22.11.1944
Neðri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (4227)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Jón Pálmason):

Þetta frv. er búið að bíða lengur hér í hv. d. heldur en eðlilegt hefði mátt þykja, en til þess liggja margar orsakir, bæði þinghléið o.fl.

Hv. fjhn. flytur hér á þskj. 522 tvær smávægilegar brtt., og fjalla þær um þau atriði, sem hér voru mjög mikið rædd við 2. umr. þessa máls. Þessar brtt. eru ekki efnisbreytingar, heldur miða báðar í þá átt að gera þau atriði, sem frv. fjallar um, auðveldari í framkvæmdinni heldur en ella mundi.

Fyrri brtt. er um það, að í staðinn fyrir, að hækkanir, sem mundu verða á verðlagi vegna þess. ef hækkanir yrðu á kaupi, sem hefðu áhrif á verðlagsvísitölu landbúnaðarins, væru reiknaðar út mánaðarlega, þá er ætlazt til þess, að þær verði reiknaðar út í einu lagi í árslok, og með því er gert ráð fyrir, að verðlagið haldist óbreytt árið um kring.

Hin brtt. er um það, að þar sem ákveðið er í 3. lið 1. gr., að þær verðlagsuppbætur, sem ríkissjóður þarf að greiða, skuli greiddar mánaðarlega, þá hefur það upplýstst af tveim aðilum, sem um þessi mál hafa fjallað, að það sé ekki framkvæmanlegt að gera það nákvæmlega, enda má það vera ljóst. Og þess vegna vill n. leggja til, að bætt verði inn í þann lið orðunum „eftir áætlun“.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þessar brtt. fleiri orðum. Ég vænti þess, að hv. d. sé fjhn. sammála um að samþ. þær.