28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Góðir tilheyrendur. Tilefni þessara umr. er frv. til l. um breyt. á l. um dýrtíðarráðstafanir, sem meiri hl. fjhn. þessarar hv. d., þeir Skúli Guðmundsson, Jón Pálmason og Ásgeir Ásgeirsson, flytur.

Tilefnið til samningar þessa frv. voru samþykktir aukabúnaðarþings, sem haldið var í lok síðustu viku. Þetta aukaþing var kallað saman til þess að ræða aðkallandi vanda í afurðasölumálunum og til þess að reyna að leysa þann hnút, sem þau voru komin í. Áður en aukaþingið kom saman, hafði ríkisstjórnin upplýst það, að samkvæmt útreikningi kjötverðlagsnefndar þyrfti kjötkílóið að kosta kr. 11.07, ef hætt væri niðurgreiðslum á innlendu neyzlunni, og kr. 18.87, ef hætt væri verðuppbótum á útflutta kjötinu líka. Fulltrúar bænda hér á þingi gerðu sér ljóst, að þetta verð náði engri átt, vegna þess að það hefði hækkað vísitöluna um ein 60 stig, en þar á ofan hefði fólk yfirleitt hætt að kaupa kjöt.

Þegar þing kom saman í haust, var vitað mál, að óhjákvæmilegt væri að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að stöðva dýrtíðina og skapa þjóðareiningu um að halda atvinnulífi þjóðarinnar, og þá, fyrst og fremst sjávarútveginum, gangandi og auka hann.

Í sambandi við þetta hófust umræður milli flokkanna um myndun stjórnar, er setti sér það verkefni að hefja nýsköpun í atvinnulífi þjóðarinnar og nota til þeirra hluta innstæður þjóðarinnar erlendis með það fyrir augum að fyrirbyggja atvinnuleysi að stríðinu loknu. Í þessum umr. kom það fram, að nauðsynlegt væri að tryggja slíkri stjórn vinnufrið, svo að framkvæmdir hennar trufluðust ekki af innbyrðis deilum atvinnurekenda og verkamanna.

Af þessum sökum var leitað til stjórnar Alþýðusambands Íslands, sem eftir nokkrar viðræður við fulltrúa flokkanna gaf tilboð, sem samþ. var á fundi Alþýðusambandsstjórnarinnar 1. sept. s.l. Tilboðið er svo hljóðandi:

„Vegna fyrirspurnar þeirra Haralds Guðmundssonar og Brynjólfs Bjarnasonar sem fulltrúa nefnda flokkanna, er viðræður hafa átt um stjórnarmyndun, vill stjórn Alþýðusambands Íslands taka það fram, að hún er fyrir sitt leyti meðmælt því, að gerðir verði heildarsamningar um kaup og kjör til tveggja ára í meginatriðum á grundvelli núverandi samninga stéttafélaganna með nauðsynlegum samræmingum kaups og kjara á hinum ýmsu stöðum og starfsgreinum og er reiðubúin að hefja viðræður við fulltrúa atvinnurekenda um þetta efni og leita umboðs sambandsfélaganna til samninga, ef líkur eru til, að samkomulag náist, enda verði um leið samkomulag um verð landbúnaðarafurða í sanngjörnu hlutfalli við almenn launakjör á grundvelli þess, sem verið hefur undanfarið, og gerðar verði ráðstafanir til að tryggja stöðuga atvinnu og fyrirbyggja atvinnuleysi með öllu eftir nánara samkomulagi um þessi atriði o.fl.“

Eins og menn sjá, þá lýsir Alþýðusambandið sig reiðubúið til þess, að komið verði á samningum um kaup og kjör í landinu til tveggja ára, í meginatriðum óbreytt frá því, sem nú er. Hjá öllum stærstu félögunum taldi Alþýðusambandið, að hægt yrði að semja alveg um óbreytt kaup, en á ýmsum smærri stöðum, einkum á Austurlandi, þyrfti nokkrar lagfæringar til samræmis við kaupgjald annars staðar.

Þarna höfðu verkalýðssamtökin riðið á vaðið og boðið tveggja ára frið, til þess að þjóðin gæti snúið sér einhuga að uppbyggingu atvinnulífsins. Vinnuveitendafélagið hefur tekið þessu tilboði Alþýðusambandsins illa, og í stað þess að setjast að samningaborði til þess að koma á heildarsamningum, þvingar það meðlimi sína til þess að taka á sig stórtjón með langvarandi verkföllum út af smávægilegum lagfæringum. Annars er þess að vænta, að hinir einstöku atvinnurekendur taki mál sin í eigin hendúr, en láti ekki Eggert Claessen og hans líka neyða sig út í illdeilur við verkamenn, sem þeir eingöngu skaðast á.

Tilboð Alþýðusambandsins sýndi, að verkalýðurinn er tilbúinn að leggja fram sinn skerf til endurnýjunar atvinnulífsins í landinu og aukningar þess. Verkalýðshreyfingin er tilbúin til þess að leggja niður allar deilur við atvinnurekendur í tvö ár, til þess að þjóðin geti einhuga snúið sér að mestu verkefnum. sem fyrir henni hafa legið til úrlausnar, nýsköpun atvinnulífsins á Íslandi. Þjóðin hefur nú einstætt tækifæri til þess að koma á stórfelldum atvinnuframförum í landinu, bara ef hún vill nota það. Og það verður hún að gera.

Eftir að Alþýðusambandið hafði afhent flokkunum tilboð sitt, var búnaðarþing kvatt saman. Þegar búnaðarþingið kom saman, þá lá það fyrir, að landbúnaðarvísitalan hafði hækkað um 9,4 stig. Enn fremur var alveg óvíst, hvort haldið yrði áfram að greiða niður kjötið og mjólkina á innlendum markaði, og sáralitlar líkur til þess, að það fengist í gegnum þingið að greiða verðuppbætur á útflutt kjöt. Í Tímanum 2. sept. lýsir HermJ því yfir, að jafnvel þótt samþykktar hefðu verið þessar uppbætur, þá hefðu þær ekki fengizt, vegna þess að ekki er hægt að afla ríkissjóði þess fjár, sem til þurfti, sem hann telur um 30 millj. kr.

Við skulum nú athuga samþykktir búnaðarþingsins og hvað í þeim felst. Búnaðarþingið samþykkir að falla frá 9,4% af verði allra landbúnaðarafurða, sem seldar verða á innlendum markaði. Hér er aðallega um tvær vörutegundir að ræða, kjötið og mjólkina. Frá hendi búnaðarþings er það skilyrði fyrir þessari lækkun, að bændum verði greiddar uppbætur á útflutningsvörur sínar frá 15. sept. 1944 til jafnlengdar 1945. Því verður ekki neitað, að í þessum samþykktum búnaðarþings er mikið óréttlæti, sem hefur valdið mikilli óánægju meðal bænda. Lækkunin, sem búnaðarþingið féllst á og talið er, að nemi 10 millj. kr., kemur að meira en helmingi niður á mjólkurframleiðendum, sennilega 7 millj. kr., en endurgjaldið, sem Búnaðarfélagið krefst. eru uppbætur, sem eingöngu renna til þeirra bænda, sem framleiða kjöt. Lækkun þessi er tekin af öllum bændum jafnt, bæði smábóndanum, sem ekkert má missa af þurftartekjum sínum, og þeim stóru. Þannig verða smærri mjólkurbændur að sætta sig við 10% lækkun á mjólk sinni alveg einhliða, en fá ekkert í staðinn, vegna þess að þeir flytja ekki út neinar vörur. Það er furðulegt, að Búnaðarfélagið. sem telur sig hagsmunasamtök bænda almennt, skuli beita sér fyrir svona óréttlátum ráðstöfunum. Bændur austan fjalls eru yfirleitt mjög óánægðir með þessar aðgerðir, af því að þeir finna, að hagsmunum þeirra hefur verið fórnað til ávinnings fyrir kjötbændur.

Stjórnarblaðið Vísir og Jónas frá Hriflu hafa veitzt að búnaðarþingi fyrir samþykktir þess og reynt að hagnýta sér óánægju bænda austan fjalls. En það er vert að minna þessa menn á, að frv. ríkisstjórnarinnar, sem rætt var hér í útvarpinu um daginn og þeir töldu ágæta lausn, var margfalt ósanngjarnara í garð bænda en samþykkt búnaðarþingsins.

Ég vil ekki láta hjá líða að taka það fram, að Sósfl. og Alþýðusamband Íslands hafa aldrei haft neitt á móti því, að bændur fengju verð samkvæmt niðurstöðu landbúnaðarvísitölunefndar fyrir þær afurðir sínar, sem seldar væru á innlendum markaði, og töldu líka eðlilegt, að þeir fengju þá hækkun, sem fram átti að fara 15. sept. s.l. Ákvörðun búnaðarþings um, að bændur afsöluðu sér 10% hækkuninni, er því á engan hátt gerð að beiðni verkalýðssamtakanna eða okkar sósíalista. Það voru aðrar ástæður, sem knúðu fram þessa lækkun á búnaðarþingi. Það voru óskir hinna stærri kjötbænda um að fá verðuppbætur á útfluttu afurðirnar, kjöt, ull og gærur, sem knúði samþykktina fram. Þessir bændur virðast eiga fleiri fulltrúa á búnaðarþingi en mjólkurbændurnir, og þeir sáu, að ekki væru miklar líkur til þess, að útflutningsuppbætur í sömu mynd og tvö síðast liðin ár yrðu samþykktar á þinginu, nema bændur slökuðu eitthvað til með verðið, og þá fundu þeir það ráð að falla frá hækkuninni líka. Samþykkt búnaðarþingsins er fyrst og fremst gerð til þess að tryggja stórbændum, sem kjöt framleiða, útflutningsuppbætur eitt ár enn þá. Þessir stórbændur, sem réðu samþykkt búnaðarþings, eru ekki að hugsa um lækkun dýrtíðarinnar, því að það kostar ríkissjóð — sbr. upplýsingar HermJ — 20 millj. kr. meira að taka tilboðinu en að hafna því. 25 millj. mun hér vera réttari tala. — Ég hef sagt, að það væru stórbændurnir, sem væru að reyna að tryggja sér útflutningsuppbætur á kjöt sitt með tilboði búnaðarþings. Þetta segi ég af því, að það hefur aldrei valdið neinum deilum að greiða útflutningsuppbætur til smábænda. Við sósíalistar fluttum till. um það á þingi í fyrra, að uppbætur yrðu greiddar til þeirra bænda, sem hafa allt að meðalbúi samkvæmt ákvörðun landbúnaðarvísitölunefndar, og á þann hluta af afurðum stærri búa. sem nemur afurðamagni meðalbús. Þessar uppbætur hefðu ekki kostað ríkissjóð meira en nokkrar milljónir og voru sjálfsagðar, þegar miðað er við lífskjör almennings í landinu þessi ár. Eins og uppbæturnar hafa verið framkvæmdar með aðgerðum Framsfl. og Sjálfstfl., þá hafa þær kostað ríkissjóðinn tugi millj. króna, sem að langsamlega mestu leyti hafa lent hjá stórbændum, sem höfðu hátekjur fyrir. Gleggsta sönnun þess, að fulltrúar bænda hér á þingi vita um það, að uppbæturnar hafa að mestu lent óverðskuldað hjá hátekjumönnum, er sú, að þeir hafa staðið eins og veggur gegn því, að Sambandi ísl. samvinnufélaga og kaupfélögunum væri gert að skyldu að gera grein fyrir því, hvernig uppbæturnar skiptust á bændur. Fulltrúar bænda vilja ekki láta gera grein fyrir því, hjá hverjum þessir tugir milljóna lenda, það er ekki heldur von. — Til þess að tryggja smærri bændum, eða þeim, sem þörf höfðu á, uppbætur á útfluttar afurðir, var því óþarfi að falla frá 10% hækkuninni, eins og búnaðarþing gerði. Hinir stóru kjötbændur, sem ráðin hafa í Búnaðarfélaginu, ætla að fórna nokkru af tekjum smærri bænda og mjólkurbænda, en þeir ætla sjálfir að taka endurgjaldið.

Það ber enga brýna nauðsyn til þess að taka af bændum þessi 10%. Eðlilegast væri að halda sér alveg við sex manna nefndar samkomulagið, en. lækka dýrtíðina með öðrum hætti. Við höfum bent á ýmis ráð, og má þar nefna aukið eftirlit með okri heildsalanna og sérstaklega nákvæmari skoðun á hinum fölsuðu innkaupareikningum þeirra frá Ameríku, sem álagning þeirra er miðuð við. Enn fremur má benda á farmgjaldaokur Eimskips, sem hefur aukið dýrtíðina um hátt í 40 millj. króna. Loks vil ég benda á tollalækkanir, sem myndu hafa veruleg áhrif til lækkunar á dýrtíðinni, og mætti nota það fé, sem nú fer í uppbætur til ýmissa hátekjumanna úr bændastétt, til þess að mæta tekjurýrnun ríkissjóðs vegna tollalækkananna.

Það er ekki úr vegi að gera sér grein fyrir öllum þeim uppbótum, sem greiddar hafa veri til bænda vegna afurða þeirra á undanförnum stríðsárum. Verðuppbætur á útfluttar afurðir eru sem hér segir:

1941: Af svo nefndum stóra sjóði á afurðir 1940 4,8 millj. kr.

1942: 1) á afurðir 1941 kr. 4,5 millj.

2) Útfluttningsuppbætur á afurðir 1942:

Gærur… Kr. 8,7 millj.

Ull…...... – 5,3 –

Kjöt…… – 6,0 –

Gærur.. – 1,0 –

Samtals. – 21,0 millj.

1943 námu útflutningsuppbæturnar ca. 12,0 millj. kr. og 1944 samkv. frv., kr. 15,0 millj.

Uppbætur vegna markaðstapa erlendis, að því er fulltrúar bænda segja — þó að þeir vilji nú framlengja uppbótarfyrirkomulagið til 15. Sept. 1945, þó að stríðinu verið lokið fyrir þann tíma — eru því samtals um 57 millj. króna.

Auk þessara uppbóta hefur nú tvö undanfarin ár verið greitt niður verðlag á landbúnaðarvörum innanlands. Fulltrúar bænda á þingi hafa frá byrjun sérstaklega beirr sér fyrir þessum niðurgreiðslum. Og í tilboði Búnaðarfélagsins segir HermJ, að það sé undirskilið skilyrði fyrir lækkuninni, að þeim verði haldið áfram allt tímabilið. Niðurgreiðslurnar eru þessar:

Árið 1943………….ca. 14,0 millj. kr.

— 1944……………. – 20,0 — –

Samtals eru það ca. 34,0 — –

Þannig hafa fulltrúar bænda á s.l. þrem árum tekið út ríkissjóði í verðuppbætur á útfluttar afurðir og til lækkunar á mjólk og kjöti innan lands kr. 9100 millj. — Fyrir utan þetta halda allir gömlu styrkirnir sér, sem skipta nokkrum millj. á ári, þar á meðal lækkun áburðar 1942, er nam 1. Millj. kr., og óeðlileg lækkun síldarmjöls, sem hvergi kemur fram sem beint framlag. Allir þessir styrkir hafa þessi þrjú ár ekki numið minnu en 5. Millj. kr. árlega, svo að þá er heildraupphæðin komin nokkuð yfir 100 millj kr.

Hér eru ótalin framlög vegna sauðfjársjúkdóma, sem nema allmörgum millj. króna.

En þetta væri nú allt saman gott og blessað ef þessi fjárhæð hefði farið til þess að bæta á varanlegan hátt búskaparháttu og vinnuaðferðir við framleiðsluna og við gætum skorið upp þann ávöxt að fá afurðirnar framvegis fyrir lægra verð. En það er ekki því að heilsa. Engar stórfelldar framfarir hafa átt sér stað þessi ár, sem geti lækkað verðið á vörunum án þess að skerða tekjur bænda. Obbinn af þessum peningum hefur farið til hátekjumanna í bændastétt, til þess að gera þá enn ríkari, Enn þá berjast smábændur við skort og flosna upp, jafnvel örar en áður gerðist. Fólkið flykkist úr sveitunum í bæina.

En hvaða áhrif hafa svo þessar uppbætur, ef litið er fram í tímann. Engum óbrjáluðum manni getur komið það til hugar, að þessar uppbótagreiðslur geti haldið áfram til lengdar, og hvað tekur við, þegar þeim verður hætt? Við höfum í nokkurn undanfarin ár staðið frammi fyrir því vandamáli, að þjóðin hefur framleitt of mikið af kjöti og hefur því orðið að selja það kjöt, sem ekki var neitt í landinu, á erlendum markaði fyrir miklu lægra verð en bændur töldu sig þurfa að fá og kjötið var selt fyrir hér heima. Þessu vandamáli átti þjóðin að mæta á þann hátt að minnka kjötframleiðsluna þannig, að hún nægði þörf þjóðarinnar og ekki meira. Í staðinn fyrir þetta hefur verið farin uppbótarleiðin og bændur fengið jafnmikið fyrir allt kjöt, hvert sem það var selt á háu verði í bæjunum eða fyrir slikk úti í Englandi, og þetta hefur orðið til þess að örva kjötframleiðsluna enn meir en annars hefði orðið. Þegar svo uppbótunum verður hætt, komast kjötbændur í algert öngþveiti með framleiðslu sína. Sumir bændafulltrúarinr segja, að stórir markaðir munu opnast fyrir kjöt okkar á meginlandi Evrópu. Þessu er slegið fram. Þeir trúa því ekki sjálfir. Hrun í þessari atvinnugrein er fyrirsjáanlegt, og það eru einmitt fulltrúar bænda hér á þingi, sem hjálpast að við að koma kjötbændum í þessa klípu.

Með sex manna nefndar samkomulaginu var lagt inn á nýjar brautir. Þar sömdu fulltrúar neytenda og framleiðenda um verð á afurðurnum, er miðaðist við það, að bændur hefðu sömu tekju og vinnandi fólk bæjanna. Verðniðurstöður n. urðu nokkru lægri en orðið hefði, ef fylgt hefði verið sömu reglu og fylgt var haustið 1942, þegar framsóknarmenn og Ingólfur á Hellu ákváðu verð á þessum afurðum, sem orsökuðu um 50stiga hækkun á vísitölunni. Þegar til framkvæmdanna kom, héldu framsóknarmenn því fram, að með sex manna nefndar samkomulaginu væri ríkissjóður skyldugur til að greiða verð nefndarinnar á alla framleiðslu bænda, hvort sem brúk væri fyrir hana eða ekki. Með skírskotun til slíkra raka voru verðuppbæturnar ákveðnar síðast. Nú hefur formaður Framsfl., HermJ borið þennan skilning til baka. Hann segir svo í grein sinni í Tímanum 26. Þ. m.:

„Dýrtíðarl., sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1943. Það hafa margir misskilið þessi l. Þeir hafa álitið, að með þeim tæki ríkissjóður ábyrgð á því, að bændur fengju tiltekið verð fyrir afurðir sínar. Svo er ekki. Í l. var ákveðið, að tiltekin n. (sex manna n. margumtalaða) skyldi komast að niðurstöðu um, hvar hátt verð bændur þyrftu að fá fyrir afurðir sínar, til þess að tekjur þeirra væru sambærilegar við tekjur annarra vinnandi stétta. Ef n. yrði sammála, skyldi álit hennar lagt til grundvallar við verðlagningu landbúnararafurða. Ríkið tekur hins vegar ekki ábyrgð á, að bændur fái þetta verð.

Þetta vissu raunar allir frá byrjun, meira að segja framsóknarmenn líka. Það var bara eitt af ráðum þeirra til að koma fram uppbótarkröfum sínum á þingi að leggja þann skilning í dýrtíðarl. frá 1943, að ríkissjóður ábyrgðist bændum tiltekið verð. En nú þurfti Hermann að verja hendur sínar gagnvart árásum Jónasar frá Hriflu, og þá var betra að segja, að verðuppbæturnar fengjust fyrir baráttu hans manna og sniðugheit, en hafi ekki verið lögbundnar áður. Þannig hefur Jónas neitt Hermann til þess að segja satt.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir , er hins vegar gert ráð fyrir því að lögfesta ábyrgð ríkissjóðs á því, að bændur fái hið tiltekna verð fyrir afurðir sínar, ekki einasta til stríðsloka, heldur til 15. sept. n.k. Ég verð nú að segja að það stingur nokkuð í stúf við árásir Alþfl. á hendur sósíalistum fyrir þátttöku okkar í sex manna nefndar samkomulaginu að sjá ÁÁ, hv. þm. V-Ísf., meðal flm. þessa frv. En það er eins og fleira frá Alþfl., að það er erfitt að finna nokkra brú í því, sem þeir segja og gera.

Sama má segja um niðurkaup dýrtíðarinnar. Fyrir nokkrum dögum veittist Alþýðublaðið að okkur sósíalistum fyrir það, að við áttum þátt í því að framlengja niðurkaupin í 8 daga, meðan viðræður fóru fram milli flokkanna, í stað þess að þau hefðu framlengd óákveðið, en nú flytur þm. þeirra, sá sami og ég nefndi áðan, frv., sem lögbindur niðurgreiðsluna til 15. sept. n.k. Tvískinnungshátturinn er svo mikill, að mann brestur orð til að lýsa honum.

Uppbætur þær, sem nú er krafizt bæði til að bæta upp útfluttar afurðir og greiða niður afurðir bænda á innlendum markaði, nema nú um 25 millj. kr. Samtök bænda og fulltrúar þeirra hér á þingi, sem bera kröfu þessa fram, vilja að haldið sá áfram gamla mátanum við þessar uppbætur þó að þeir séu sjálfir farnir að sjá að þetta uppbótafargan allt eins og það er framkvæmt leiðir til hruns yfir mikinn hluta bændastéttarinnar. En það þýðir ekki að fást um það, fulltrúara bænda eru ekki til viðtals um samvinnu í þjóðmálum sem beinist að hinum stóru verkefnum, sem fyrir þjóðinni standa nú, nema þessi greiðsla fari fram. 25 millj. er að vísu stór upphæð og eðlilegt, að íbúar bæjanna, en á þeim lendi að greiða þetta fé, séu með nokkurn kurr út af þessum óhemju fjáraustri ofan á allt, sem þegar er búið að greiða til Íslenzka landbúnaðarins.

Íslenzka þjóðin hefur nú tækifæri, sem hún hefur aldrei átt áður, tækifæri til þess að stórauka og endurskapa allt atvinnulíf sitt þannig, að atvinnuleysi verði bægt frá um ófyrirsjáanlega framtíð, kannske alveg. Þetta tækifæri stendur í sambandi við stríðslokin. Evrópustyrjöldinni er brátt lokið. Þjóðirnar hafa gengið í gegnum harðari skóla en nokkru sinni fyrr. Þeir einstaklingar, sem hafa lifað af hörmungarnar, hafa safnað sér mikilli lífsreynslu, og þeir eru ákveðnir í því að láta ekki fórnir sínar og kvalir verða til einskis. Þjóðir Evrópu vita, að ein höfuðorsök styrjaldarinnar var atvinnuleysið og baráttan um markaði og hráefnalindi, og þær eru ákveðnar í því að láta atvinnuleysið ekki koma aftur. Bandamann eru þegar byrjaðir undirbúning undir ráðstafanir til þess að fyrirbyggja atvinnuleysið, forystumenn þeirra gera sér það ljóst, að það er verkefni, sem hægt er að leysa. Þeir komast ekki undan þessari kröfu almenninga, því að það er eins auðvelt að útrýma atvinnuleysi á friðartímum ein og það er hægt á stríðstímum. Sovétríkin hafa endanlega fyrirbyggt atvinnuleysi hjá sér, og sú staðreynd er auðvaldsríkjunum enn þá meiri hvöt til að gera slíkt hið sama.

En hvað þýðir það, ef ekkert atvinnuleysi verður í Evrópu? Það þýðir, að við höfum miklu meira en nægan markað fyrir allt það, sem við getum framleitt af fiskmeti og sjávarafurðum. Það mun koma á daginn, að framleiðslutæki okkar verða ekki nándar nærri nógu stór og mikilvirk til að geta látið í té næga vöru.

Okkar bíður það verkefni að stórauka fiskiflota okkar með fullkomnustu nýtísku skipum, byggja hvers konar verksmiðjur til vinnslu sjávarafurða, raforkuver í sambandi við þær, byggja nýjar hafnir og önnur mannvirki til aukinnar framleiðslu sjávarafurða.

Þetta eru mikil verkefni, og þjóðin er líka vel undir það búin að leggja í framkvæmd þeirra. Hún á 500 millj. króna inneign í erlendum bönkum. Með þessu fé er hægt að breyta atvinnulífi landsins og stórauka það. Ef þetta fé er notað til nýsköpunar atvinnulífsins á Íslandi, þá verður ekkert atvinnuleysi hér að stríðinu loknu.

Þetta er hið stóra tækifæri Íslendinga, sem okkur hefur aldrei boðist áður og sem við getum glatað, ef ekki er þegar í stað gengið að framkvæmdum.

Á þessum miklu tímamótum í sögu þjóðarinnar, þegar hún stendur frammi fyrir slíkum óhemju möguleikum til vaxandi menningar, þá hefur Alþýðusamband Íslands boðið atvinnurekendum fyrir munn íslenzks verkalýðs tveggja ára frið í öllum kaupstreitumálum til þess að gera sitt til að skapa þá þjóðareiningu, sem nauðsynleg er til samstilltra átaka í atvinnumálum þjóðarinnar með það fyrir augum að fyrirbyggja atvinnuleysi. Til viðbótar friðartilboði Alþýðusambandsins vil ég hér með lýsa yfir af hálfu Sósfl., og ég veit að þar tala ég fyrir munn meginþorra alls verkalýðs í landinu, að hann er meðmæltur, að ríkisstjórnin greiði þær 25 millj., sem fyrirliggjandi frv. fer fram á, ef það getur orðið til þess, að mynduð verði ríkisstj., sem ræðst í það strax að hagnýta alla þá miklu möguleika, sem þjóðin hefur nú til atvinnuframfara og ég hef áður lýst. Ef þjóðin gengur a því einhuga að endurskapa og auka atvinnulíf sitt, þá mun svo fara að jafnvel 25 millj. kr. reynist smámunir, sem enginn mun sjá eftir, að lagðar yrðu fram til þess að skapa nauðsynlega þjóðareiningu.