28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er þríþætt. Í fyrsta lagi, að sú verðhækkun á landbúnaðarvörum, 9,4%, sem nú skyldi verða samkvæmt sex manna nefndar samkomulaginu, komi ekki til framkvæmda um eins árs skeið. Þetta þýðir, að verð það, sem bændur hafa fengið heim fyrir kjöt, mjólk og aðra framleiðslu síðasta ár, skuli óbreytt haldast næsta ár. En þessi hækkun stafaði aðallega af þeirri kauphækkun í landinu, sem orðið hefur síðan 15. sept. í fyrra.

Í öðru lagi á samkvæmt frv. að greiða úr ríkissjóði verðuppbætur á þær landbúnaðarvörur, sem flytja þarf til útlanda og selja þar lægra verði en fæst á hinum íslenzka markaði, verðbætur, sem nægja til þess, að bændur fái sama verð heim fyrir útflutningsvörurnar sem fyrir hinar, er seljast innan lands.

Í þriðja lagi fer frv. fram á, að ríkissjóður leggi fram fé til þess að lækka hér innan lands útsöluverðið á landbúnaðarvörum, en þetta þýðir, að útsöluverðið verði óbreytt frá því, sem nú er. kjötkg á 6,50, mjólkurpotturinn 1,45 o.s.frv. Þessar niðurgreiðslur eða milligjafir hafa átt sér stað síðan í maí í fyrra.

Síðan á árinu 1939 hefur dýrtíð farið sívaxandi hér á landi. Framfærsluvísitalan, sem ætlað er að sýna hæð dýrtíðar, hefur hækkað með hverju ári, 1939 úr 100 í 111 stig, 1940 úr 111 í 142 stig, 1941 úr 142 í 177 stig, og í janúar 1942 verður í fyrsta skipti stöðvun, sem stendur í 7 mánuði, og var hún afleiðing gerðardómslaganna. Þegar þau brustu vegna hinnar miklu eftirspurnar eftir vinnuafli, tók vísitalan enn á rás úr 183 stigum í júlí 1942 upp í 272 stig í árslok 1942, en á þessu tímabili brutust fram aðalgrunnkaupshækkanir og verðhækkanir á landbúnaðarvörum. Þegar þeirri útrás var lokið, stöðvaðist vísitalan um skeið. En síðan hefur dýrtíðin farið hækkandi, þannig að raunverulega er hún nú um 300 stig, en vísitölunni er haldið niðri í 272 stigum með milljónaframlögum úr ríkissjóði.

Á þessum undangengnu tímum sífelldrar dýrtíðarhækkunar hafa mörg brigzlyrði gengið milli stétta og ein stéttin kennt annarri um, að hún ætti sök á dýrtíðinni. Kaupstaðabúar hafa margir hverjir valið bændum og fulltrúum þeirra þung orð fyrir hinar miklu verðhækkanir á kjöti og mjólk, smjöri o.s.frv. En bændur hafa sakað kaupstaðabúa fyrir hinar miklu kauphækkanir, sem þeir hafi komið fram, sem orðið hafi orsök verðhækkananna á landbúnaðarvörum.

Flestir töluðu um, að þessi togstreita, þetta kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags á innlendum markaði, væri höfuðorsök hinnar sívaxandi dýrtíðar. Þess vegna þóttust menn hafa himin höndum tekið, þegar sett voru l. vorið 1943 um skipun sex manna n., er finna skyldi grundvöll til að tengja saman verðlag og kaupgjald, finna sanngjarnt hlutfall milli tekna bóndans og verkamannsins. Og enn meiri var fögnuðurinn, þegar sex manna n. náði samkomulagi. Þá héldu margir, að meginorsök verðbólgunnar, kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags, væri úr sögunni. Nú var ákveðið og lögbundið: Meðan kaup verkamanna er þetta hátt, skulu afurðir landbúnaðarins kosta þetta.

En skammur tími leið, unz ljóst varð, að með þessu samkomulagi var ekki bundinn endir á deilur. Gagnrýni kom fram á ýmsa lund. Sumum þótti afurðaverðið sett of hátt og bóndinn fengi þannig raunverulega talsvert hærri tekjur en launamaðurinn. Sumum þótti ekki nægilegt tillit tekið til hlutar sjómanna, sem yfirleitt bæru miklu minna úr býtum en þessar 14500–15500 kr., sem samkomulag var byggt á. Aðaldeilurnar urðu samt um útflutningsuppbæturnar, sem ég mun víkja að síðar. En mönnum varð skjótlega ljóst, að með sexmennskunni var að vísu fundið ákveðið hlutfall, ákveðin regla til að fylgja við verðlagningu landbúnaðarvara, en stöðvun dýrtíðarinnar var ekki fundin. Ef verkamaðurinn hækkaði grunnkaup sitt, og það var og er þeim frjálst með l., átti landbúnaðarverðið einnig að hækka sem bein afleiðing kauphækkunarinnar.

Þegar nú í sumar var reiknuð út að nýju landbúnaðarvísitalan til að ákveða verðlagið að nýju frá 15. sept., kom í ljós, að kaupgjald í landinu og meðaltekjur launþega hafði á árinu hækkað það mikið, að landbúnaðarvörurnar áttu að hækka um 9,4 af hundraði. Hefði þetta komið til framkvæmda, mundi vísitalan hafa hækkað stórlega.

Þegar svo horfði, sátu fulltrúar þingflokkanna fjögurra á daglegum ráðstefnum til að reyna að finna samkomulagsgrundvöll fyrir stjórnarmyndun og stöðva dýrtíðina. Myndin, sem við augum blasti, var ekki glæsileg: Dýrtíðin raunverulega um 300 stig, en haldið niðri í 272 stigum með því að greiða beint úr ríkissjóði a.m.k. eina milljón króna á mánuði. Ef 9,4% hækkunin, sem bændur samkvæmt dýrtíðarl. áttu heimtingu á, kæmi til framkvæmda, var tvennt til: Vísitalan hækkaði stórlega, eða ríkissjóður héldi útsöluverðinu óbreyttu frá því, sem nú er, með því að greiða milligjöf, en það hefði kostað 8–10 millj. kr. á ári í viðbót við þær stórkostlegu fúlgur, sem nú eru greiddar til niðurfærslu innan lands og útflutningsuppbóta.

Þeim, sem voru að glíma við þessi vandamál, þótti rétt að leita álits bændanna um vandann. Búnaðarþing kom saman, ræddi málið og gerði nær einróma ályktanir, sem hér hefur verið lýst í umr. Þeir buðust til að afsala sér hækkuninni, 9,4%. Á móti fá þeir tvennt, tryggingu fyrir uppbótum' á útfluttar afurðir sínar um eins árs skeið og í öðru lagi von um stöðvun dýrtíðarinnar, stöðvun, sem bæði þeim sjálfum og þjóðinni í heild er hin mesta nauðsyn.

Út af ummælum, sem hér hafa fallið um það, að Alþýðusamband Íslands hafi boðið frið um tveggja ára skeið, vil ég segja það, að á því tilboði eru tveir agnúar frá sjónarmiði atvinnurekstrar í landinu. Annar er sá, að þetta tilboð hefði þýtt samræmingu á kaupi, sem hefði aftur þýtt verulega kauphækkun víðs vegar um land. Og hinn er sá, sem öllum hlýtur að vera ljóst, að það er gersamlega útilokað að gera samninga um óbreytt kaupgjald til tveggja ára, hverju sem fram fer um verðlag að öðru leyti í landinu og á útfluttum vörum og hverjar ráðstafanir, sem menn t.d. vildu gera til að lækka dýrtíðina.

Það er erfitt að segja fyrir fram í tölum, hve miklu nemur uppbótin á útfluttar afurðir landbúnaðarins um eins árs skeið, sem bændur fá. En hækkunin, sem bændur afsala sér, mun um árið nema 8–10 millj. kr. Útflutningsuppbæturnar, sem þeir fá tryggðar í staðinn, munu á þessu ári nema. að því er kjötið snertir, um 8 millj. kr., en þess er að gæta, að líkur benda til, að sú upphæð lækki talsvert, vegna þess að miklu minna þarf að flytja út af kjöti. Er gert ráð fyrir, að slátrun verði nú um 1200 tonnum minni en í fyrra, og verður a.m.k. því magni minna, sem nú þarf að verðbæta en áður. Talað er um, að jafnvel þurfi kannske ekkert að flytja út af kjöti af því fé, sem slátrað er á þessu hausti.

Sumir segja, að bændur hafi fært hér mikla fórn, — aðrir, að bændur hafi aðeins gert einfaldan og hagstæðan verzlunarsamning, afsalað sér 8–10 millj. kr., en fengið tryggingu fyrir svipaðri upphæð í staðinn. Deilur um þetta eru tilgangslausar og jafnvel háskalegar. Þær gefa aðeins tilefni til metings milli stétta. Mér finnst ekki aðalatriðið vera, hvort hér er um fórn eða kaupskap að ræða. Það má rökstyðja hvort tveggja. Mér finnst meginatriðið vera hitt, að búnaðarþingið hefur sýnt óvenju glöggan skilning, viðsýni og þroska. Það þarf skilning til að afsala sér hagnaði, sem bændur áttu samkvæmt l. tilkall til, enda þótt þeir fái allmikið í staðinn. þegar það er haft í huga, að almennt munu margir bændur hafa gert ráð fyrir að fá hvort tveggja, útflutningsuppbæturnar, eins og undanfarin ár, og þessa hækkun um 9,4%, sem aðallega er afleiðing hækkaðs kaupgjalds.

Ég veit, að mörgum hefur gramizt útflutningsuppbæturnar og talið, að með þeim væri verið að ausa fé úr ríkissjóði að ástæðulausu í stað þess að safna í sjóði til framkvæmda síðar. En ég veit líka, að margir hafa ekki gert sér fulla grein fyrir því, hvernig þessar uppbætur eru til komnar. Fyrir stríð áttum við hagstæða, vaxandi og batnandi markaði á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu fyrir íslenzkar landbúnaðarafurðir. Síðustu árin fyrir stríð seldum við slíkar vörur þangað fyrir 5–6 millj. kr. á ári, — árið 1938 fyrir kr. 5.800.000 og árið 1939 fyrir kr. 7.331.000. Þegar Ísland var hernumið, lokuðust þessir markaðir. Ríkisstjórnin gerði þá kröfu á hendur Bretum til skaðabóta fyrir þessa markaðslokun. Bretar viðurkenndu þetta með því að greiða okkur 5 millj. kr. á árinu 1940, sem að langmestu leyti fór til bændanna. Þegar hernámi Breta var aflétt og Bandaríkjamenn tóku að sér hervernd landsins, tóku þeir ekki að sér þessa bótagreiðslu áfram, en lofuðu í staðinn hagkvæmum verzlunarsamningum. Verð það, sem þeir hafa síðan greitt fyrir landbúnaðarvörur okkar, hefur að vísu verið sæmilega hagstætt, en ekki nægt til að skila íslenzkum bændum verði til jafns við innlenda söluverðið. Þá tók ríkissjóður við að greiða þessar verðuppbætur, og siðferðileg skylda hans til þess jókst að sjálfsögðu, þegar sex manna nefndar samkomulagið var gert og verðinu innan lands var haldið niðri í stað þess að bændur höfðu náttúrlega heimild til að hækka verðið á innlendum markaði til að vega á móti hinu lága útflutningsverði.

Að því er snertir niðurgreiðslurnar á hinum innlenda markaði hafa mörg svigurmæli verið mælt. Þær eru í því fólgnar, að við höfum borgað á síðari árum t.d. kr. 1.45 fyrir mjólkurlítrann í stað kr. 1.61 og kr. 6.50 fyrir kjötkílóið í stað a.m.k. kr. 8.45. Þessar greiðslur hafa verið kallaðar ölmusur til bænda af sumum, neytendaskattur af öðrum. Hvort tveggja er rangt. Þessar greiðslur eru inntar af hendi til þess að halda niðri dýrtíðinni eða réttara sagt vísitölunni. Og þetta er gert ekki fyrir sérstakar stéttir, heldur fyrir þjóðfélagið í heild. En um hitt má deila, hvort þetta er skynsamleg ráðstöfun eða ekki. Þó hafa margar aðrar þjóðir gengið þessa braut. Og fyrst á annað borð hefur verið byrjað á þessari leið, þá virðist mér, að það væri fásinna að hætta henni rétt um þær mundir, sem styrjöldinni er að verða lokið í álfunni, en stríðslokin þýða gerbyltingu í fjárhags- og dýrtíðarmálum þjóðarinnar.

Mönnum blöskrar dýrtíðin hér á landi, og það er eðlilegt, en þó hefur vísitalan ekki nándar nærri náð því, sem hún komst í lok síðustu heimsstyrjaldar. Dýrtíðin hefur fært okkur margs konar örðugleika og aukið misrétti að sumu leyti, einkum gagnvart sparifjáreigendum. Hún hefur þó ekki eingöngu dökkar hlíðar. Hún hefur fært íslenzkum verkamönnum, sem unnið hafa fyrir erlenda setuliðið, miklu meira fé en ella hefði orðið og losað marga bændur úr skuldum. Nú sem stendur getur meginið af atvinnurekstri okkar staðizt. Hins vegar er stórhætta á stöðvun á atvinnurekstri hjá okkur, ef dýrtíðin vex frá því, sem nú er. Meginverkefnið nú er stöðvun dýrtíðarinnar. En jafnframt þyrfti þing og ríkisstjórn — hver sem hún verður — að búa út áætlun um niðurfærslu dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðar, er við tæki, ef útflutningsverð á aðalafurðum okkar lækkar verulega.

En á hverjum tíma verður framleiðslan til lands og sjávar að bera sig, til þess að við getum leyst þau ótæmandi framtíðarverkefni, sem biða hinnar íslenzku æsku.

Alþjóð manna hefur legið Alþ. á hálsi fyrir að hafa ekki stöðvað dýrtíðina og myndað þingstjórn. Það má vera, að við þm. séum bæði illgjarnari og vitgrennri en fólk er flest og að einnig sannist á okkur orð Ólafs Pá, að því verr dugi heimskra manna ráð sem þeir komi fleiri saman. En fyrir atbeina þ. hefur samt nú verið stigið heillavænlegt spor til stöðvunar verðbólgu, sem búnaðarþing léði máls á. Og svo segir mér hugur um, að áður langt líði muni Alþingi Íslendinga bera gæfu til að bjarga því, sem eftir kann að vera af virðingu þess. og mynda ríkisstjórn, er styðjist við öflugan meiri hluta þings og þjóðar.