06.10.1944
Neðri deild: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég skal byrja á því að víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 391, sem síðasti ræðumaður mælti fyrir. Það var lögð fram í fjhn. till. á þá leið, að það skyldi vera ákveðið í þessum l., að ríkissjóður legði fram það fé, sem þyrfti til þess að halda vísitölunni skilyrðislaust í 272 stigum eftir þetta tímabil, og gat fjhn. ekki fallizt á þá till., með því að það er mjög vafasamt nema óviðráðanlegar ástæður geti komið fyrir, sem gerðu það að verkum, að þetta gæti kostað ríkissjóð mjög mikið fé. Hins vegar segir í þessari brtt., að ríkisstjórnin skuli kosta kapps um að halda vísitölunni í sama farinu, og er því um hana það að segja, að hún stefnir í sömu átt og þetta frv. miðar að því að þetta er það, sem allir vilja og er gert ráð fyrir að muni takast, ef frv. gengur fram, sem gera má ráð fyrir, nema einhverjar óviðráðanlegar ástæður komi fyrir. Fjhn. hefur ekki haft tækifæri til að ræða þessa till. neitt, hvorki við minn flokk né aðra flokka, og vildi ég þess vegna mælast til, að atkvgr. verði frestað um hana til 3. umr., enda þótt ég geti lýst yfir fyrir mitt leyti, að ég sé henni hlynntur og telji ekki nema eðlilegt, að hún verði samþykkt. Annars hef ég ekki fleiru til að svara hv. þm. V.-Sk. nema því, að ég er á annarri skoðun en hann um afgreiðslu þessa máls, því að ég álít, að átt hefði verið búið að afgreiða það, og er næsta ósæmilegt að halda mönnum í óvissu um úrslit þess. En það, sem sérstaklega veldur því, er þetta, að það er mjög óhentugt fyrir þá, sem verzla með kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir, að fá ekki úr því skorið, hvernig fara eigi með þessi mál. Hitt leiðir af sjálfu sér, að verði frv. að lögum, þá verður sjálfsagt hægt að framkvæma þessi mál fjárhagslega, þar sem þetta er atriði, sem ekki ætti að setja í samband við, að þyrfti að bíða eftir afgreiðslu fjárl. — Ástæða væri til að halda langa ræðu út af því, sem hv. þm. Siglf. hefur hér lagt til málanna, en bæði er það, að þessi mál eru margþvæld hér á Alþ., og svo einnig hitt, að síðasti ræðumaður svaraði nokkrum atriðum úr ræðu hans, svo að ég mun fara fljótt yfir sögu, en kemst þó ekki hjá að víkja að nokkrum atriðum, vegna þess að ég tel ýmislegt af því, sem hann sagði, hina mestu fjarstæðu. Afstaða fjhn. hefur verið skýrt tekin fram, þar sem hún hefur lagt til, að atkvgr. frv. verði frestað til 3. umr., því að þá mun upplýst, hvort einhver atriði frv. eru lítt framkvæmanleg, en ég tók hins vegar fram í framsöguræðu minni, að okkur hefði komið saman um við hagstofustjóra, að óþægilegt væri að framkvæma 2. lið 1. gr. frv. eins og hann er þar, og ákvað n. því að fresta brtt. við þennan lið til 3. umr. Það, sem orsakar það, að erfitt er að framkvæma þennan lið, er það, að vísitala landbúnaðarafurða hefur ekki verið reiknuð út nema einu sinni á ári, og kostar það því mikla fyrirhöfn og verður miklum. erfiðleikum bundið að safna skýrslum til þess að gera þetta upp mánaðarlega, og sagði hagstofustjóri, að þetta væri miklum erfiðleikum bundið. Ég skal játa, að þetta er miklum erfiðleikum bundið, en held, að hægt sé að gera þetta á miklu auðveldari hátt, en beri þó sama tilgang, sem sé að verðlag landbúnaðarafurða hækkaði að sama skapi og ef kaupgjald yrði hækkað. Þetta var aðeins sett inn sem vara ákvæði, gerandi ráð fyrir, að svo illa fari ekki, að kaupskrúfan haldi þannig áfram að hækka frá því, sem orðið er. Þetta er eina ákvæðið í frv., sem gæti orkað tvímælis, hvernig beri að framkvæma, og er því engin ástæða til að stoppa frv., þótt ekki sé búið að breyta þessu ákvæði, sem n. hefur gefið loforð um að breyta, enda vita allir, að þetta er ekki annað en aukaatriði í frv. — Þá flutti hv. þm. Sigif. langa ræðu um verðuppbætur á landbúnaðarafurðir, bæði innanlands og útfluttar, og talaði í þeim dúr eins og þær væru aðeins gerðar fyrir bændur og væri mjög misráðið, hvernig farið væri með féð, sem varið væri til að borga þessar uppbætur. Ég hef ekki fengið skýrslur um, hve þessar uppbætur eru orðnar miklar, en ég held þó, að hv. þm. hafi þar farið með tölur, sem eru nokkru hærri en rétt er, og varðandi það, er hann segir, að þetta sé gert eingöngu fyrir bændur, þá fer því fjarri, að svo sé, því að þetta er gert fyrir þjóðarheildina. Enda er það svo t.d. í mínu héraði, að fjölda bænda er mjög illa við þá stefnu að greiða niður verð landbúnaðarafurða, t.d. niðurgreiðslur á dilkakjöti, því að það þýðir samsvarandi verðlækkun á öðrum tegundum kjöts, bæði á nautakjöti, hrossakjöti og ærkjöti. Kemur sú verðlækkun hart niður á þeim héruðum, sem hafa litla kindakjötsframleiðslu, en mikla hrossakjötsframleiðslu, en skaðar aftur á móti ekkert ýmis héruð, sem hafa ekkert hrossakjöt, heldur mjólkurframleiðslu. Þessi verðlækkun skaðar t.d. Húnavatnssýslu, Rangárvallasýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu o.fl., en þrátt fyrir þetta hef ég greitt atkv. með þessum niðurgreiðslum, og er það af því, að ég er sannfærður um, að það borgar sig fyrir þjóðarheildina að fara þessa leið, en er ekki atriði, sem er hagsmunaatriði fyrir bændur. Lækki útsöluverð á vörum þeirra innanlands við þessar niðurgreiðslur, sem ég hef nú tekið fram, er það hagsmunaatriði fyrir alla þjóðina, vegna þess að vísitalan og þá um leið kaupgjald kemu~r á eftir eins og allir vita. Hið sama er að segja um uppbætur á útfluttar afurðir, að öðru leyti heldur en því, að ef ekki verður hægt að selja vöruna það hátt innan lands, að hægt sé að borga af söluverði innan lands, útflutningsuppbætur, þá gegnir allt öðru máli.

Hv. þm. Siglf. talaði í sambandi við uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur um það, að það væri allt fals, sem haldið væri fram, að ríkið væri skyldugt að greiða þessar uppbætur, fals sem framsóknar- og sjálfstæðismenn hafi haldið fram í sambandi við sex manna n. álitið, að þetta væri byggt á lögum. og vitnaði í því sambandi í ummæli formanna flokkanna, ummæli, sem birzt hafa í blöðum Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta má hvort tveggja til sanns vegar færa. Það var lagaskylda í fyrra og er enn. að ef verðið er borgað niður úr ríkissjóði, greiði hann einnig uppbætur. Það er engin lagaskylda, að bændur fái það afurðaverð, sem 6 manna n. ákveður, en hins vegar heimilt að setja það verð á vörurnar, með það gildir sama regla og um kaupgjald. Þótt verkalýðsfél. setji kauptaxta, dettur engum í hug, að ríkið tryggi það kaup. En ríkið tekur alveg í sínar hendur sölu á þessum vörum, um leið og það borgar verðið niður, og af því leiðir svo, að ríkissjóður skuldbindur sig til þess að sjá um, að bændur fái sama verð fyrir alla vöruna, hvort sem hún er seld á innlendum markaði eða erlendum. Varðandi uppbæturnar sem þarf, að það verði 20 til 25 millj. kr., þá er það mál, sem ekki er hægt að segja fast um sem stendur. því að það fer eftir því, hvað mikið þarf að flytja út og hvaða verð fæst fyrir það. Líkur eru til þess, að útflutningsuppbæturnar verði minni en áður, vegna þess að horfur eru á hærra verði á ull og kjöti og sterkar líkur til þess, að minna berist af kjöti til Bretlands frá öðrum þjóðum en verið hefur. Einnig eru sterkar líkur til þess. að ullarverðið hækki svo, að ekki þurfi að greiða mjög miklar ullaruppbætur. Þetta kemur nú allt í ljós, um leið og varan er seld.

Hv. þm. Siglf. talaði um. að það hefði verið nær að umbæta landbúnaðinn með þessum millj. Það hefði kannske verið nær að taka allar launahækkanir af launastéttunum og byggja skip fyrir það fé? Það er sambærilegt að öðru leyti en því, að þar er um margfalda upphæð að ræða, því að það er ekki minna en 100 millj. kr., ef miðað er við útreikninga orlofsnefndar. Ef nota ætti verðuppbæturnar á landbúnaðarvörur eins og hv. þm. Siglf. telur eðlilegast, að nota féð til þess að umskapa landbúnaðinn, nema um smærri upphæðir væri að ræða, svarar það til þess, að launahækkanir launaflokkanna hefðu verið teknar til þess að byggja hús, hafnir, skip og önnur mannvirki í kaupstöðum, og hugsa ég ekki, að neinn þm. telji eðlilegt að fara þá leið. Hitt er alveg satt, að landbúnaðurinn er ekki kominn í fullkomið horf, en við erum að reyna að koma honum í fullkomið horf. Hv. þm. Siglf. ætti að rannsaka afkomu ríkisbúanna, sem fá gefins allan höfuðstólinn og eru rekin sem stórbú og hafa að ýmsu leyti ólíkt betri aðstöðu en bændur hafa við að búa. Samt hafa mörg þessara búa verið rekin með stórhalla, að vísu ekki síðustu árin, en það sýnir þó. að það er ekki einhlítt að koma landbúnaðinum í fullkomið horf. Þá fór þm. Siglf. að bera saman afköstin hjá landbúnaðinum og sjávarútveginum og taldi um sjötugfaldan afkastamun að ræða. Það getur vissulega komið fyrir, að hægt sé að moka upp síld sjötugfalda að verðmæti miðað við t.d. kjöt, en þegar farið er út í svona samanburð við landbúnaðinn, væri helzt hliðstætt, að einhverjum mönnum væri leyft að smala saman fé á afrétti til þess svo að selja og drepa og bera svo saman afköstin! Sjórinn kringum landið gefur alveg jafna afkastamöguleika og sjórinn við önnur lönd, en við landbúnaðinn henta ekki alltaf sömu tæki hér og notuð eru annars staðar, aðstaðan oft gerólík og landkostir mismunandi. Hv. þm. Siglf. talaði um, að þessi 9,4% hækkun. sem bændur ætluðu að sleppa næmi minni upphæð en þeir ættu að fá í útflutningsuppbætur. Þetta er ósannað mái. Það, sem gerir það að verkum, að bændur falla frá hækkuninni er það, að þeir sjá, að um leið og þeir krefjast þessarar 9,4% hækkunar, mundu þeir lenda í því, að dýrtíðin slyppi laus, og þá þyrftu þeir að bíða heilt ár eftir þeirri hækkun, auk þess að bændur vilja ekki stöðva alla aðalframleiðsluna með því að eiga þátt í auknu dýrtíðarflóði til stórvandræða fyrir allan þjóðarbúskapinn. Hins vegar er ekki þar með sagt, að bændur tapi öllu, sem hér er um að ræða. Þá segir hv. þm. Siglf., að bæjafólk þurfi að greiða níu tíundu af þessum 20–25 millj. kr., sem hann talaði um. Þetta veit hann ekkert um. Mér þykir sennilegt, að það sé í réttu hlutfalli við fólksfjöldann, vegna þess að skattar og tollar koma mjög jafnt yfir menn, hvar sem þeir eru búsettir, og hafa skattar farið mjög hækkandi á síðustu árum vegna aukinna tekna. Þessi fullyrðing hans er alveg út í bláinn, að níu tíundu af upphæðinni komi niður á bæjafólk, þar eð nærri lætur, að 1/3 landsmanna sé í sveitum og beri sinn hluta af upphæðinni í tollum og sköttum. Ég held það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að fara út í varðandi ræðu hv. þm. Siglf. Skal ég þó að lokum minnast á það, að hann sagði, að bændur og þeirra fulltrúar hefðu aldrei séð annað í sambandi við hagsmuni sína en að spenna upp afurðaverðið. Það á illa við að tala svona, þegar bændur bjóðast til að sleppa hækkun, sem þeir eiga rétt á, til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Þrátt fyrir allar uppbætur er það svo, að hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags er bændum óhagstætt. Hæstv. forseti Nd. hefur skýrt frá því. að miðað við smjörverð þarf helmingi meira smjör til þess að borga kaupamanni um vikuna nú en þurfti fyrir 30–40 árum, og sama er að segja um dilkana, að það þarf miklu meira magn til þess að borga vikukaup nú en var áður fyrr. Það var að nokkru leyti sanngjarnt, að þetta kaupgjald breyttist, en munurinn er of mikill. Vegna þess hvernig aðstæðurnar eru, hefur mikið útstreymi verið úr sveitum, en hefði átt að vera aðstreymi, ef afkoman væri eins og hv. þm. Siglf. vill vera láta. Ég vil mælast til þess, að það verði ekki farið inn á þá braut að draga afgreiðslu þessa frv., — ég geri ráð fyrir, að fjhn. geti komið með sínar brtt. strax á morgun, og þá ætti að vera hægt að afgr. málið, og þess er full þörf.