorpa- og kaupstaðabúar hefðu ekki sæmilega kaupgetu, því að innlendi markaðurinn er aðalatriðið,því að þótt til séu nokkrir ríkir menn, sem eiga milljónir, þá eru þeir varla svo ríkir, að þeir eigi meira en einn maga hver til að láta mjólkina í. Það eru einmitt hinir mörgu magar almennings, sem standa undir landbúnaðinum. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að bóndinn, verkamaðurinn, sjómaðurinn og iðnaðarmaðurinn hafi allir sömu hagsmuna að gæta, þegar vel er að gáð, og það má vara sig á því að draga allt fé til bóndans eins. Og ég tel, að þeir hv. þm., sem þetta frv. flytja, eigi enga vanþökk skilið af hálfu bændastéttarinnar. En þó að þetta sé gott og blessað, liggja hér fyrir ýmis önnur frv., eins og að koma upp áburðarverksmiðju fyrir 20 millj. kr. og gefa bændastéttinni hana. till. um að kaupa áhöld handa bændum og auka ræktunarstyrkinn um helming. Þetta er ekki nema gott, ef peningar eru til þess. En er ekki kominn tími til að staldra við og athuga, hvort jafnvægi er ekki farið úr skorðum? Í sambandi við þetta frv., sem ætlazt er til, að gangi í gegn, er ástæða til að minnast þess, að — í landinu eru fleiri atvinnuvegir en landbúnaðurinn og að þeir hafa einnig sínar þarfir. Það er nú svo, að gagnvart útlöndum er sjávarútvegurinn grundvallaratvinnuvegur, og það þarf að búa vel að honum, svo að hann hafi hin beztu tæki til öflunar og verkunar fisks. Það dregur nú að því, að stríðinu ljúki og við fáum minna fyrir okkar afurðir en áður, og þá er illa farið. ef við stöndum uppi félausir til þeirra hluta, sem þarf að gera. Ég tek undir það, að til þess að allt fari betur úr hendi en á horfist, þarf ábyrgan meiri hl. á Alþ. Þó að ábyrgðin sé þung, eins og nú horfir, þarf þessi ábyrgi meiri hl. samt að vera til, svo að takast megi að varðveita þetta jafnvægi milli stétta og atvinnugreina.

Læt ég svo máli mínu lokið, en vil endurtaka það, að ég tel þetta frv. góðs vita, þar sem dýrtíðin hækkar ekki, þótt löglegur réttur sé til hækkunar.