09.10.1944
Neðri deild: 61. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (4214)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessar umr. eða blanda mér í deilur um þetta mál.

Það vita allir, að gróður sá, sem vex upp af mosa, hvort sem það er gamburmosi eða Morgunblaðsmosi, er ekki mikils virði. Þess vegna vil ég ekki svara hv. 2. þm. Reykv. Enda mun fáum finnast, að þeir menn, sem bæði í fyrra og nú hafa sýnt hug sinn í garð bænda með þeim nafngiftum, sem þeir hafa látið þeim í té, séu verðir rökræðna um nauðsynjamál þeirra.

Hv. þm. sagði hér áðan, að öll mjólkurframleiðsla bænda næmi ekki nema 20 milljónum lítra, en það er nokkru minna en það mjólkurmagn, sem sent er til búanna á ári hverju, því að það er milli 22–23 milljónir lítra. Og svo heldur hv. þm. því fram, að öll mjólkurframleiðslan sé ca. 20 millj. lítra. Sýnilega þekkir hann ekkert það, sem hann talar um.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp, eru ýmsir gallar á frv., sem ég vildi benda á. Þá er það fyrst í 2. lið frv., um útreikning á hækkuðu verði vara vegna hækkunar kaupgjalds á tímabilinu. Í því sambandi vil ég benda á, að kauphækkanir, sem nýlega hafa átt sér stað á tveim stöðum á Austurlandi, eða á Norðfirði og Djúpavogi, hafa orsakað hækkun á slátrun og geymslu kjöts, sem nemur nærri 1 eyri á hvert kíló af kjöti, sem framleitt er í landinu. Ákvæði, sem fyrirbyggir. að tekið sé strax tillit til slíkra kauphækkana, má ekki sleppa úr frv., og ég tel ekki heppilegt, að hagstofustjóri sé einn um þessa útreikninga, heldur séu settir menn honum til aðstoðar.

Þá tel ég, að 3. liður frv. þurfi athugunar við. Ég held, að vafasamt sé, hvort fært verður fyrir ríkissjóð að greiða uppbæturnar mánaðarlega. Þessu hygg ég, að verði að breyta á þann hátt, að uppbætur verði greiddar að nokkru mánaðarlega, en aðalgreiðsla verði í árslok.

Um málið í heild vildi ég segja þetta:

Ég lít svo á, að ef rétt hefði verið haldið á kjötsölumálunum, þá hefði mátt selja því nær allt kjöt hér innan lands nú í haust sökum þess, hve framleiðslan er lítil. Það má e.t.v. kalla þetta spádóm, en við skulum sjá, hvort hann rætist ekki.

Nú eigum við þegnskap bændastéttarinnar það að þakka, að allt atvinnulíf stöðvaðist ekki hér á landi. Þess vegna er það að sá þegnskapur, sem bændur sýna nú, sýnir okkur, hvílíkt geysidjúp er staðfest milli þeirra og hinna, sem alltaf heimta sinn hlut hækkaðan, á sama tíma, sem bændur falla frá því, sem þeir eiga með réttu. Hvílíkur geysimunur á skilningi og þegnskap er til staðar hjá þessum mönnum. Og á þessum mun eiga ekki bara einstaklingarnir sök, heldur fyrst og fremst forustumenn flokka verkamanna, sem segja mönnum að taka meira í vasa sína í stað þess að brýna þegnskap fyrir fólkinu.