28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (4203)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Háttv. hlustendur. Það hafa verið sögð mörg fögur orð um hina miklu fórn bænda. Ég hygg þó, að einn þm., hv. þm. Mýr., hafi sagt sannleikann allan í einni setningu. Hann sagði, að bændur hefðu átt kröfu, sem vafasamt væri, hvort þeir hefðu getað tryggt betur. Þeir áttu kröfu á hækkun um nær 10%, en höfnuðu henni til þess að tryggja hag sinn enn betur og fá það tryggt, að verðbættar yrðu landbúnaðarafurðir á erlendum markaði. Bændur hafa reiknað sitt dæmi og komizt að skynsamlegri niðurstöðu. Hitt er ljóst, að þessu er svo háttað, að þeir bændur, sem eingöngu framleiða mjólk, gefa eftir, en fá ekkert í staðinn. Hinir fá meira en það, sem þeir láta. En þetta er innbyrðis mál bænda. Bændur eiga lof skilið fyrir að hafa gert tilraun til að koma á sættum innan Alþ., sem mættu verða til þess, að Alþ. taki stjórnartaumana í sínar hendur. Því verður ekki neitað, að með sinni hyggilegu samþykkt lögðu þeir nokkurn skerf til þess, að heppileg lausn málanna fengist.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum þm., að nú sé hlutur verkalýðsins eftir og að hann hafi engan fórnarvilja sýnt. Hóglátlegast mælti hv. þm. Snæf. Hann sagði, að Alþýðusambandið hefði verið spurt, og hefði það svarað, að það væri reiðubúið að gera allsherjarsamkomulag um kaupkjör til tveggja ára. En þar væru tveir gallar á. Í fyrsta lagi hefði Alþýðusambandið talið, að samræma þyrfti kaupkjör einstakra félaga, og í öðru lagi væri ekki hægt að gera samning svo langt fram í tímann. Um hvað var Alþýðusambandið spurt? Að tilhlutun þeirra þm., sem lengst hafa rætt um stjórnarmyndun án árangurs, voru tveir menn sendir til Alþýðusambandsins, og þeir lögðu þetta fyrir Alþýðusambandið:

„Í viðræðum nefnda flokkanna um stjórnarmyndun hefur verið um það rætt í sambandi við dýrtíðarmál og verðlag landbúnaðarvara, hvort líkur væru til, að verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda vildu gera með sér heildarsamninga t.d. til tveggja ára í meginatriðum á núverandi kaupgjaldsgrundvelli með einstökum breytingum til samræmis og þá gengið út frá því, að slíkar breytingar yrðu ekki til þess að hækka vísitöluna (dýrtíðina) svo nokkru nemi.

Jafnframt var um það rætt, hvort unnt mundi að ná samkomulagi um verðlag landbúnaðarafurða á þeim grundvelli, að ekki þyrfti að óttast vísitöluhækkun þeirra vegna, og útgjöldum ríkissjóðs til verðuppbóta yrði stillt í hóf framvegis, þar sem sú skoðun kom fram í viðræðunum, að þýðingarlaust myndi að ræða um festingu kaupgjalds, nema verðlag landbúnaðarvara yrði samtímis fest í ákveðnu, sanngjörnu hlutfalli við almenn launakjör.

Enn fremur hefur í sambandi við fyrr nefnd atriði verið rætt um ráðstafanir til öflunar nýrra framleiðslutækja og til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og verður um það rætt nánar, ef framhald verður á umræðum flokkanna.“ M.ö.o. var Alþýðusambandið spurt, hvort það vildi semja til tveggja ára í megindráttum á þeim grundvelli, sem nú gildir, þó að verið gæti um breyt. að ræða, ef þær orkuðu ekki á vísitöluna. Alþýðusambandið heldur, að það sé spurt í alvöru, og segist vilja ræða málið. Nánar aðspurt sendir það lista um kaupgjald í öllum fél. greint sundur í verðlagssvæði og gert ráð fyrir tilfærslu á kaupi milli svæðanna, en þá kemur það svar frá atvinnurekendum, að þeir telji þetta ekki umræðugrundvöll. Þarna var Alþýðusambandið gabbað og það spurt um það, sem hv. þm. Snæf. segir, að sé óframkvæmanlegt.

Mér kom það ekki á óvart, þó að hv. 4. þm. Reykv. viki nokkrum vinsamlegum orðum að sósíalistum. Við erum svo vanir því. En ég kemst ekki hjá að benda á, að það er furðuleg afstaða hans og blaðs hans að skamma okkur í senn fyrir, að við höfum ekki viljað taka þátt í stjórnarmyndun á undanförnum árum, en að við viljum nú fyrir hvern mun komast í stjórn. En út af því, sem hann sagði um, að það væri óeðlilegt að halda því fyrst fram, að frv. þetta væri á margan hátt meingallað, en geta þó léð því lið, verð ég að segja, að það er ekkert dularfullt, enda veit ég, að hv. þm. skilur það vel. Hér er um að ræða stórmál og samninga um stórkostlegar framkvæmdir og tryggingu fyrir atvinnu alls landslýðs. Það skiptir því miklu máli, hvort tilboði Búnaðarfél. er tekið sem lið í allsherjaráætlun eða hvort það á að standa eitt sér. Ég ætla, að hann skilji það vel, þó að hann látist ekki skilja það, að það er meginatriði, hvort samningar um verð á landbúnaðarvörum eru tengdir allsherjaráætlun um eflingu atvinnuveganna eða ekki.

Það er rétt að geta þess, að hv. þm. V.-Sk. mælti dólgslegum orðum í garð hv. þm. Siglf. út af því, að hann hefði flutt frv., sem gengi í sömu átt og þetta gallaða frv., sem hann væri að ráðast á. Frv. var um tímabundinn frest á dýrtíðarl. og jafnframt, að dýrtíðarl. kæmu aftur til framkvæmda 15. sept., ef ekki væri þá annað betra fengið.

Ég vil segja frá því, hvað ég tel, að eigi að gerast. Til hvers er verið að berjast gegn dýrtíðinni? Bændur verða að fórna, verkamenn verða að fórna, allar láglaunastéttir verða að fórna. En til hvers er verið að berjast við dýrtíðina? Til þess að tryggja almenningi sómasamlega afkomu. Það virðist þá nær sanni að byrja að ganga um garðana þar, sem auðurinn er mestur, nær sanni að athuga rekstur fél., sem á einu ári hefur grætt 20 millj. og aukið dýrtíðina um 40 millj., áður en því er slegið föstu, að það þurfi að lækka lífskjör alls almennings. Ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að það er til í öllum flokkum skilningur á þessu og vilji til þess að breyta eftir því. En hvað þarf, til þess að það sé hægt? Það þarf þrennt til. Í fyrsta lagi, að til séu auðlindir í landinu. Í öðru lagi, að vinnuafl sé til að hagnýta þær, og í þriðja lagi markað fyrir vörur okkar, og það, sem við eigum að sameinast um, er hagnýting fjármagnsins, að tryggja það, að 400–500 millj. í erlendum innstæðum verði notaðar til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu. Nú er tækifæri til þess að koma öllu okkar atvinnulífi á nútíma grundvöll. En það þarf að tryggja það, að féð verði notað á þennan hátt, en ekki til einhvers annars. Það þarf að kaupa ýmis tæki til landsins, af því að þau vantar, og það þarf einnig að koma þeim á þá staði. þar sem þau vantar.

Við höfum einhæft atvinnulíf og þurfum að treysta mjög á erlenda markaði, en tímum frjálsrar samkeppni er nú að verða lokið. Eftir stríðið munu þjóðirnar semja um skiptingu markaða og önnur viðskiptamál, og þær munu semja á þeim grundvelli, að allri alþýðu verði tryggð sæmileg lífskjör. Það, sem við þurfum að gera, er að fá sæti við þetta samningaborð til þess að semja um markaði fyrir þá framleiðslu okkar, sem við þurfum að selja úr landi. Við þurfum að efla atvinnulíf okkar, og við þurfum að tryggja okkur markaði í heiminum til þess að geta tryggt okkur sjálfum viðunandi lífskjör í framtíðinni. Það er því nauðsynlegt, að Alþ. komi sér nú saman, það þarf að mynda fjögurra flokka stjórn og fá samstarf milli allra stétta þjóðfélagsins.

Ég viðurkenni, að bændur hafa stigið spor í áttina til samstarfs. Verkamenn hafa líka borið fram sitt tilboð til samstarfs, en vinnuveitendur hafa sagt, að þeir væru ekki til viðtals.

Ég sé nú, að hæstv. forseti er farinn að gerast órór, og mun tími minn því á þrotum. Ég mun því ljúka nú máli mínu, en vil að endingu segja það, að ég vona, að við berum nú gæfu til allsherjarsamstarfs, til þess að sameina alla krafta okkar til þess að tryggja þjóðinni þau lífskjör, sem við þurfum að hafa í framtíðinni.