28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (4196)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefur í ræðu sinni hér á undan minnzt sérstaklega á frv. það til breytinga á dýrtíðarl. frá 1943, sem hér liggur til umræðu, og mun ég því að þessu sinni víkja almennt að þeim þætti dýrtíðarmálanna, er, einkum snertir afkomu bænda til samræmis við hag launastéttanna, og þá um leið minnast nokkuð á afstöðu Alþfl. til ráðstafana viðkomandi sölu á landbúnaðarafurðum, með hliðsjón af eðlilegu og sanngjörnu samstarfi bænda og neytenda í bæjunum.

Þess verður stundum vart hjá þeim, er sérstaklega telja sig málsvara bænda og búaliðs, að kala og ósanngirni gæti meðal launafólks í bæjunum til bænda. Alþfl. hefur og stundum verið borinn þeim brigzlum, að hann skorti sanngirni í garð bænda og skilning á högum þeirra og þörfum. En þessar ásakanir eru byggðar á misskilningi eða öðru lakara, og þykir mér því rétt að færa fyrir því nokkur rök.

Þegar skipulagsleysi og keppni hins frjálsa framtaks hafði leitt til fullkomins glundroða og öngþveitis á sölu íslenzkra landbúnaðarafurða innan lands, átti Alþfl. þátt í því með Framsfl. að koma nýju skipulagi á þau mál fyrir 10 árum. Eins og þá var skýrt tekið fram af Alþfl. og mótaði alla afstöðu hans til aðgerða, voru þau sjónarmið að greiða fyrir sölu landbúnaðarafurða á þann veg með nýju og bættu skipulagi, að milliliðagróða og óþarfa kostnaði við söluna yrði sem mest burtu kippt og að þessi nauðsynjavara yrði um leið seld við svo vægu verði, að hún yrði meira og almennara keypt af neytendum bæjanna. Vildi Alþfl. á þann veg samhæfa hagsmuni bænda og neytenda, og er það vissulega sú rétta og eðlilega leið. Hið nýja skipulag þessara mála, er Alþfl. fékk þá alls ekki að öllu ráðið eins og hann vildi, átti frá hans sjónarmiði að verða til þess, að bæði neytendur og bændur nytu góðs af. En því miður varð framkvæmd þessara mála ekki á þá lund, sem Alþfl. ætlaðist til og vildi vera láta. Því ollu einhæf sjónarmið þeirra manna, er fyrir hönd bændanna tóku að sér framkvæmd skipulagsins. Gætti þar miklu meira en góðu hófi gegndi skammsýni og einhuga áhuga fyrir stundarhagsmunum bænda, án þess að réttmætt tillit væri tekið til eðlilegra óska og réttinda neytendanna. Af þessu leiddi togstreitu og tortryggni, er veikti og skemmdi allt skipulagið, svo að það náði ekki þeim árangri, er Alþfl. ætlaðist til og vildi vera láta. En það var ekki hans sök og varð bændum ekki heldur til framdráttar í framtíðinni.

Þegar atvinnukreppan hafði lagzt eins og mara á, íslenzkt atvinnulíf, öll sjávarútgerð stóð mjög höllum fæti og atvinnuleysi þjakaði verkamenn og sjómenn og landbúnaðurinn var í miklum kröggum, þá voru gengislögin frá 1939 sett sem tilraun til úrbóta. Í þeim lögum var hækkun landbúnaðarafurða látin hlíta sömu reglum og hækkun kaupgjalds láglaunaðs verkafólks, m.ö.o. ákveðið, að þáverandi hlutfall á milli afurðaverðs og kaupgjalds skyldi haldast óbreytt. Þetta gilti fram á árið 1940, en þá var afurðaverðið tekið út úr, og á meðan kaupgjald verkafólks var fastbundið og ekki greiddar á það fullar dýrtíðaruppbætur, voru landbúnaðarafurðir hækkaðar stórlega í verði. Þetta vakti sem von var mikla óánægju, og þegar verkamenn gátu því við komið, gerðu þeir samninga við atvinnurekendur um fulla dýrtíðaruppbót og einnig, er stundir liðu fram, samninga um verulegar grunnkaupshækkanir. En þá var afurðaverðið enn hækkað stórkostlega mikið, og er það sannað með útreikningi hagstofunnar, að tekjur bænda vegna hækkaðs afurðaverðs jukust mun meira á árunum 1941 og 1942 en tekjur verkalýðsins. En allt saman þetta jók dýrtíðina í landinu geigvænlega. Bæði Framsfl. og Sjálfstfl. áttu sinn þátt í, að hátt verð á landbúnaðarafurðum ruddi brautina til stóraukinnar dýrtíðar og varð bændunum í raun og veru aðeins stundargróði, er getur haft í för með sér meiri hættu, fyrir rekstur landbúnaðar í framtíðinni, ef ekki. er úr bætt.

Dýrtíðarl. frá 1943 og skipun hinnar margumræddu sex manna n. áttu að vera til þess að finna, og viðhalda réttu hlutfalli á milli tekna bænda. og verkalýðs. En sá galli var á í upphafi, að misræmi hafði átt sér stað áður, á árunum 1941 og 1942, eins og fyrr var getið, án þess að það væri leiðrétt. En auk þess skeði það, að sex manna n., er skipuð var mönnum úr öllum flokkum nema Alþýðuflokknum, komst að bindandi niðurstöðu, er var vægast sagt mjög vafasöm, og voru fulltrúar úr hópi kommúnista, er áttu að gæta hagsmuna verkalýðsins, áreiðanlega ekki nægilega vökulir á verðinum. Alþýðuflokkurinn hefur aldrei fyrir sitt leyti getað fallizt á, að niðurstaða sex manna gerðarinnar væri réttmæt. Og nú hefur einnig það ánægjulega skeð, að fulltrúar bænda á búnaðarþingi hafa fyrir sitt leyti viljað falla frá kröfu um þá 9,4% hækkun á landbúnaðarafurðum frá 15. þ. m., er sex manna gerðin hafði í för með sér, þó að því annars virðingarverða tilboði fylgi bögguli útflutningsuppbótanna.

Með því háa landbúnaðarafurðaverði á innlendum markaði, er orðið hefur hér síðustu ár, hefur skapazt það óheillavænlega ástand, að þær afurðir landbúnaðarins, sem ekki er hægt að selja innanlands, eru seldar á erlendum markaði fyrir langtum lægra verð. En fyrir þessar sakir hefur meiri hluti Alþ. leiðzt inn á þær óheillabrautir að verja tugum milljóna úr ríkissjóði til greiðslu útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Er það auðsætt, að slíkt getur ekki gengið áfram. Bæði er það, að ekki er unnt að reka atvinnuveg með þessu móti, og eins hitt, að ríkissjóð skortir fé til jafntröllaukinna útgjalda, nema það gangi út yfir nauðsynlegar framkvæmdir ríkisins. Og ég þykist vera þess fullviss, að einmitt bændurnir sjái það og skilji, að búskapurinn verður aldrei á því byggður til nokkurrar frambúðar. Það verður því að finnast önnur lausn á vandamálum íslenzks landbúnaðar en tugmilljóna greiðslur úr ríkissjóði til útflutningsuppbóta. Ríkið á og verður að létta undir með atvinnurekstri bændanna á þann hátt að greiða fyrir aukinni vélanotkun og ræktun landsins. En það er sérstakur kapítuli, sem ekki er unnt að útskýra og rökræða nánar að þessu sinni.

Í dýrtíðarmálunum, og þá ekki hvað sízt þeim þætti þeirra, er snertir verðlag landbúnaðarafurða, hafa verið gerð svo mörg og stór mistök undanfarin ár, að örðugt er úr að bæta. Það hefur verið gripið til þeirra ráðstafana hér á landi, eins og víða annars staðar, að halda verðlagi niðri á innlendum markaði með greiðslum úr ríkissjóði. Þessi leið er að vísu vafasöm, þó að því verði alls ekki neitað, að stórkostleg hætta vofi yfir íslenzkum atvinnurekstri, ef allur þungi hinnar raunverulegu dýrtíðar skellur yfir. Má því vissulega segja, að nú, rétt áður en gert er ráð fyrir ófriðarlokum hér í álfunni, verði ekki hjá því komizt að verja tekjum ríkissjóðs að einhverju leyti til þess, að hin raunverulega dýrtið sligi ekki atvinnureksturinn í landinu. En búast má svo við því að stríði loknu, að alþjóðleg viðskipti og samtök skapi ný viðhorf hér á landi.

Út af frv. því, sem fyrir liggur til umræðu, er hægt að segja það, að Alþfl. fagnar því, að bændur skuli hafa sýnt þann skilning, að þeim sé sjálfum og þjóðfélaginu yfirleitt fyrir beztu, að 6 manna nefndar gerðinni sé vikið til hliðar á þann hátt að láta ekki koma til framkvæmda hækkun á verði landbúnaðarafurða. En um leið verður að taka það fram, að ekki er unnt, skynsamlegt né eðlilegt að viðhalda með sama máta og verið hefur útflutningsuppbótum, án þess að nokkuð sé um það vitað, hvað miklar þær þurfi að verða né hvernig þær koma niður, og án þess að tryggt sé, að verkalýðsstéttirnar við sjávarsíðuna haldi ekki lakari kjörum með kaupi og vinnu.