09.10.1944
Neðri deild: 61. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (4213)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Það hefur verið rætt um í sambandi við þetta mái, að af hálfu bænda hafi verið færðar fórnir. Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að sú hækkun, sem átti að verða. falli niður, en í stað þess er því slegið föstu, að verð landbúnaðarafurða til 15. sept. 1945 reiknist eftir vísitölu næsta tímabils á undan. Við skulum reyna að gera oss ljóst, hvað um er að ræða. Það er á huldu, hvernig l. eru skilin.

Samkv. sex manna nefndar álitinu er gert ráð fyrir, að verðákvæði eftir þeim gildi á meðan stríðsástand helzt. Öll þessi verðákvæði falla niður, um leið og stríðið hættir. Það stendur svo í 4. gr. dýrtíðarl., 3. málsgr.: „Nú verður nefndin sammála um vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða og hlutfall milli verðlags á landbúnaðarafurðum og kaupgjalds stéttarfélaga, og skal þá verð á landbúnaðarvörum ákveðið í samræmi þar við, meðan núverandi ófriðarástand helzt.“ Það liggur í augum uppi, að það er ekkert í l., sem mælir með því, að verðið, sem átti að ganga í gildi 15. sept., eigi að halda áfram eftir að stríðinu lýkur. Sama dag og stríðinu lýkur eru l. fallin úr gildi og það verðlagskerfi, sem þeim fylgir. Ef við reiknum með, að stríðinu verði lokið í nóv., er sú 9,4% hækkun, sem hefði átt að vera, gildandi aðeins þangað til. Hvernig lítur það þá út frá ríkissjóðs sjónarmiði að gera þá verzlun við bændur, að þeir samþ. 9.4 % lækkun í 2 mán., en tryggi sér hækkun í 12 mán.? Það fer að verða tvísýn verzlun fyrir ríkissjóð. Það gæti verið eins gott að láta bændur fá þessa 9.4% hækkun í þessa 2 mán. Það gæti kostað ríkissjóð minna en að slá verðákvæðunum og útflutningsuppbótunum föstum. Þetta ber oss að rannsaka.

Ég veit, að bændur gera þetta, af því að þeir vilja sýna þegnskap. Hins vegar verðum við að athuga, hvað er praktískt fyrir ríkissjóð, og þegar við verðum varir við, að það eru til bændur, sem telja þetta eftir og telja sig missa í réttindum, ber oss að vita, hvernig aðstaðan er. Það er ekki ástæða til að svipta bændur réttindum til að skaða ríkissjóð. Og enn hafa ekki komið fram rök fyrir því, að þetta sé til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Það væri illa farið, ef við færum að berja í gegn l. á móti vilja margra bænda, sem teldu sig færa svo og svo miklar fórnir, ef sannleikurinn væri sá, að það borgaði sig bezt fyrir ríkissjóð að láta þá hafa sín 10%. Þarna er um að ræða tímaspursmál, sem við ráðum ekki við, þ.e. hvenær stríðinu lýkur.

Ég álít, að með samþykkt þessa frv. væri ekki aðeins fallið frá sex manna nefndar samkomulaginu, heldur væri bændum veittur réttur til að hækka tekjur sínar fram yfir aðrar vinnandi stéttir í landinu. Það var gengið út frá því í 4. gr. dýrtíðarl. frá 1943, að bændum yrðu tryggðar heildartekjur í samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Með þessu frv., ef að l. yrði, væri því verið að tryggja þessum hluta vinnandi stétta ákveðnar tekjur fram að 15. sept. 1945, sem engum öðrum stéttum væru tryggðar. Það er engin ráðstöfun gerð til þess í þessu frv. að tryggja sjómönnum eða verkamönnum sambærilegar tekjur við það, sem bændur eiga að fá. Af hálfu þeirra manna, sem sérstaklega telja sig forsvarsmenn þessa frv. og mæla með því, hefur þessum stéttum verið lofað atvinnuleysi, kauplækkun og öðrum tekjumissi á, sama tíma og þeir leggja til, að bændur skuli teknir þarna út úr og þeim tryggðar vissar tekjur allan þennan tíma, og vilja fá til þess stuðning ríkissjóðs. Þannig er beinlínis brotið í bága við það, sem var grundvöllur undir 4. gr. dýrtíðarl. frá 1943. þar sem átti að byggja upp sérstakt kerfi, til þess að bændum skyldu tryggð samsvarandi kjör og öðrum vínnandi stéttum.

Ég álít þess vegna, að þær mórölsku forsendur, sem færðar eru fyrir þessu frv., fái ekki staðizt, og fjárhagslega er þetta skaðleg verzlun fyrir ríkissjóð.

Þá vildi ég minnast á 2. lið bráðabirgðaákvæðisins. Þar er talað um, að verði hækkun á kaupgjaldi á tímabilinu 15. sept. 1944 til jafnlengdar 1945, sem áhrif hefur á vísitölu landbúnaðarafurða eða vinnslu- og sölukostnað þeirra samkvæmt útreikningi hagstofunnar, skuli verðlagið hækkað í samræmi við það. Þarna er sú breyt. gerð, að í staðinn fyrir, að áður var gengið út frá því, að verðið væri í samræmi við launakjörin hvort sem væri til hækkunar eða lækkunar, þá er verðlaginu þarna slegið föstu allt árið og á aðeins að taka til greina hækkun, en sleppt því, sem til lækkunar verður, og er með því gengið á kjör annarra vinnandi stétta. Ef framleiðslukostnaður á landbúnaðarafurðunum færi lækkandi, kæmi það ekki að neinu leyti fram.

Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt, þetta er þveröfugt við það, sem byggt var á í l. um dýrtíðarráðstafanir 1943. Það er verið að taka bændur þarna út úr, gangandi út frá því, að verðfall sé í aðsigi. Mér finnst því 2. málsl. 1. gr. þessa frv. þannig, að það sé mjög erfitt fyrir hæstv. Alþ. samþ. hann í því formi, sem hann er í.

Þá er því slegið föstu í 3. málsl., að ríkissjóður skuli leggja fram fé til þess að halda óbreyttu útsöluverði á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði til 15. sept. 1945. Þessar niðurgreiðslur, sem í fylgiskjali Búnaðarfélagsins eru kallaðar neytendastyrkur, hafa verið mjög mikið umræddar. Það hefur í því sambandi verið vitnað til landa í kringum okkur, eins og t.d. Englands og Bandaríkjanna, og bent á það, að í þeim löndum hafi verið greiddur styrkur til að halda niðri vöruverði, og það hefur verið sérstaklega vitnað í það, að í þessum löndum hafi þetta orðið til hagsbóta fyrir verkamenn. Eitt verða menn að athuga í þessu sambandi, og það er það, að í þessum löndum, Englandi og Bandaríkjunum, eru engir kaupsamningar á milli atvinnurekenda og verkamanna, þar er engin dýrtíðarvísitala, verkamenn fá engar uppbætur. Verkamenn í þessum löndum yrðu því, ef þeir ætluðu að fá kauphækkun, að fá atvinnurekendur til að ganga inn á kauphækkun eða þá að fara í stórkostleg verkföll. Þetta hafa ríkisstj. þessara landa skilið, þær vita, að það er nauðsynlegt að geta haldið framleiðslunni í fullum krafti. Þessar ríkisstj. gera því beinlínis ráðstafanir til þess að greiða niður landbúnaðarafurðirnar til þess að koma í veg fyrir, að kröfurnar um kauphækkun skapist hjá verkamönnum. Samt sem áður hefur þetta ekki tekizt betur en svo, að verðvísitalan hefur hækkað mun meira en kaupgjaldið í þessum löndum. Það, sem helzt væri hægt að kalla neytendastyrk í þessu sambandi, er því, þegar gengið er út frá því, að verkamenn fengju ekki sínar uppbætur. Hins vegar er það bein þjóðfélagsleg ráðstöfun bæði með tilliti til stríðsrekstrarins og einnig með tilliti til fjármálaástandsins eftir styrjöldina. Hins vegar hjá okkur, þegar við greiðum niður verð á landbúnaðarvörum, þá erum við beinlínis að halda kaupinu (í krónutölu) niðri vegna þess, að verkamennirnir á Íslandi hafa samið um að fá dýrtíðaruppbót, ef vísitalan hækkaði. Þess vegna er fé tekið af verkamannastéttinni með tollum og sköttum, og þetta fé er síðan notað til þess að borga niður landbúnaðarvörurnar og hindra þar með, að kaupið hækki, hvað krónutöluna snertir. Það er sem sé tekið af verkamönnum til þess að borga niður þeirra eigin kaup. Það hlýtur hver maður að sjá, hver munur er á aðstöðu verkamannastéttar Íslands og verkamannastéttar Englands og Ameríku, þegar verið er að bera hana saman. Hitt er hins vegar alveg rétt, að með þessum niðurgreiðslum er engan veginn verið að styrkja bændur sérstaklega, þetta er ekki styrkur til bænda, þetta er ráðstöfun, sem er gerð til þess að gera okkur samkeppnisfærari með okkar afurðir, sem við seljum út. Þetta er nauðsynlegt að komi fram og menn geri sér ljóst. Hitt er svo annað mál, hvað menn vilja sætta sig við vegna framtíðarinnar til þess að verða samkeppnisfærir með okkar afurðir. Þess vegna er það mjög óviðfelldið, að búnaðarþing í sinni yfirlýsingu skuli setja svona nöfn á þetta. Ég skal geta þess, að til þess að það væri réttmætt að kalla þetta neytendastyrk, yrði að hafa aðra skipulagningu á þessum málum, en hún væri sú, að dýrtíðarvísitalan væri eins og hún er, ríkisstj. ákvæði síðan að borga með hverju kg, sem neytt væri af kjöti og öðru. Menn fengju sína miða um leið og þeir tækju við vörunni, af því að þeir borguðu hana hærra verði og fengju síðan út á miðana á eftir, þá væri styrknum varið til neytenda, en kauplagsvísitalan væri ekki hærri; verðið væri þá eins og það ætti að vera. Neytendur gætu þá ráðið, hvað mikið af sínu kaupi þeir fengju niðurgreitt af ríkissjóði, en bæru að öðru leyti svipaða skatta og áður. Þá fyrst væri verið að framkvæma þetta sem raunverulegan neytendastyrk. Svo er annað ákvæði í þessum 3. lið bráðabirgðaákvæðisins. sem gerir greinina varhugaverða, Með þessu er slegið föstu, að það skuli leggja fé úr ríkissjóði, sem á að skilja sem ráðstöfun gegn dýrtíðinni. Ég skal hins vegar sýna fram á, að það er til praktiskari aðferð, ef ríkissjóður vildi greiða niður vöruverð, heldur en sú að greiða niður landbúnaðarvörur. Það væri praktísk aðferð að verja þeim peningum til þess að lækka tolla á aðfluttum vörum, en takmarka meira að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum. Það er ekkert vit í því að vera búinn að skuldbinda ríkissjóð til þess að greiða niður landbúnaðarafurðir. Það er því þarna líka verið að fara inn á þá braut að ákveða þessa einu aðferð, sem er engan veginn praktiskari aðferð en aðrar. Það er líka verið að setja hér inn ákvæði, sem ég álít mjög hæpin og ekki er hægt að segja, að séu réttlát. Þá er fjórða bráðabirgðaákvæðið. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma greinilega fram, að útflutningsuppbæturnar eru ekki að neinu leyti ákveðnar í dýrtíðarl. frá 1943. Í þeim er ekkert, sem styður það, að útflutningsuppbætur skuli greiddar. Í þeim l. felst það alveg ótvírætt, að reiknað skuli út, hvaða verð bændur þurfi að fá fyrir afurðir sínar til þess að hafa samsvarandi tekjur eins og verkamenn hafa með því kaupgjaldi, sem þeir fá. Hitt var alltaf meiningin með dýrtíðarl. frá 1943, að þau sköpuðu. nokkurt aðhald þannig, að eftir sem áður yrðu þeir, sem stjórnuðu sölu á afurðunum, að hugsa um í fyrsta lagi að koma þessum afurðum í verð á sem praktiskastan hátt þannig, að afurðirnar gæfu bændum sem mest heim aftur. Það liggur í augum uppi, að það var engan veginn meiningin að taka slíkt aðhald burtu. Útflutningsuppbæturnar voru hins vegar farnar að tíðkast, áður en þessi dýrtíðarl. voru samþ. og sex manna nefndar samkomulagið var gert. Útflutningsuppbæturnar byrjuðu 1941, og þeim var haldið áfram 1942, og höfðu þær því verið samþ., áður en sex manna nefndar samkomulagið kom til, eins og hv. þm. muna eftir. Í þál. frá 31. ágúst 1942 segir: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að greiða úr ríkissjóði verðuppbætur á útflutt dilkakjöt fyrir framleiðslu ársins 1942 eftir því, sem þörf gerist, til þess að útflytjendur fái sama verð fyrir það kjöt, komið í skip á útflutningshöfn, eins og heildsöluverð er á kjöti á innanlandsmarkaði á sama tíma.“ Þá var heildsöluverð á kjöti ákveðið af kjötverðlagsn., þar sem framleiðendur gátu ráðið. Með þessari samþ. var ríkissjóður skuldbundinn til þess að verðuppbæta útflutningskjöt, svo að verðið yrði í samræmi við heildsöluverðið 1942. Ríkissjóður var þarna. skuldbundinn ótakmarkað til þess að bæta bændum upp útflutningskjötið, og fulltrúar bænda ákváðu verðið á innanlandsmarkaðinum 1942. Útflutningsuppbæturnar byrjuðu af fullum krafti, þegar búið var að leiða þær í l., og bændafulltrúunum var selt sjálfdæmi um verðlagið. áður en sex manna nefndar samkomulagið kom til greinar þannig að á því sumri, 1942, byrjuðu útflutningsuppbæturnar. Það er því ekki rétt, að útflutningsuppbæturnar hafi stafað af sex manna nefndar samkomulaginu. Það, sem mér finnst sérstaklega athugavert í sambandi við útflutningsuppbæturnar, er ekki það út af fyrir sig, að farið var inn á þessa leið að taka ábyrgð á þessu, heldur hitt, að ríkissjóður skuli taka svona ábyrgð á sig án þess að hafa vald yfir þeim vörum, sem hann kaupir, því að í rauninni er ríkissjóður að kaupa þessar vörur af bændum. Ríkissjóður getur engin áhrif haft á það, að varan sé seld á þeim markaði, þar sem hægt er að fá sæmilegt verð fyrir hana, eða að leitað sé nýrra markaða, að maður nú ekki tali um hitt, ef hugsað væri um málið með framtíðarskipulag fyrir augum, þá væri auðvitað enn fjær lagi, að ríkissjóður tæki að sér að tryggja bændum algerlega verð á ull, í vöru, sem þeir framleiða, eins og gert hefur verið, án þess að ríkissjóður hafi nokkur áhrif á, hvað framleitt er. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ef maður kaupir vinnu af einhverjum manni og borgar honum fyrir allt árið, þá er ekki nema eðlilegt, að hann vilji ráða því, hvað unnið sé. Eins væri ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður vildi einhverju ráða um þá vöru, sem hann borgar svo stórkostlega með. Það er ekki nóg, að landbúnaðarframleiðslan sé mikil, ef henni er hagað þannig, að sífellt er skortur á vörutegundum, sem landsmenn þurfa að fá, á sama tíma og offramleiðsla er á sumum vörutegundum. Þetta vildi ég láta koma fram í sambandi við verðuppbæturnar. Það hefur sem sé komið sér mjög illa fyrir ríkið að hafa engar hömlur á þessu, enda hefur komið fram mikil óánægja út af því, hvernig landbúnaðarafurðum hefur verið ráðstafað. Geymsla á kjöti virðist t.d. hafa verið það slæm, að það hafi eyðilagzt, jafnvel í tugum hundraða tonna. Í öðru lagi viðvíkjandi markaðsráðstöfunum virðist svo sem sölumarkaðir hafi alls ekki verið hagnýttir, hvaða ástæður sem fyrir því kunna að vera.

Hv. þm. A.-Húnv. kom nokkuð inn á landbúnaðinn almennt og spursmálið um rekstur hans í sambandi við þessar umr. Að vísu ætla ég ekki að fara út í almennar hugleiðingar um það mál, þó að það væri ekki nema rétt, ef hér væri hægt að fá sæmilega rólegar umr. um það mál. Hv. þm. A.-Húnv. minntist á það, að hjá ríkinu, þar sem búskapur væri rekinn með mjög fullkomnum tækjum, væri halli. Ég skal ekki bera á móti því, en frá mínu sjónarmiði er það atriði jafnvel enn þá meira atriði fyrir landbúnaðinn heldur en nokkurn tíma fyrir ríkisbúskapinn, þó að ég neiti því ekki, að ef við ættum að ræða í þessu sambandi, hvað Íslendingar eiga að leggja höfuðáherzlu á, þá er það alveg rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það er einmitt sláandi dæmi, að þó að landbúnaður sé rekinn með fullkomnum tækjum, þá á hann erfitt með að gefa það mikið af sér, að hann sé ekki rekinn með halla, á sama tíma og sjávarútvegurinn gefur stórkostlegan gróða. Þetta stafar ekki af því, að íslenzkir bændur séu lakari bændur en sjómennirnir sjómenn, heldur liggur þetta í því, að auðlindir sjávarins eru meiri en sveitanna. Þetta er nú einu sinni þannig, það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn, hvað það snertir.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að við þurfum ekki annað en að ausa síldinni upp úr sjónum, þar sem bændur þurfa aftur á móti að fæða kvikfénaðinn árið um kring, eins og þeir, sem stunda t.d. sauðfjárrækt, og auðvitað ber að leggja höfuðáherzlu á þann atvinnuveg, sem mest gefur í aðra hönd með minnstum tilkostnaði.

Ég held, að hv. þm. V.-Sk. hafi verið að snúa út úr upplýsingum, sem fram hafa komið um afkastamagn í íslenzkum sjávarútvegi. Það er staðreynd samkvæmt búnaðarskýrslum og fiskiskýrslum, að við framleiðum til samans fisk og síld sem nemur milli 400–500 þús. tonnum á ári, en af kjöti 7 þús. tonn á ári, af mjólk um 20 þús. tonn, þar að auki þó nokkuð af ull og gærum. Það er alveg gefið, að afkastamagn sjávarútvegsins er margfalt á við afkastamagn landbúnaðarins, það er vegna auðlinda sjávarútvegsins og vegna þess, að tækin, sem notuð eru við hann, eru miklu fullkomnari heldur en hjá landbúnaðinum.. Afkastamagn sjávarútvegsins er sexfalt á móts við afkastamagn landbúnaðarins. Hins vegar er það augljóst, að við getum ekki komið við eins stórfelldum tækjum við landbúnaðinn eins og sjávarútveginn. Þetta er aðeins til að sýna fram á, að sjávarútvegurinn er sá atvinnuvegur, sem hefur gefið okkur langsamlega mest í aðra hönd, en er ekki til þess sagt að fara í neinn meting við landbúnaðarframleiðsluna. Hitt er svo annað mál, að auk þessara náttúrlegu skilyrða, sem gerir okkur mögulegt að fá meira út úr sjávarútveginum, er tæknin við landbúnaðinn langt á eftir þeirri tækni, sem verið hefur í þeim löndum, sem fremst standa í þessum efnum.

Samkv. niðurstöðum sex manna n. er meðalbú hér á landi 70 kindur, 6 hross og 4 til 5 kýr. Af þessu þarf bóndinn sjálfur að hafa um 14 þús. kr. laun auk vinnulauna, sem samsvara árskaupi vinnumanns, eða um 12 þús. kr. Þótt ég sé ekki fróður um rekstur búskapar, þá á ég bágt með að trúa, að hér sé um mikil afköst að ræða. Ég held, að ekki þyrfti svo mikinn vinnukraft, ef notuð væri sú tækni, sem við eigum kost á. Ég held, að víðast hvar séu framleiðsluhættirnir enn þá. frumstæðir og fjarri því að svara kröfum tímans. Nú kunna einhverjir að segja, að áætlun sex manna n. um þetta sé röng, að meðalbú sé stærra og afköstin meiri en hún vill vera láta. Þessu hafa þó framsóknarmenn mótmælt og telja, að grundvöllur sá, sem n. byggir á, sé réttur og þarfnist engrar endurskoðunar. Þess vegna hljótum við að álykta, að hér sé rétt með farið. En það ætti að vera öllum ljóst, að slíkur atvinnurekstur er þjóðfélaginu ekki hagkvæmur. Þetta þarf að gerbreytast. Það þarf aukna tækni og aukna samvinnu til að koma framleiðslunni í það horf, sem viðunanlegt getur talizt. Framsfl. hefur nú haft 17 ár til umráða til að kippa þessu í lag. En hann hefur metið meir að viðhalda og stofnsetja dreifð býli, þar sem vitað er, að ómögulegt er, að búskapur geti borið sig, heldur en að fullkomna íslenzkan landbúnað og auka afköst þeirra, er að honum vinna.

Nú skal úr því skorið, hvort landbúnaðinum skuli haldið niðri af pólitískum ástæðum, eða hvort gera skuli lífvænlegt í sveitum þessa lands. Niðurstöður sex manna n. sýna, hvar við stöndum, og þær sýna jafnframt, hvað gera þarf. Hv. þm. A.Húnv. benti á það hér áðan, að ekki virtist eftirsóknarvert að vera í sveitunum, það sannaði fólksstraumurinn til kaupstaðanna. Ég er hv. þm. fullkomlega sammála um þetta atriði. Fólkið fer í kaupstaðina, af því að þar eru þægindin meiri og það telur betra að lifa þar, og raunar má telja þetta allhart eftir þann góða vilja, sem ríkt hefur nú um skeið hér á Alþingi, til þess að stöðva flóttann úr sveitunum. En ég er ekki í nokkrum vafa um, að fólkið mun una í sveitunum, ef rétt er að farið. Á síðustu árum höfum við verið sjónarvottar að stórstígum framförum í iðnaði og fiskveiðum. Afköstin hafa verið margfölduð í tugatali, slíkum umskiptum á landbúnaðurinn eftir að taka, og þau hefur Framsfl. hindrað með sínum aðgerðum. Ég viðurkenni, að kjörin verða að batna í sveitunum, en ég held, að það eigi ekki að hækka afurðirnar, heldur að auka framleiðsluna. Ef rætt skal af alvöru um að tryggja bændum afurðaverð, þá held ég, að því verði ekki komið til leiðar, á meðan Framsfl. hefur það hugarfar, sem hann hefur látið í ljós í sínum afskiptum af þessum málum.

Þegar sex manna n. ákvað verðlag á landbúnaðarafurðum, þá var horfið frá þeim hætti að láta lögmálið um framboð og eftirspurn ráða afurðaverðinu. Það var stigið spor til að skapa réttlátan grundvöll, grundvöll, sem annars er ekki viðurkenndur í kapitalistísku þjóðfélagi. Við þetta vill Framsfl. ekki una til lengdar, heldur einungis taka við þeim hagnaði, sem hann færir í bili.

Ég tel réttlátt að tryggja bændum afurðaverð, en þá verða þeir eðlilega að framleiða þær afurðir, sem mest þörf er fyrir. Þá getur ekki lengur gengið, að hver framleiði það, sem honum sýnist, án tillits til þess, hvort þjóðarbúið hefur þess nokkur not.

En með þessari aðferð, sem hér er lögð til, á að gera það samkomulag, sem fengizt hefur, að verzlunarvöru. Það á að gilda sama stjórnleysið og verið hefur um framleiðsluna. Einstaklingarnir eiga að ráða henni, án þess að þjóðarheildinni séu að nokkru tryggðar sínar lífsnauðsynjar.

Það er gersamlega fráleitt að semja um þessa hluti frá ári til árs og gera þetta mikilsverða mál þannig að verzlunarvöru. Ég legg til, að n. athugi þetta betur, áður en það er lagt fyrir þingið að nýju.